22.03.1984
Neðri deild: 63. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4086 í B-deild Alþingistíðinda. (3479)

196. mál, lausaskuldir bænda

Guðmundur H. Garðarsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. 7. þm. Reykv. fyrir það að hafa komið með þessa þörfu fsp. til hæstv. viðskrh. varðandi stöðu innlánsdeilda kaupfélaganna. Það er vissulega fróðlegt að sitja hér og hlýða á það að jafnvel hv. Alþingi veit ekki raunverulega hvað hér er á ferðinni. Þess vegna hlýtur sú spurning að vakna hjá okkur á grundvelli hvaða heimilda hafa kaupfélögin eða innlánsdeildir annars vegar og Seðlabankinn hins vegar hugsanlega hagað viðskiptum með þeim hætti sem hér er spurt um. Það er gersamlega óviðunandi að ein tegund innlánsstofnana, þ. e. innlánsdeildir kaupfélaganna, skuli sitja við annað borð en aðrar innlánastofnanir. Það gefur auga leið, ef litið er til minni byggðarlaga þar sem kaupfélögin eru mjög sterk verslunarfyrirtæki, að staða keppinautanna í samkeppninni við slíkan aðila er raunverulega engin, þar sem kaupfélögin hafa aðferð til þess að auka ráðstöfunarféð með þeim hætti sem nemur bindiskyldu annarra innlánsstofnana á viðkomandi stað. Þessi mismunur, 28%, er gífurlegur. Þetta felur raunverulega í sér að ekkert annað rekstrarform kemur til greina í minni byggðarlögum þar sem staða innlánsdeilda er með þeim hætti sem hér hefur verið lýst.

Ég fagna því alveg sérstaklega að hæstv. viðskrh. skyldi bregðast með þeim hætti við þessu máli sem hér hefur komið fram, að hann hefur snúið sér til Seðlabanka Íslands og óskað eftir upplýsingum um málið. Það er rétt afstaða hjá hæstv. ráðh. að kveða ekki upp dóm í þessu máli fyrr en öll gögn liggja fyrir. En ef svo skyldi vera, sem því miður margt virðist benda til, að innlánsdeildir hafi notið þessara sérréttinda þá fagna ég því alveg sérstaklega að hæstv. viðskrh. skuli hafa lýst því yfir að hann sé á móti öllum sérréttindum. Í því getur ekki falist nema ein grundvallarafstaða eins og kom fram í ræðu hv. 7. þm. Reykv. Með tilliti til þeirrar atkvgr. sem fram fór áðan þar sem því var hafnað að útvíkka þennan framkvæmdagrundvöll í sambandi við bindiskyldu hlýtur þetta fyrirkomulag að verða lagt niður og allir látnir sitja við sama borð.