26.03.1984
Efri deild: 68. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4096 í B-deild Alþingistíðinda. (3496)

255. mál, almannatryggingar

Karl Steinar Guðnason:

Virðulegi forseti. Ég fagnaði því áðan að frv. þetta er fram komið. Þess vegna er það rangt hjá hv. 8. þm. Reykv. að ég fagni sérstaklega einhverri dúsu sem hafi verið stungið u p í einn eða annan. Það er rangt og útúrsnúningur. Ég fagnaði því að frv., sem er árangur af samningum milli verkalýðshreyfingar og atvinnurekenda kæmi hér fram, enda var það í verkahring ríkisstj. að leggja slíkt frv. fram.

Það er eftirtektarvert að einstaklingar sem tala um kjarasamninga nú telja sig þess umkomna að ganga í skrokk á verkalýðshreyfingunni og forustumönnum hennar eins og þeim dettur í hug. Þetta er nokkurs konar 6. herdeild Vinnuveitendasambandsins, sem hér er komin á stúfana til stuðnings við þau sjónarmið sem Vinnuveitendasambandið heldur uppi til árása á þá sem eru í forustu fyrir verkalýðshreyfingunni. Það er ekki vafi á að þeir telja þessa liðsmenn sína mjög gilda og gegna og góða til málflutnings fyrir sig. Hins vegar er ég sannfærður um að verkafólk hafnar slíkum málflutningi.

Hér var sagt að verkalýðsfélögunum væri sæmra að semja um betri laun en náðst hefur samkomulag um nú þegar. Ég vil minna þetta fólk á að í samningum eru það tveir sem deila og þurfa að ná samkomulagi til þess að samningar náist. Það er frumatriði að menn viti það, en það er greinilegt að það gera ekki allir sér ljóst.

Það hefur tíðkast hér og það hefur tíðkast á Norðurlöndunum líka, þar sem álitið er að þjóðfélagsskipan sé hvað hagstæðust launafólki, að ríkisvaldið hefur komið inn í samninga þegar verkalýðshreyfing og atvinnurekendur hafa talið þess þurfa, einkum þó verkalýðshreyfingin. Með þessu móti hefur verið knúið á um mjög verulegar þjóðfélagsbreytingar til handa þeim sem verst eru settir í þjóðfélaginu. Þjóðfélagsgerðinni hefur verið breytt á þann veg að fólkið hefur fengið meira, samfélagið hefur látið meira af hendi rakna til þeirra sem verst eru settir.

Ég get ekki að því gert að ég hef skömm á þeim málflutningi sem hér hefur verið uppi hafður, málflutningi sem einkennist af þjónkun við málstað Vinnuveitendasambandsins, málflutningi sem einkennist af árásum á þá sem valist hafa til forustu fyrir verkafólk, árásum á þær hugsjónir sem verkalýðshreyfingin er í raun að berjast fyrir.