26.03.1984
Neðri deild: 64. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4118 í B-deild Alþingistíðinda. (3518)

160. mál, frádráttur frá skattskyldum tekjum vegna fjárfestingar í atvinnurekstri

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Mig langar að hafa stuttan inngang að orðum mínum varðandi 160. mál Ed., sem er frv. til l. um frádrátt frá skattskyldum tekjum manna vegna fjárfestingar í atvinnurekstri.

Þegar skólamenn koma saman og ræða mörkun stefnu í skólamálum reyna þeir gjarnan að hafa að markmiði að skólinn eigi að undirbúa fólk fyrir lífið. Þá hefur sú spurning verið sífellt meir að vefjast fyrir okkur á seinni árum: Fyrir hvaða líf? Hvað er það líf sem börnin okkar koma til með að lifa og hvert er það líf sem við segjum að skólinn eigi að undirbúa þau fyrir?

Með hverju árinu sem líður verða breytingarnar örari og þess vegna er mönnum meiri og meiri vandi á höndum að átta sig á því fyrir hvaða líf skólinn er að undirbúa börnin.

Við getum sagt að þetta sé á vissan hátt sama vandamál og alþm. eiga við að stríða þegar þeir eru að setja reglur sem móta á almennan hátt það umhverfi sem atvinnureksturinn á að þrífast í á komandi árum. Þá spyrja menn gjarnan: Hvers konar atvinnulíf er það sem við erum að búa til almennar reglur fyrir í dag? Þar er okkur heilmikill vandi á höndum, að reyna að sundurgreina hvaða stefnu við teljum að þau mál muni taka á næstunni. Við notum þá góðu og gildu reglu að líta í kringum okkur og athuga hvaða stefnu við sjáum farið eftir í atvinnulífi annars staðar á Vesturlöndum. Og við spyrjum okkur: Hverjar eru breytingarnar í dag? Hvað er að gerast? Eru vaxtarbroddar nýs atvinnulífs í stóriðju eða eru vaxtarbroddar nýs atvinnulífs í annars konar iðju? Þeir sem gleggst hafa kannað þessi mál telja að vaxtarbroddurinn á þessu sviði á Vesturlöndum í dag sé ekki í stóriðjufyrirtækjum, heldur í fyrirtækjum sem þeir á sína vísu kalla smá eða meðalstór, eru kannske með einhverjum hundruðum starfsmanna. Það eru óumdeilanlega þessi fyrirtæki — sum hver byrjuðu jafnvel eins og bílskúrs- og eldhúsborðsfyrirtæki — sem hrundu örtölvubyltingunni af stað. Það er eitt gleggsta dæmið sem við höfum um að þeir smáu taka á rás, en risarnir sitja eftir.

Ég sé að hv. þm. Garðar Sigurðsson er ekki hérna í salnum, en ég hefði viljað taka líkingu úr líffræðinni til að gleðja hann. Í líffræðinni sjáum við dæmi þess að risaeðlurnar dóu út, en vistfræðilega eru það skordýrin sem eru sú fylking dýra sem mesta aðlögun sýndu og verða árangursríkust, hafa lifað árangursríkasta og munu lifa árangursríkasta lífi sem nokkur dýrafylking gerir. (Gripið fram í: Ég vek athygli á að fulltrúi risaeðlanna er kominn í salinn.)

Lærdómurinn sem kannske má draga af þessu er að við þurfum að búa þannig í haginn að það verði vöxtur í litlum og miðlungsstórum fyrirtækjum. Það er til skýrsla frá OECD frá 1980 þar sem hefur verið farið svolítið ofan í saumana á þessu. Þar hafa verið athuguð lönd eins og Sviss, Danmörk og Belgía, sem eru dæmi um lönd með litla heimamarkaði. Þar er talið að lítil fyrirtæki og miðlungsstór — enn er verið að tala um fyrirtæki sem þó hafa einhver hundruð starfsmanna leggi til allt að 70% atvinnutækifæra í iðnaði. Hlutur þessara fyrirtækja í heildarframleiðslunni er minni en hlutur þeirra í heildaratvinnutækifærunum. Þau eru því á sinn hátt tiltölulega meira atvinnuskapandi en stóriðjan. Að auki hafa þessi fyrirtæki myndað flest ný, og eru reyndar einu fyrirtækin sem mynda ný störf á síðustu árum. Reynslan sýnir að það er í þessum fyrirtækjum sem er mest nýsköpunin. Mörg þeirra byggjast jafnvel upp á snjöllum hugmyndum tiltölulega fárra ötulla eigenda og starfsmanna.

Rannsókn sem gerð hefur verið á þessu sviði sýnir t. d. að allt að 2/3 hlutar stefnumarkandi uppgötvana í iðnaði eftir stríð koma frá litlum fyrirtækjum, jafnvel einstaklingum, frekar en hinum stóru samsteypum sem svo mikið einkenna iðnaðarumhverfi þessara ára. Þetta lýsir sér t. d. líka þannig, að það hefur orðið stefnubreyting í starfi háskóla víða erlendis. Á tímum minnkandi framlaga frá ríkisvaldi eiga þeir nú í síauknum mæli samvinnu með fyrirtækjum bæði um grundvallarrannsóknir og hagnýtar rannsóknir.

Þetta eru almennir punktar um að reynslan erlendis sýnir að þau fyrirtæki sem við getum sagt að einkenni iðnaðarnýsköpun í dag eru sjálfstæð, smá og mörg eins og skordýrin. Þessi fyrirtæki byggjast á framtaki einstaklinga, hugmyndum einstaklinga, og þau skutu risunum ref fyrir rass. Það er fróðlegt fyrir okkur að hugsa um að í dag erum við að sjá fyrstu merki þess að IBM risasamsteypan er að ná sér almennilega inn á smátölvumarkaðinn, sem hún hreinlega datt útaf í byrjun örtölvubyltingarinnar. IBM er núna fyrst að koma með tölvu sem e. t. v. verður verulega árangursrík á þessu sviði.

Það sem við alþm. þurfum að gera er að hjálpa til við að koma í rækt þannig garði að þessi þúsund blóm megi spretta.

Ég tel að þetta frv. til l. um frádrátt frá skattskyldum tekjum manna vegna fjárfestingar í atvinnurekstri sé hluti af þeirri umsköpun sem nauðsynleg sé til þess að bregðast við þessum nýju tímum. Eins og ég kem að á eftir hefur það ýmsa annmarka, en ég tel að sem þáttur af heildaraðgerðum séu þessar till. gagnlegar.

Þetta eru till. um að auka fjárfestingu í atvinnurekstri með því að mynda frádráttarbær fjárfestingarform. Ég er almennt fylgjandi slíkum till. vegna þess að í fyrsta lagi, sem er nú kannske ekki það lítilvægasta, gætu till., ef þær eru kynntar, vakið fólk til umhugsunar almennt um þátttöku í stofnun og rekstri fyrirtækja. Þetta er e. t. v. mjög mikilvægt. Ég vil t. d. geta þess í því sambandi að yfirvöld erlendis, sem hafa iðnaðaruppbyggingu og nýsköpun í atvinnumálum á sinni könnu, hafa sum gefið út kassettur, sem menn geta keypt sér í tónlistarbúðum. Á þessum kassettum eru t. d. leiðbeiningar um hvernig á að stofna fyrirtæki. Þetta geta menn sett í kassettutækið í bílnum sínum á morgnana og spilað á leiðinni í bæinn, ef þeir skyldu hafa áhuga: Ég held að svona upplýsandi og sálfræðileg atriði séu verulega mikilvæg.

Ég held í öðru lagi að þessar till. séu gagnlegar vegna þess að þær auðvelda að afla fjár og að efla eiginfjárstöðu fyrirtækja sem fyrir eru og að safna fé fyrir ný fyrirtæki eins og sumar greinar þessa frv. gera ráð fyrir. Þetta er mikilvægt á fjármagnsmarkaði sem er oft erfiður byrjendunum ef samdráttur er í peningapólitík.

Það mætti kannske líka segja að að hluta væru þessar till. mótleikur gegn miðstýrðu pólitísku úthlutunarvaldi á sparifé fólks í landinu. Það getur þarna komið fé sínu milliliðalaust í atvinnurekstur sem það hefur trú á.

Ég gerði í upphafi máls míns smáiðnað að umtalsefni. Það er alltaf dálítið erfitt að ræða almennt um þessa hluti vegna þess að við höfum ekki í höndunum óyggjandi upplýsingar um stærð fyrirtækja, starfsmannafjölda, hlutafé og þess háttar. En ég tel að þær takmarkanir sem eru í ákvæðum frv. um stærð, ef við lítum á stærðir sem þar eru, eins og 5 millj. í hlutafé og 50 hluthafar eða 3 millj. í hlutafé og 30 manns, eins og er í öðrum ákvæðum, sjái um að öllu verði í hóf stillt. Slíkt fyrirtæki er peningalega á við einbýlishús og samsvarar hvað fólksfjölda varðar nokkrum fjölskyldum. Jafnvel í litlum bæjarfélögum held ég að hægt væri að ná bæði þessum peningum og þessu fólki saman.

Hins vegar hlýtur það að vera skylda bæði okkar sem löggjafa og framkvæmdavaldsins að fylgjast með framkvæmd þessara laga. Og ef í ljós kæmi að þessi stærðarákvæði takmörkuðu gildi frv. verulega hlyti að koma sterklega til greina að endurskoða þau.

Í sambandi við stærð fyrirtækja hérlendis má segja að það er fjöldi fyrirtækja hérlendis sem ættu í raun að hafa miklu hærra hlutafé en þau hafa nú. Þetta er m. a. afleiðing af óðaverðbólgu undanfarinna ára. Vafalaust munu mörg fyrirtæki og félög sjá sér hag í að auka hlutafé sitt og stækka hluthafahóp sinn til að komast á blað hjá ríkisskattstjóra yfir þau fyrirtæki sem fullnægja ákvæðum frv. Það mun auka fjölbreytni á þessum markaði og mundi líka styrkja eiginfjárstöðu þessara fyrirtækja.

Það eru líka í þessum till. ákvæði sem koma til móts við einyrkjana, einstaklingana, sem eru með áform um að koma af stað rekstri. Þannig er komið til móts við þá allra minnstu. En ég legg mikla áherslu á að ákvæði í frv. eru ein og sér alls ekki nóg og algjörlega ófullnægjandi til að koma á fót öflugum hópi smárra og miðlungsstórra fyrirtækja hér á Íslandi. En þau eru hluti af aðgerðinni.

Ég held að menn ættu í framhaldi af þessu að líta í kringum sig og sjá hvað er á döfinni með ýmsum öðrum þjóðum til að ná þessu sama. T. d. er í Englandi kerfi, sem mig minnir að sé kallað Small Business Loan system, þar sem ríkisstj. ábyrgist lán sem lítil fyrirtæki geta tekið á almennum markaði sér til vaxtar og viðurværis. Ég tel að samtímis skattaaðgerðum sé grundvallaratriði að líta á þetta í víðara samhengi og neyta allra kosta til að styðja virkilega vel við minni fyrirtækin.

En fyrir öllum þessum orðum mínum er sá fyrirvari að við erum þarna að gera það sem við í ýmsu tilliti sjáum ekki fyrir endann á. Ég tel algjört grundvallaratriði, bæði af hálfu Alþingis og þá fjh.- og viðskn. svo og fjmrn., að það verði fylgst árlega mjög nákvæmlega með framkvæmd þessara ákvæða, bæði að þau nái þeim markmiðum gagnseminnar sem til er ætlast og ekki síður að fylgst sé mjög nákvæmlega með því hvort ákvæði úr þessum frv. séu nýtt til þess að komast hjá því að greiða eðlilega skatta og afgjöld. Það er grundvallaratriði og ætti kannske að vera óþarfi að tala um. En af því við höfum ýmis dæmi fyrir okkur um að þetta hlutverk þingsins er vanrækt. Ég tel að það sé algjört grundvallaratriði, þegar við erum að setja lög fyrir framtíð sem við vitum ekki hvernig lítur út. Þau eru um svið sem við höfum ekki nema takmarkaðar upplýsingar um, og þá skulum við láta fylgja þann staðfasta ásetning okkar að endurskoða áhrif slíkrar löggjafar bæði til góðs og ills einu sinni á ári a. m. k.