26.03.1984
Neðri deild: 64. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4121 í B-deild Alþingistíðinda. (3519)

160. mál, frádráttur frá skattskyldum tekjum vegna fjárfestingar í atvinnurekstri

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég er einn af þeim sem eru þeirrar skoðunar að það tekjuskattskerfi sem við búum við í þessu landi sé gjörsamlega misheppnað. Í dag held ég að það sé ekki til að auka jöfnuð í þjóðfélaginu, heldur alveg öfugt. Við höfum ótal dæmi þess fyrir augunum að menn komast undan því að greiða skatta, en á lifnaðarháttum þeirra verður ekki annað séð en þeir hafi fullar hendur fjár. Við erum búnir að koma okkur upp kerfi sem tryggir fyrst og fremst að sá sem lægst er settur í þjóðfélaginu fær allar sínar tekjur skráðar sem laun, engar greiðslur aðrar á launaseðli en að verið sé að greiða honum laun og svo í lífeyrissjóð. Hann er látinn greiða skatta. Stórir hópar sleppa alveg. Vissum aðilum hefur jafnframt verið fengið það lykilvald að ráða að verulegu leyti sköttum manna og þeir sem ráða þar mestu eru bankastjórar.

Það fer ekki milli mála að við erum öll eða flest hlynnt því að menn eignist eigið húsnæði til að búa í. Hins vegar er álitamál hvort að rétt sé að standa þannig að þeirri eignamyndun að hún gerist að stórum hluta á þann veg að menn komi sér undan því að greiða skatta meðan þeir eru að eignast húsnæði eða hvort rétt sé að greiða öllum þegnum ákveðinn fjármagnsstyrk til að auðvelda þeim að eignast húsnæði. Það má segja að þarna er hægt að velja á milli. Er það rétt t. d., að ef maður eignast mjög stóra og veglega villu og kemur þannig fyrir sínum lánamálum að hann fær í gegnum vexti og verðbætur nægilega mikla fjármuni frádráttarbæra geti hann verið skatttaus ár eftir ár? Á samfélagið á þennan hátt að hjálpa honum til þessara hluta? Ég segi nei. Er það rétt að það eigi að setja upp kerfi sem er þannig, að ef þú hefur þénað mjög vel og áttar þig á því í desembermánuði að þú hefðir þurft að fjárfesta fyrir þó nokkuð af þessum peningum t. d. í atvinnurekstri, þú hefur ekki gert það, en ef þú gerir það, ef þú fjárfestir á þessu augnabliki í desembermánuði, færðu helminginn af þeim peningum frá ríkinu á þann hátt að það lækkar þig í skatti, úr efsta þrepi?

Sú hugsun sem liggur á bak við að maður eigi að spara af sínum fjármunum og leggja í atvinnureksturinn er alls ekki víst að verði sú sem verður framkvæmd. Aðgerðin verður sú í framkvæmd að þú slærð lán til að borga hlutdeild þína í atvinnurekstrinum, en eyðir jafnmiklu eftir sem áður, og það eru bankastjórarnir sem munu ráða sköttum manna í vaxandi mæli.

Ég er sannfærður um að margir sem höfðu á því sterka trú að skattakerfið væri réttlátt eins og það er fóru að efast í trúnni þegar láglaunabæturnar voru greiddar eftir sköttum manna. Það kom nefnilega í ljós að furðulegustu einstaklingar í þjóðfélaginu áttu rétt á láglaunabótum. Hvað hafði komið í ljós? Það sem hafði komið í ljós var að skattakerfið var svo snarvitlaust að ekki var hægt að nota það til að framkalla þjóðfélagslegan jöfnuð. Það hafði ekkert með þjóðfélagslegan jöfnuð að gera ef það var skoðað ofan í kjölinn. (Gripið fram í: Það heita skattsvik.) Það heita ekki skattsvik, Guðrún, hv. þm. Reykv., að við erum búin að útbúa kort t. d. í Stjórnarráðinu þar sem þú færð keyptan mat á mjög lágu verði á sama tíma og konan sem vinnur í frystihúsi úti á landi, ef hún færi þangað í vinnu, er látin greiða fullt fyrir sinn mat. Við erum búin að koma upp kerfi sem tryggir að sumir hópar fá mjög mikið af sinni daglegu neyslu uppi borið af fyrirtækjum á sama tíma og aðrir fá það ekki. Þess vegna liggur ljóst fyrir að skattakerfið eins og það er er það vitlaust að ekki er hægt að notast við það til þjóðfélagslegs jafnaðar. Og ég vil undirstrika að fjmrh. var Alþb.-maður þegar tilraunin var gerð um láglaunabætur. Hefði hann ekki átt að taka skattsvikarana fyrir, ef það var málið? Málið var það að kerfið var of vitlaust til þess að það væri hægt.

Ég tel að tímabært sé að menn hugleiði í fullri alvöru hvort þeir eru þeirrar skoðunar að halda eigi áfram að lappa upp á skattakerfi sem hefur sannað að það er ekki tæki til þjóðfélagslegs jafnaðar eins og það var hugsað, hvort menn ætli að halda áfram að lappa upp á það, eins og hér er verið að gera till. um og ég flokka undir hreint kák, eða hvort menn eru tilbúnir að taka þátt í því að taka það upp frá grunni.

Ég er sannfærður um að útsvarið, sem er sléttur skattur, er miklu réttlátara en tekjuskatturinn eins og hann er í dag. Og ég er sannfærður um að það væri miklu réttlátara að gera tekjuskattinn að sléttum skatti en greiða svo til baka til þeirra einstaklinga sem sannanlega ættu rétt á því að fá fjármuni aftur. Það skilar miklu réttlátari niðurstöðu en það kerfi sem við notumst við í dag. Og það er athyglisvert að eitt af því sem fellt var hér í deildinni var að skattskráin ætti, þegar hún er gefin út, að verða eign þeirra sem vildu og hver maður ætti að geta skoðað þar allt. Það var ákveðið að það væri aðeins hægt að fá hana þegar um leiðrétta skrá væri að ræða. Hvers vegna? Hver er tilgangurinn með þessu? Vissulega eru vitleysur í skránni, það vita menn, en auðvitað liggur ljóst fyrir að með þessu móti eru menn þrátt fyrir allt að fyrirverða sig fyrir að skattskrá sé kynnt á þeim tíma þegar hún hefði eitthvert fréttagildi.

Ég er þeirrar skoðunar að það reki að því fyrr en síðar að vissar stéttir í þessu þjóðfélagi, sem öðrum fremur hafa verið látnar greiða tekjuskatt, muni gera atlögu að þessu kerfi og líta á, það sem eitt af sínum stærstu hagsmunamálum að því verði breytt. Stundum er talað um að þetta sé launamannaskattur. Þá vaknar sú spurning hvort við séum íreynd að úthugsa þjóðfélag þar sem það sé fyrst og fremst hæpið að vinna fyrir sínum tekjum, að vinna fyrir þeim með höndunum eða með höfðinu eða hvoru tveggja, það séu þær tekjur sem eigi að greiða skatta til ríkissjóðs af, en ef þær verði til á annan hátt eigi að koma þeim undan eftir ýmsum löglegum leiðum sem við útbúum.

Ég vil minna á að það var ráðh. í sænsku ríkisstjórninni sem notaði löglegar leiðir til að koma undan þeim fjármunum sem hann hafði fengið og bankakerfið hjálpaði honum með lánastarfsemi til að gera þetta á allan hátt löglega. Hann kom sér undan því að greiða til samfélagsins með þessu móti, en honum var bjargað fyrir horn, eins og menn muna eftir.

Ég lýsi miklum efasemdum með þau vinnubrögð að halda áfram að lappa upp á þetta kerfi. Ég tel að það þurfi að taka um það ákvörðun að undangenginni rannsókn á því hvaða þjóðfélagshópar það eru sem greiða skatta hvort það kerfi sem við erum með stuðli fremur að jöfnuði hjá þjóðinni en ójöfnuði. Jafnframt að menn geri sér grein fyrir að það er fyrst og fremst í gegnum óbeinu skattana sem við getum náð árangri.

Það hefur verið vanrækt að ná þeim inn í ríkissjóð. Það hefur verið vanrækt að ná söluskattinum inn í ríkissjóð. Það er hægt að setja upp kassa, hvort sem þeir yrðu í eigu fyrirtækjanna eða í eigu fjmrn., þar sem aðeins fulltrúar skattsins hefðu aðgang að prentuðum niðurstöðum á strimlum, og með þeirri aðferð ásamt virku aðhaldi væri hægt að ná inn mjög stórum fjárhæðum. En það broslega er að menn tala núna um virðisaukaskatt, sem útheimtir óhemju fjölgun á skattstofunum í mannafla, en virðast sjá eftir hverri einustu krónu sem á að fara í að auka mannahaldið á skattstofunni .til að ná inn söluskattinum.

Ég vænti þess að sú umr. sem hér fer fram um skattamálin verði fremur til þess að koma mönnum til að hugleiða hvort við getum ekki umbylt því tekjukerfi sem ríkið hefur til að ná sér í fé, komið okkur upp bæði réttlátara kerfi og einnig tryggt að þeir fjármunir sem teknir eru af almenningi fari í ríkiskassann. Það er að sjálfsögðu alversta kerfi sem hægt er að koma sér upp ef ekki er einu sinni tryggt að þeir fjármunir sem teknir eru af almenningi í landinu fari í ríkiskassann. Þarna tel ég að við höfum mikið verk að vinna. Ég vænti þess að ríkisstj. taki á þessu máli af meiri alvöru en mér sýnist að hafi verið gert á undanförnum árum.

Ég heyri að hv. 7. þm. Reykv. hefur verið með hálfgert gelt í hliðarsölum megnið af þessum tíma. Það er svo sem ekkert nýtt að það eigi sér stað. (Gripið fram í.) En vonandi notar hann kvöldið til að hugleiða þessi mál af meiri alvöru.