26.03.1984
Neðri deild: 64. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4116 í B-deild Alþingistíðinda. (3517)

160. mál, frádráttur frá skattskyldum tekjum vegna fjárfestingar í atvinnurekstri

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég hef skilið það svo að leyfilegt sé að ræða hér 1. og 2. mál, hvort þeirra sem er. É,g vil fá staðfestingu á að það sé rétt. (Forseti: Það er rétt.) Þá vil ég í upphafi máls míns minnast lítillega á 2. málið sem hér hefur verið rætt, sem er 160. mál.

Ég er því andvíg af ýmsum ástæðum. Menn hafa margir getið þeirra ástæðna. Ég sé ekki ástæðu til að endurtaka það. Ég vil hins vegar spyrja hvernig menn hugsa sér allt eftirlit með þeim fríðindum sem hér er verið að leggja til. Okkur er öllum kunnugt um að lítið sem ekkert eftirlit er nú þegar með hvers kyns fjármálabraski í þjóðfélaginu og skattsvik tíðkast hér af öllu tagi. Skattrannsóknarstjóri ríkisins hefur allt of lítið starfslið til þess að verulegur árangur náist af hans starfi og hans embættis, og öll þekkjum við örlög söluskattsins. Við þekkjum þann gráa leik sem hafður er í frammi í þjóðfélaginu um stofnun hlutafélaga sem lifa þangað til söluskattsskýrslan þarf að koma fram. Þá fer félagið á hausinn og nýtt er stofnað samdægurs.

Ég vil þess vegna benda hæstv. fjmrh. á 8. gr. frv. sem er á þskj. 231. Þar segir, með leyfi forseta:

„Hafi stofnun eigin atvinnurekstrar, sbr. 6. gr., ekki farið fram innan sex ára frá lokum innborgunarárs skal heildarfjárhæð innborgunar ásamt verðbótum teljast til skattskyldra tekna á næsta ári eftir að ráðstöfun skyldi vera lokið.“

Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. fjmrh.: Hverjum er ætlað að fylgjast með þessum innistæðum og telja árin sem þær hafa verið ónotaðar? Hvaða embætti á að annast að með þessu sé fylgst? Ég held að við getum sagt okkur sjálf að eftirlit verður auðvitað ekki neitt og menn munu leika sér með þetta eins og þeim sýnist.

En það var raunar ekki vegna þessa máls sem ég kom hér í ræðustól. Ég vil þó áður en ég lýk máli mínu um þetta frv. líka benda á síðustu setninguna í 2. gr. þar sem segir: „Það sem enn kann að vera ójafnað að tíu árum liðnum fellur niður.“ — Það verður fróðlegt að sjá hvernig frá þessum málum verður gengið, fyrir nú utan alla meginhugsun í þessu frv. sem ég tel fyrst af öllu ranga.

En það sem ég vildi fyrst og fremst sagt hafa er að ég tel að við samþykkt 129. máls þingsins, frv. til laga um tekjuskatt og eignarskatt, hafi verið gerð mikil mistök sem ég efast um að þingheimur hafi gert sér grein fyrir. A. m. k. skal fúslega játað að ég gerði mér ekki alveg grein fyrir því sem þar fór fram, og þess vegna vil ég fá að vekja athygli á því. Hér er fyrst á dagskrá frv. til laga um breytingu á sömu lögum, 159. mál. Ég tel því að enn sé möguleiki á að koma fram brtt. þó að hún sé dálítið fyrir utan það efni sem hér er til umr. og það hefði verið betur viðeigandi að ræða í tengslum við 129. mál. Ég held þó að það ætti ekki að skipta máli. Vel er hægt að hugsa sér brtt. enn. Ég mun gera slíka till. en hef hana ekki alveg tilbúna.

Það sem ég ætla að benda á er að eftir að skattalögin frá 1978 tóku gildi varð sú þróun í þjóðfélaginu að menn hættu að fá lán til húsbygginga með vöxtum fyrst og fremst, heldur koma verðbætur til sögunnar. T. d. er öllum ljóst að menn fengu næstum alls ekki önnur lán en verðtryggð á síðasta ári. Nú er það svo skv. skattalögum að menn fá einungis vexti frádregna frá tekjuskatti, ekki verðbætur. Þetta þýðir að þegar menn sjá skattana sína núna kemur í ljós að venjuleg fjölskylda sem er með verðtryggð lán fær að borga tugum þúsunda meira í skatt en ella. Ég vil leyfa mér að taka mjög einfaldað dæmi, sem ég held samt að lýsi þessu nokkuð.

Dæmið er um fólk sem tók lán með verðbótum og 2.5% vöxtum. Við skulum segja að sú fjölskylda skuldi 500 þúsund. Vaxtafrádrátturinn er 12 500 kr. Hefði sama fólk fengið lán með t. d. 45% vöxtum hefði frádrátturinn verið allt upp í 200 þúsund. Ég vil leyfa mér að spyrja: Hafa menn gert sér grein fyrir hverju þetta breytir í tekjuskatti hjá venjulegu fólki? Ég er ansi hrædd um að það kippist margir við. Þetta getur munað venjulegan húsbyggjanda 50–70 þús. í greiddum skatti. — Ég skal fúslega taka við öllum leiðréttingum, ef menn hafa, ef ég hef misskilið þetta. Þó held ég að svo sé ekki.

Ég vil benda á að nú eiga menn kost á að velja þegar þeir kaupa spariskírteini hvort þeir vilji hafa þau gengistryggð eða ekki. Séu menn svo skynsamir fá þeir gengistapið dregið frá skatti. Hver er eðlismunurinn á gengistapi og verðtryggingu? Ég held nefnilega að hvort tveggja eigi sér sömu rætur. Og ég vil biðja menn að gjöra svo vel að hlusta á þetta, ef menn hafa ekki annað að gera. — Ég hlýt því að spyrja: Er eðlilegt að lántaki fái gengistap dregið frá skatti, en venjulegir húsbyggjendur fái ekki verðbætur dregnar frá skatti?

Nú sé ég að hæstv. ráðh. Halldór Ásgrímsson er eitthvað brosleitur, og ég held að hann haldi að ég viti ekki að hluti verðbóta getur verið dreginn frá skatti. En venjan er sú, þegar við tökum lán til 20–25 ára eru verðbæturnar reiknaðar á öll þessi ár, þannig að verðbótahlutinn er ekki nema kannske 1/25, 1/20 eða 1/40 ef lánin eru það löng. Sú brtt. sem ég hyggst leggja fram er að þetta hlutfall verði mjög stækkað. Ég geri mér ljóst að kannske er ekki eðlilegt að menn fái allar verðbætur dregnar frá skatti því að þá yrði frádrátturinn mjög verulegur, en ég held að Alþingi ætti að hugsa vel um, og ég vil biðja fjh.- og viðskn.-menn að hugsa um það, hvort ekki er fullkomlega eðlilegt að finna þarna einhverja málamiðlun, t. d. að hlutfallið yrði 1/3 og 1/6 af verðbótum eða eitthvað slíkt.

Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að koma til móts við þá húsbyggjendur í landinu sem hafa verið svo ógæfusamir að fá öll sín lán verðtryggð. Ég held að fólk geti hreinlega ekki greitt þá skatta sem á það eru lagðir með þessu fyrirkomulagi. Ég tel á engan hátt óeðlilegt að gera um þetta brtt. nú þó að það hefði verið, eins og ég sagði áðan, eðlilegra að gera það þegar 129. mál, um skattstigann, var afgreitt.

Ég vil biðja þá sem best eru að sér í skattalöggjöf að hugleiða aðeins það sem ég hef hér minnst á og ef einhver er svo vel að sér að geta svarað því hér og nú hvort þetta eru alveg óeðlilegar hugmyndir þætti mér vænt um að heyra frá þeim hv. þm. En hvernig sem ég reyndi að rifja upp umr. um 129. mál minntist ég ekki að áhersla hefði verið lögð á þetta. Þegar þróun verður eins og sú sem hefur orðið síðan skattalögin voru samþykkt 1978, þegar menn voru mestan part með lán á vöxtum, en síðan verða öll lán meira og minna að verðbótalánum, er með öllu óeðlilegt að ekki sé athugað hvort það stenst lengur að láta menn ekki fá til frádráttar þær gífurlegu verðbætur sem þarna verða.

Ég vil benda hv. þm. á 51. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt, þar sem stendur í 4. lið: „Gengistöp af hvers konar skuldum í erlendum verðmæli á því ári sem gengisbreyting á sér stað — það er verið að telja upp það sem til gjalda telst — og miðast þau við sölugengi viðkomandi erlends gjaldeyris í árslok.“

Svo segir hér seinna, með leyfi forseta:

„Gjöld samkvæmt þessari grein eru aðeins frádráttarbær að fullu séu þau tengd atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi.“

Það er augljóst að það er flest gert til að létta undir með atvinnurekstrinum og það er ekki óeðlilegt í öllum tilvikum. En það er minna hirt um að koma til móts við þarfir einstaklinga í þjóðfélaginu, sem verða að byggja þak yfir sjálfa sig og fjölskyldur sínar — og ekki aðeins það fólk, heldur næstu kynslóðir. Við skulum aldrei gleyma því að verið er að byggja húsnæði framtíðarinnar nú.

Ég tilkynni, herra forseti, að ég mun bera fram brtt. um ákvæði um frádrátt vegna verðbóta og mun reyna að leggja þá till. fram til prentunar síðar í dag.