26.03.1984
Neðri deild: 64. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4113 í B-deild Alþingistíðinda. (3516)

160. mál, frádráttur frá skattskyldum tekjum vegna fjárfestingar í atvinnurekstri

Frsm. 2. minni hl. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Ég hef í nál. á þskj. 487 gert grein fyrir helstu viðhorfum mínum til þessa máls.

Eins og kunnugt er er það yfirlýstur tilgangur þessa frv. að örva almenning til að leggja fé í atvinnurekstur. Þetta er mjög mikilvægt viðfangsefni, sem verður að vanda vel til, en að mínum dómi hefur ekki tekist eins vel til og nauðsynlegt væri. Af þessum sökum legg ég til að menn vinni þetta mál betur og þá einkum og sér í lagi með hliðsjón af því að þau lög sem hér um ræðir eiga ekki að taka gildi fyrr en um næstu áramót og þess vegna hafa menn tímann fyrir sér fram að hausti. Niðurstaða þessa nál. sem ég mæli hér fyrir er þess vegna sú, að það sé skynsamlegt að nota tímann fram að haustþingi til að athuga málið betur, og í trausti þess að slík vinna fari fram legg ég til að málinu verði vísað til ríkisstj. og þá einmitt til slíkrar vinnu.

Eins og ég sagði er það yfirlýstur tilgangur frv. að örva almenning til að leggja fé í atvinnurekstur. Til þess að ná þeim tilgangi er lagt til að það verði heimilaður frádráttur eftir ákveðnum reglum frá skattskyldum tekjum manna vegna þeirrar fjárfestingar sem þeir gera í atvinnurekstri. Þetta er gert með tvennu móti í frv.: annars vegar er um að ræða kaup á hlutabréfum, sem geta verið skattfrjáls eftir ákveðnum reglum, og hins vegar um möguleika til að leggja fé í svonefnda stofnfjársjóði. Í samræmi við að þetta er tvíþætt ætla ég að leyfa mér að fara ofan í hvorn hluta fyrir sig.

Að því er varðar kaup á hlutabréfum og að kaup á hlutabréfum verði til þess að menn njóti frádráttar frá skattskyldum tekjum er augljóst skv. frv. að það getur einungis gerst í tiltölulega stórum hlutafélögum. Í rauninni er um þrjár leiðir að ræða sem eru leyfðar: í fyrsta lagi kaupi menn hlutabréf beint í hlutafélögum, í annan stað geri menn það í gegnum myndun starfsmannasjóða hjá hlutafélögum og í þriðja lagi kaupi menn hlutabréf í svonefndum fjárfestingarfélögum.

Ef við lítum fyrst á hin beinu hlutabréfakaup voru þau í upphaflegri gerð frv. og eins og það liggur nú fyrir bundin við að hlutaféð væri a. m.k. 10 millj. kr. og a. m. k. 100 hluthafar. Það eru einungis örfá fyrirtæki á Íslandi, trúi ég, sem uppfylla þetta skilyrði. Við þessa umr. málsins hefur meiri hl. n. hins vegar gert till. um að lækka þetta nokkuð, þ. e. að það nægi að hlutafé sé 5 millj. og að það séu 50 hluthafar til þess að frádráttarbærni við kaup á slíkum hlutabréfum geti komið til greina. Ég held að engu að síður sé ljóst að þrátt fyrir að hér sé miðað við 5 millj. og 50 hluthafa geti það einungis tekið til mjög stórra hlutafélaga á íslenskan mælikvarða. Sama gildir að mínum dómi að því er varðar starfsmannasjóði, því að rétt til að kaupa hlutabréf í gegnum starfsmannasjóði hafa einungis fyrirtæki þar sem a. m. k. 30 starfsmenn standa að sjóðsstofnuninni og þar sem stofnfé er a. m. k. 3 millj. kr.

Að því er varðar frádráttarbærni við kaup á hlutabréfum hlýtur því niðurstaðan að verða sú, að hún komi einungis til álita hjá tiltölulega stórum fyrirtækjum. Ef svo á að vera er greinilega verið að mismuna bæði fólki og atvinnurekstri eftir stærð fyrirtækjanna. Þetta gerist sem sagt hvort heldur um er að ræða bein kaup eða kaup gegnum starfsmannasjóði. Ef fyrirtækið er ekki nægilega stórt er engin frádráttarheimild við hlutafjárkaupin. Stórt fyrirtæki getur á hinn bóginn hugsanlega aflað sér fjár með hlutabréfasölu vegna frádráttarheimildarinnar meðan meðalstórt eða lítið fyrirtæki getur það ekki.

Þessa mismunun tel ég í hæsta máta mjög vafasama. Ef sú lagasetning sem hér um ræðir mun hafa tilætlaðan árangur munu sem sagt stærri fyrirtækin eflast á kostnað hinna smærri. Í þessu sambandi held ég að nauðsynlegt sé að hv. Alþingi og þessi hv. deild hafi í huga að langflest fyrirtæki á Íslandi eru lítil og víða hér um land geta þau beinlínis ekki verið annað en lítil vegna þess hvernig búsetunni er háttað í landinu. Það er ljóst að skilyrði til að reka eða stofna stór fyrirtæki eru allt önnur og lakari víðs vegar úti um land, svo sem á Hellu eða Hvammstanga eða Fáskrúðsfirði eða Flateyri, heldur en þau eru hér á höfuðborgarsvæðinu. Þess vegna mun sú ívilnun sem gert er ráð fyrir skv. lagafrv. nýtast hinum smærri stöðum mjög lítið eða illa. Hér er sem sagt verið að mismuna hinum smærri stöðum á landinu í óhag - ekki bara beinlínis með stærð fyrirtækjanna, heldur líka vegna þess hvernig búsetunni í landinu er háttað.

Það er oft sagt og réttilega að iðnaðurinn verði að veita ný atvinnutækifæri á komandi árum og að einmitt sé þörf nýsköpunar á því sviði. Ég held að þetta muni eiga við ekkert síður úti á landsbyggðinni en hér á höfuðborgarsvæðinu og það verði menn að hafa í huga þegar lagafrv. þetta er skoðað. Ég held líka að menn ættu að gefa því gaum að nýsköpun í atvinnulífinu er allt eins líkleg í smærri fyrirtækjum og stórum og ég tel að við höfum dæmin fyrir okkur í þeim efnum vegna þess að það er oft frumkvæði og samheldni lítils áhugamannahóps sem ræður í rauninni úrslitum um að ráðist sé í nýja atvinnustarfsemi og það einkanlega ef í þeirri atvinnustarfsemi felst einhver nýjung. Það eru litlir áhugamannahópar sem oft leiða þróunina, en skv. þessu frv. munu þeir ekki fá að njóta jafnréttis á við hina stóru og. stæltu.

Það er í rauninni rauði þráðurinn í þessu frv. að því er þetta atriði varðar og þá skattaívilnun sem hér um ræðir, að þeir einir mega njóta hennar sem eiga ekki það mikið í fyrirtækjunum að þeir hafi þar nein raunveruleg áhrif. Það eina sem á að hvetja þá til hlutabréfakaupanna er sem sagt ágóðavonin og skattalækkunarmöguleikinn. Það er lykillinn að því að fá að njóta ívilnunar að þarna ríki eiginlega tilfinningasnautt persónuleysi. Þetta kann að henta vel í ýmsum hinum stærri löndum, en mér er stórlega til efs að þetta henti hér á landi. Þannig er það svo að þeir sem hætta fé sínu í stofnun hlutafélags um atvinnurekstur sem þeir hafa trú á og vilja eiga saman og annast saman eru í raun settir á kaldan klaka ef þeir uppfylla ekki margmennisskilyrðið sem sett er í lagafrv. eða geta ekki lagt fram nógu margar milljónir. Ég held þó að einmitt áhætturekstur þeirra sem trúa á fyrirtækið sitt, trúa á hugvit sitt og dugnað og hafa vilja og þolgæði til að vinna því vel sé vaxtarbroddur nýsköpunar og hann verði einmitt að fyrirfinnast og þess vegna sé rangt að mismuna einmitt slíkum hópum og slíku frumkvæði í óhag.

Það er mismununin sem ég hef talið upp sem gerir það að verkum að ég tel að þessi þáttur frv. sé gallaður og menn séu ekki að stefna að þeim árangri til nýsköpunar sem væntanlega á að vera tilgangur frv. Í þessu sambandi kom upp í n. að það væri hræðsla við misnotkun sem réði því að menn vildu einungis binda þetta við hin stærri fyrirtæki, að menn settu svo ströng skilyrði um fjölda hluthafanna og um hlutafjárupphæðina í heild sinni. Mér finnst að með slíkri röksemdafærslu sé verið að gefa hinum stærri fyrirtækjum syndakvittun um að þau misnoti aldrei aðstöðu sína, en jafnframt felist í þessu ásökun í garð meðalstórra og minni fyrirtækja um að þar sé misnotkunar að vænta. Ég held að ekki sé sanngjarnt að fara þannig að og í þessum efnum eigi menn frekar að setja strangara eftirlit með þeim fyrirtækjum sem þessa njóta, gæðalegt eftirlit ef menn vilja svo segja, frekar en að sigla inn í þá mismunun eftir stærð og í rauninni eftir búsetu sem í þessu frv. felst.

Hinn þáttur frv. fjallar um stofnfjárreikninga og er í III. kafla frv. Það er eini kaflinn sem ekki fjallar um hlutafjárkaup og skattfrelsi vegna þeirra með einum eða öðrum hætti. Stofnfjárreikningarnir eru greinilega hugsaðir fyrir einyrkja, þ. e. þá sem standa í eigin atvinnurekstri. Um þá aðila, einyrkjana eða þá sem standa í eigin atvinnurekstri eða réttara sagt ætla að stofna til hans, eiga að gilda sérstakar reglur um innlög á bundna bankareikninga og að þessir bankareikningar og innlögin á þá geti notið skattfrelsis. Hins vegar eru heldur fátækleg skilyrði um það hvers konar fjárfesting gefi heimild til að nýta úttekt af þessum bundna reikningi án þess að það teljist að einhverju leyti til tekna.

Hér held ég á hinn bóginn að sé verið að setja mjög víðar heimildir sem opni gáttir til að stofna gervifyrirtæki í einkaeign, þar sem er einungis einn eigandi, og að menn geti gegnum þær gáttir nýtt sér ívilnanir sem frv. gerir ráð fyrir með stofnun gervifyrirtækja. Ég held að í þessum efnum væri nauðsynlegt að setja strangari skilyrði um hvað menn þurfi að uppfylla til að njóta skattfrelsis með þessum hætti, en hugmyndin er í sjálfu sér góðra gjalda verð.

Ef ég dreg þetta saman, herra forseti, verð ég að segja að þetta frv. hefur í sér fólgna ýmsa galla sem gera að mínum dómi nauðsynlegt að skoða það nánar. Ég skal þá rekja þá stuttlega.

Í fyrsta lagi opnar það að því er varðar stofnfjárreikninga gáttir til „löglegs“ undandráttar, ef merin vilja svo orða það, undan skatti í formi gervifyrirtækja — eða a. m. k. verður ekki séð að þeirrar gáttar sé gætt eða henni sé lokað. Í öðru lagi mismunar það fólki og fyrirtækjum eftir byggðarlögum að því er varðar skattfrelsi vegna hlutafjárkaupa, öllum hinum fámennari byggðum í óhag. Í þriðja lagi er það hinum fáu og frumkvæðisríku í óhag að því er varðar skattfrelsi vegna hlutafjárkaupa, en hinum stóru fyrirtækjum í hag, í rauninni á kostnað hinna smærri og hinna meðalstóru.

Þó að margvísleg rök megi færa fyrir þeim hugmyndum sem í frv. felast mun það í núverandi búningi hafa að líkindum margs konar óæskileg áhrif og fela í sér mismunun sem ég held að sé meiri en menn hafi gert sér grein fyrir í upphafi við lestur frv. A. m. k. verð ég að játa að svo er að því er mig varðar. Það er fyrst eftir nákvæma yfirferð sem mér sýnist að þessi mismunun sé eins víðtæk og ég hef hér lýst.

Tilgangur frv., þ. e. að örva þátttöku almennings í fjárfestingu í atvinnulífinu, er í rauninni mjög mikilvægt viðfangsefni. En í þessari frv.-gerð hefur ekki tekist, að mínum dómi, að finna þeim tilgangi nægilega skynsamlegt og gott form. Þar sem hér er einmitt um svo mikilvægt viðfangsefni að ræða og með hliðsjón af því að ekki er gert ráð fyrir að þessi lög taki gildi fyrr en um næstu áramót sýnist mér að viturlegt sé að nota tímann fram að haustþingi til að athuga þessi mál betur. Með þeim rökstuðningi og í trausti þess að sú vinna fari fram legg ég til í nál. mínu að frv. verði vísað til ríkisstj.