22.03.1984
Neðri deild: 63. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4086 í B-deild Alþingistíðinda. (3478)

196. mál, lausaskuldir bænda

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Hér hefur verið gripið á allstóru máli, sem eru innlánsdeildir kaupfélaganna. Það er kunnara en frá þurfi að segja að á dögum viðreisnar var sú ákvörðun tekin að banna innlánsstofnunum að ákveða sjálfar sín vaxtakjör, á hvaða kjörum þeir taki á móti fé og á hvaða kjörum þeir lánuðu út fé. Með þeirri ákvörðun var á sínum tíma vegið að rótum þess möguleika að innlánsdeildir kaupfélaganna ættu möguleika á að þróast eðlilega og segja má að frá þeim tíma hafi þær verið á undanhaldi.

Ég fagna þess vegna yfirlýsingu viðskrh. þegar hann segir að hann sé andvígur mismunun á milli lánastofnana. Ég get ekki skilið þá yfirlýsingu á annan veg en þann að hann muni beita sér fyrir því að leggja fram frv. á Alþingi þar sem heimili verði að allar innlánsdeildir kaupfélaganna fái útlánarétt á sínu fé eins og um sparisjóði væri að ræða. Það eru að sjálfsögðu mikil og merk tíðindi þegar slíkt kemur frá ráðh., en hafi það verið misskilningur að hann væri andvígur mismunun á milli innlánsstofnana og að hér færi eitthvað á milli mála og það sé ekki hinn rétti skilningur að hann vilji hafa þarna jafnræði á milli, þá hvet ég hann til að gera grein fyrir því hér og nú þannig að sá misskilningur verði ekki skráður á þingskjöl. En fram kom í ræðu hv. 7. þm. Reykv. að það væri í undantekningartilfellum og aðeins miðað við ákveðin bréf sem hann væri andvígur því að um mismunun væri að ræða.