26.03.1984
Efri deild: 68. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4093 í B-deild Alþingistíðinda. (3489)

255. mál, almannatryggingar

Frsm. (Salome Þorkelsdóttir):

Herra forseti Heilbr.- og trygginganefndir beggja deilda fjölluðu um þetta frv. sameiginlega til þess að flýta afgreiðslu málsins að ósk hæstv. heilbrrh. Í framsöguræðu hans, þegar hann mælti fyrir frv., kom fram að hækkanir bóta skv. þessu frv. eigi að gilda frá 1. mars og vegna útreikninga þurfi þær að komast inn í tölvu í þessari viku. Viðstaddir nm. beggja deilda voru sammála um að stuðla að því að málið fengi greiðan aðgang í gegnum deildir þingsins.

Frv. þetta er samið í framhaldi af yfirlýsingu ríkisstj. um að hún beiti sér fyrir úrbótum handa þeim sem verst eru settir með ákveðnum hækkunum á bótum almannatrygginga og tengist samningum þeim sem nýlega voru gerðir milli Alþýðusambands Íslands og Vinnuveitendasambands Íslands annars vegar og fjmrh. fyrir hönd ríkissjóðs og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja hins vegar.

Nefndin mælir með samþykkt frv.