26.03.1984
Efri deild: 68. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4093 í B-deild Alþingistíðinda. (3490)

255. mál, almannatryggingar

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Hér eru nú fram komin í frv.-formi loforð ríkisstj. í síðustu samningum aðila vinnumarkaðarins og má til sanns vegar færa að þetta frv. staðfesti að menn hér á landi velkist í nokkrum vafa um hvað séu laun og hvað ekki. Tryggingabætur, barnabætur, kaup fyrir unna vinnu á vinnumarkaði — öllu þessu hefur nú verið ruglað svo kyrfilega saman að enginn virðist vita lengur hvað raunverulega felst í orðinu „laun“, afrakstur fyrir unna vinnu.

Ég er þeirrar grundvallarskoðunar að dagvinnulaun á hinum almenna vinnumarkaði eigi að vera nægilega há til að duga mönnum til framfærslu. Enginn sem vinnur fulla vinnu á að þurfa að svelta og ég tel það vera niðurlægjandi fyrir konu eða karl í fullu starfi að geta ekki framfleytt sér og sínum af atvinnutekjum sínum. Sú krafa að fólk geti fætt sig og klætt af launum sínum hlýtur að teljast hógvær krafa.

Á hinn bóginn er það jafnmikið réttætismál að þjóðfélagið sem heild viðurkenni þá vinnu sem allajafna er unnin launalaust inni á heimilunum og hefur oftast ekki verið talin vinna, enda venjulega unnin af konum. Hér á ég við þá vinnu sem felst í því að annast um og ala upp nýja einstaklinga í þjóðfélaginu. Sjálfsagt er að þjóðfélagið viðurkenni mikilvægi þessara starfa og geri það m. a. með því að greiða þeim sem störfin vinna barnabætur, mæðralaun, fæðingarorlof og aðrar slíkar greiðslur. En þessar greiðslur eru ekki laun fyrir vinnu unna á vinnumarkaði. Þetta eru greiðslur fyrir vinnu unna utan vinnumarkaðar og þessu tvennu má ekki rugla saman eins og gert hefur verið. Þeim sem þá vinnu kaupa sem unnin er á vinnumarkaði, þ. e. atvinnurekendum, er skylt að greiða fyrir hana skv. umsömdum taxta án nokkurs tillits til hver vinnur vinnuna og hvernig aðstæður hennar eða hans annars eru Þetta er ákaflega mikilvægt atriði því hin lágu laun kvenna á vinnumarkaðinum stafa m. a. af því að á konur hefur ekki verið litið sem fyrirvinnu. Tekið hefur verið mið af hverjar þær eru og kaupið verið og er enn að sama skapi lágt.

Konur þurfa ekki að láta borga með sér á vinnumarkaðinum eins og þetta frv. gerir ráð fyrir. Þær eiga einfaldlega heimtingu á mannsæmandi launum fyrir þá vinnu sem þær inna þar af hendi. Fyrir þá vinnu eiga atvinnurekendur að greiða. Ríkið er að greiða fyrir allt annað en vinnu unna fyrir atvinnurekendur þegar það greiðir þær greiðslur sem þetta frv. kveður á um. Mæðralaun t. d. eiga ekki að fylla upp í skarðið í launaumslaginu frá vinnuveitandanum, þau eiga að vera til staðar óháð kjarasamningum þótt eðlilegt sé hins vegar að beita þeim í samræmi við þarfir hvers og eins.

Eins og ljóst má vera af þessu er ég ósátt við hvernig þetta frv. er til komið, þ. e. sem hluti af kjarasamningum á hinum svokallaða frjálsa vinnumarkaði. Hins vegar er ég engan veginn á móti því í sjálfu sér að þær greiðslur sem hér um ræðir séu hækkaðar eins og frv. kveður á um. Ég er út af fyrir sig mjög fylgjandi því að ríkið viðurkenni á þennan máta mikilvægi þeirra starfa sem unnin eru kauplaust utan vinnumarkaðar. Á þeirri forsendu og í ljósi þeirra bágu aðstæðna sem mörg heimili í landinu búa nú við mun ég ekki greiða atkv. gegn þessu frv. Hins vegar vil ég láta í ljós og ítreka þá ósk mína að ríkisvald og aðilar vinnumarkaðarins muni í framtíðinni bera gæfu til að skilja þarna á milli, skilja á milli greiðslna fyrir vinnu unna á vinnumarkaði annars vegar og vinnu unna utan vinnumarkaðar hins vegar, þannig að enginn velkist í vafa um hvað séu laun fyrir hvað, hvers virði vinnuframlag hvers og eins sé á hinum mismunandi en jafn nauðsynlegu starfssviðum hvers einstaklings.