26.03.1984
Efri deild: 68. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4098 í B-deild Alþingistíðinda. (3499)

255. mál, almannatryggingar

Karl Steinar Guðnason:

Virðulegi forseti. Auðvitað er það svo, að þær tryggingabætur sem hér eru hækkaðar eru ekki nægilegar að mínu mati. En skv. frv. og skv. þeim kjarasamningum sem áttu sér stað fyrir skemmstu náðist samkomulag um að hækka bætur mjög verulega. Hækkunin skiptir tugum prósenta miðað við það sem áður var, og ég fullyrði það að hefði ekki komið til þrýstingur frá hendi verkalýðssamtakanna og mætti verkalýðshreyfingarinnar verið beitt hefðu þessar bætur ekki fengist og þetta fólk væri því verr sett sem nemur þeim bótum sem þarna er um að ræða.

Ég tel að ríkisvaldið hefði ekki hækkað þessar tryggingar svo sem gert er nú nema vegna þessa samkomulags. Auðvitað fagna ég því að þetta samkomulag náðist. Auðvitað fagna ég því að hækkun um tugi prósenta náðist með þessum kjarasamningum. En ég er ekki þar með að segja að þetta fólk hafi fengið nóg, eins og látið var að liggja hér áðan. Það er öðru nær. Auðvitað þarf að komast miklu lengra. En þetta er þó skref í áttina, sem hefur náðst fyrir tilstilli verkalýðssamtakanna og er því af því góða. Og ég minni enn á að allar helstu umbætur í tryggingamálum hafa átt sér stað fyrir þrýsting verkalýðssamtakanna, vegna þess að mönnum er ljóst að fleira er kjör en króna.

Það er ekki vafi á því að margur á um sárt að binda þrátt fyrir þessa kjarasamninga. Auðvitað vilja samninganefndir oft komast miklu lengra en samkomulag næst um. Það er og svo í þessu tilviki. En það var mat manna að lengra yrði ekki komist að sinni og tryggingabæturnar voru þáttur í því að leysa þær deilur sem uppi voru.

Ég undrast þann málflutning sem ekki aðeins hefur heyrst hér í þingsölum heldur líka hjá mörgum samtökum sem um þetta hafa fjallað, eins og t. d. Félagi einstæðra foreldra. Þó að gera þyrfti vissulega miklu meira en gert er nú, þá voru samfara þessum samningum gerðar meiri breytingar í þágu einstæðra foreldra en nokkru sinni áður. (Forseti: Ég minni hv. þm. á að hann er að gera örstutta athugasemd.) Já. Það er þessi fýla sem mér finnst furðuleg í þessum efnum.

Það var aðeins vikið hér að Norðurlöndunum. Ég minntist á það, sem er staðreynd, að Norðurlöndin búa við þjóðskipulag sem þjóðir annars staðar í veröldinni horfa til með nokkurri aðdáun. Atvinnuleysi er þar minna en víðast annars staðar og fólk er tryggara í atvinnuleysi þar en annars staðar. Og það er fyrir tilstilli verkalýðshreyfingarinnar þar að svo er. Að tengja ummæli mín áðan því, að ég sé samþykkur atvinnuleysi í þessum löndum, er nú svo furðulegt að ég nenni ekki að svara því. Þeir sem ástunda slíkan málflutning mega gjarnan gera það í sinn hóp en ættu helst ekki að bjóða öðru fólki upp á slík skringilegheit.