26.03.1984
Neðri deild: 64. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4124 í B-deild Alþingistíðinda. (3520)

160. mál, frádráttur frá skattskyldum tekjum vegna fjárfestingar í atvinnurekstri

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Það gætir oft undarlegs tvískinnungs hjá vinstrisinnuðu og félagshyggjusinnuðu fólki þegar talið berst að því ljóta orði: gróði — hagnaður. Sá tvískinnungur er eðlilegur, hann á sér langa sögu. Annars vegar er sú ævaforna trú eða skoðun eða gildismat að gróði sé í sjálfu sér af hinu illa. Hann sé ósamboðinn mannlegu eðli sem helsti drifkraftur eða hvati til athafna. Að því leyti á þessi skoðun rætur að rekja til kristilegs siðgæðismats og er kannske engan veginn einkaskoðun þeirra sem kenna sig við sósíalisma eða vinstri stefnu. Það er þess vegna ekki óalgeng skoðun að menn segi sem svo: Hagnaðarvonin, gróðasjónarmiðið, það er í andstöðu við mannleg sjónarmið sem menn vilja heldur hefja til öndvegis. Og alla vega er það svo, ef menn líta sögulega yfir þessar deilur, að þá er það hugmyndaarfur eða reynsla að menn hafa yfirleitt verið andvígir afleiðingum þess sem heitir óbeislaður kapítalismi, óheft gróðavon, að svo miklu leyti sem hún leiðir til meiri misskiptingar auðs og tekna en fólk almennt séð getur sætt sig við. Þetta er annað sjónarmiðið.

Hitt er jafnrétt, að menn gera sér grein fyrir því oftast nær að gróðavonin er drifkraftur þess hagkerfis sem við kennum við markaðsbúskap. Ef við viljum stuðla að örum hagvexti, örum efnahagslegum framförum, þá þurfum við að beita til þess ákveðnum tækjum: Við þurfum að fá fólk til þess að leggja sig fram um sparnað, til þess að leggja til hliðar í dag einhverja fjárupphæð í von um að hún skili einhverju betra á morgun. Að örva þátttöku almennings í atvinnulífinu er sjónarmið, sem margir vinstrisinnaðir menn geta tekið undir, að fá fólk til að hætta fé sínu í atvinnurekstri. Og um leið viðurkenna menn almennt séð að kerfi, sem útilokar frumkvæði einstaklinganna til að fitja upp á nýjungum, leggja fé í áhættu, er kerfi sem að lokum leiðir til stöðnunar.

Þegar verkalýðsforingjar í praktísku starfi sínu standa frammi fyrir þessum vandamálum segja þeir gjarnan: Við krefjumst þess að fyrirtækin séu bær til þess að greiða há laun. Ef við lítum til okkar eigin reynslu á undanförnum árum og áratugum þá hefur það löngum verið svo, að fyrirtæki í undirstöðuatvinnuvegum landsmanna hafa verið rekin stundum árum saman með halla, jafnvel í mesta góðæri. Afleiðingin af því hefur verið sú, að þau hafa ekki talið sér fært að greiða mannsæmandi laun. Og vinstrisinnað fólk hefur þá snúist á þá sveifina og segja sem svo: Menn hafa ekki getað fært sönnur á það, að þetta væri rangt, og þá farið að fitja upp á þeirri röksemdafærslu, að það væri á ábyrgð ríkisins, í raun og veru skattgreiðenda, að taka á sig hluta af því sem ætti að vera eðlilegur launakostnaður fyrirtækja. M. ö. o. niðurstaðan af þessari þróun hefur oft verið sú, að taka atvinnulíf landsmanna, sjálfa framleiðsluvélina, sem á að skila verðmætunum og standa undir háum launum og góðum lífskjörum, á framfærslu skattgreiðenda sjálfra. Launþegar eru þá sjálfir farnir að greiða launin að hluta.

Ég ætla mér nú ekki þá dul að leysa þessa þversögn hér í örfáum orðum í þessum ræðustól, en hér er hún fyrir okkur lögð og hér kemur hún fram. Annars vegar er sú viðleitni að meta það af reynslunni að við þurfum á að halda öflugu atvinnulífi. Við viljum að þetta atvinnulíf geti staðið undir háum launum og góðum lífskjörum. Og ef við fylgjum þeirri röksemdafærslu eitthvað áfram, þá er það hlutverk verkalýðshreyfingar, frjálsrar verkalýðshreyfingar í lýðræðislegu þjóðfélagi, að gera kröfu á hendur atvinnulífinu um góð mannsæmandi laun og batnandi lífskjör. Ef menn vilja gera þessar kröfur þá er það nánast forsenda þeirra að krefjast þess að atvinnulífið skili hagnaði, því endalaus hallarekstur atvinnulífsins dregur að lokum lífskjör launþeganna með sér niður í fallinu.

Það hefur þess vegna verið rauði þráðurinn í hugmyndum sósíaldemókrata um þessi mál, um leið og þeir viðurkenna vissan tvískinnung í afstöðu sinni til hagnaðarvonarinnar, að segja sem svo: Af tvennu illu þá viljum við gera það sem gera þarf til þess að byggja upp öflugt atvinnulíf, til þess að örva fólk til sparnaðar, til þess að örva fólk til þátttöku í atvinnulífinu, til þess að halda uppi hagvexti, vegna þess að þetta er forsenda batnandi lífskjara. Við viljum m. ö. o. ekki útiloka að afneita gróðasjónarmiðinu heldur beisla-það. Í því felst reyndar viðurkenning á því að það er alveg sama við hvers konar hagkerfi við búum, jafnvel þótt við byggjum við sósíalískt hagkerfi, þá útrýmum við ekki hagnaðarvoninni eða gróðanum. Nægir að nefna í því sambandi að ekkert ríki í heiminum heldur uppi jafnháu hlutfalli fjárfestingar eins og hið austurevrópska stalínska hagkerfi. M. ö. o. það sem lagt er til hliðar af framleiðsluferlinum, það sem notað er til fjárfestingar, það hlutfall er hærra sem hlutfall af tekjum fyrirtækja og þjóðarbúskaparins heldur en yfirleitt er í kapítalískum ríkjum. M. ö. o. gróði í þessum skilningi á ekkert skylt við hugmyndafræði. Hann er jafn óhjákvæmilegur hvort heldur við byggjum hagkerfið á einkaeignarrétti, markaðskerfi eða hvort við byggjum hann á einhverju sem við köllum sósíalisma eða þjóðnýtingarkerfi. Meira að segja má segja að gróði í þessum skilningi, sem í fræðum Marx hét arðrán, hefur aldrei verið jafnmikill eins og í hinu sósíalíska hagkerfi. Þar á móti kemur líka að í því kerfi er engin verkalýðshreyfing til þess að vega upp á móti ofurvaldi kapítalsins, sem er í höndum fámennrar stéttar valdhafa. sem ekki hlítir neinu lýðræðislegu aðhaldi. Þannig að það er hvorki frjáls verkalýðshreyfing til að andæfa þessu valdi né heldur nein pólitísk stjórnarandstaða. Niðurstaðan er sú, að gróði í merkingunni arðrán er mestur í því þjóðfélagi sem var sett á laggirnar til þess að útrýma arðráni. Þetta nægir til að sýna fram á að þegar svolítið dýpra er skyggnst þá er hugmyndafræðilega deilan um gróða svolítið yfirborðskennd, vegna þess að hagnaður er forsenda fjárfestingar og fjárfestingu verður maður að hafa í hvaða þjóðfélagi sem er.

Hins vegar er það viðleitni okkar að við viljum áskilja okkur rétt til þess að lýðræðislega kjörnar ríkisstj. hafi áhrif á tekju- og eignaskiptinguna í landinu. Þá skiptir það lykilmáli hver afstaða manna er til þessara hluta. Að sjálfsögðu á hið lýðræðislega ríkisvald ýmis úrræði, jafnvel þótt við viðurkennum nauðsyn gróðasjónarmiðsins og hagnaðarvonarinnar, sem forsendu efnahagsframfara og bættra lífskjara. Við viljum ekki sætta okkur við óbeislaðan kapítalisma, stjórnlaust markaðskerfi, vegna þess að það hefur engan sjálfleiðréttandi búnað varðandi eigna- og tekjuskiptingu í sér fólginn. Það leiðir að lokum til eigna- og tekjuskiptingar, sem við yfirleitt viljum ekki sætta okkur við. Þá er spurningin: Fremur en að útrýma gróðasjónarmiðinu með öllum þeim afleiðingum sem það hefur. efnahagslegri stöðnun, versnun lífskjara, þá verðum við að beisla það með einhverjum hætti. Og hvernig förum við að því? Það er annars vegar hlutverk verkalýðshreyfingarinnar, þegar fram í sækir, að sækja hlutdeild vinnandi fólks í vaxandi gróða fyrirtækja og þjóðfélags í formi bættra lífskjara. Í annan stað hafa ríkisstjórnir í höndum sínum tæki til þess að stýra bæði fjárfestingu og arði fyrirtækja með ýmsum ráðum. Hér er verið að leggja til ákveðnar lausnir í þeim efnum. Það er mjög erfitt að taka endanlega afstöðu til þess út frá þeim texta sem fyrir liggur í þessu frv. Hér er einfaldlega um að ræða tilraun sem menn verða að gera upp við sig: Vilja menn að hún verði gerð eða vilja menn það ekki? Mín niðurstaða er sú, hafandi horft upp á dapurlegar afleiðingar vanhugsaðrar hagstjórnar okkar á undanförnum árum, að þessa tilraun beri að gera. Það er nánast út frá þeirri forsendu að lengi var nú ástandið vont og miklu verra getur það ekki orðið.

Leiðirnar til þess eru margar og það er margt umdeilanlegt í því efni. Það hefur á stundum verið afstaða sósíaldemókrata í þessu máli að segja sem svo: Við eigum að skattleggja hagnað fyrirtækja og við eigum t. d. að gera það þannig að við skattleggjum þann arð, sem fyrirtækin halda eftir í fyrirtækjunum og endurfjárfesta, minna heldur en útborgaðan arð, sem fer að verulegu leyti í neyslu fjármagnseigenda. Það er jafnvel til í dæminu að sú leið hefur verið farin að lögbinda það hlutfall hagnaðar fyrirtækja sem verja má til útborgunar á arði. Líka er til sú leið, að fylgja þeirri reglu að hagnaður fyrirtækja skuli vissulega vera skattlagður, einhvers staðar á bilinu 20–40% af nettóhagnaði, en um leið skuli ríkisvaldið beita ákveðnum aðgerðum til þess að hvetja fyrirtæki til fjárfestingar, umbuna þeim fyrirtækjum sem skara fram úr að því leyti að þau nýta vel sitt fjárfestingarfjármagn í arðsömum framkvæmdum, sem skila þjóðarbúinu, launþegum og öllum verulegum árangri.

Hvaða leið hér er valin fer að mestu leyti eftir því við hvers konar fjármagnsmarkað og stofnanakerfi við búum. Mér þykir t. d. athyglisvert að í þeim ríkjum t. d. í hinum angloameríska heimi þar sem fjármagnsmarkaður er mjög þróaður, þá er áhættufjármagn frá einstaklingum mjög þýðingarmikil uppspretta áhættufjármagns til fjárfestingar. Þetta er miklu síður svo t. d. í ríki eins og Vestur-Þýskalandi eða á Norðurlöndum þar sem meginreglan er sú, að fjárfestingarfé fyrirtækja kemur úr eiginfjármyndun fyrirtækjanna eða af hvers kyns stofnanabundnum sparnaði stórra sjóða, sem eru fremur að leita eftir öryggi í fjárfestingu en skyndilegri gróðavon í áhættusamri fjárfestingu. Það er ekki hægt að segja margt um þessa hluti hér einfaldlega vegna þess að íslenska efnahagslífið er svo sérstakt. Það er í raun og veru að sumu leyti líkara austurevrópskum sósíalisma en vesturevrópsku markaðskerfi vegna þess gífurlega forræðis pólitískra milliliða í okkar stjórnkerfi. Og vegna þess að hér er ekki til nema fyrsti frumvísir að raunverulegu fjármagnskerfi.

Menn verða einfaldlega að gera það upp við sig: Vilja menn gera þessa tilraun eða ekki? Og ég fyrir mitt leyti svara því út frá nákvæmlega sömu grundvallarforsendum og næstsíðasti ræðumaður, hv. þm. Guðmundur Einarsson, að ég tel að þessa tilraun verði að gera.

Við okkar aðstæður er það fyrst og síðast eitt atriði, sem fyllir fólk almennt efasemdum og veldur því, að það ber að líta á þetta sem tilraun, sem ætti að standa einhvern tiltekinn tíma og síðan ætti að endurskoða árangur stefnunnar eftir niðurstöðunum. Ástæðan fyrir þessu er sú, að það er svo mikil hætta á því, vegna smæðar fyrirtækja, vegna þess að flestöll fyrirtæki á Íslandi eru fjölskyldufyrirtæki, að hér sé verið að bjóða upp á verulega misnotkun. Við vitum það að skattsvik eða skattundandráttur. löglegur og ólöglegur, hefur færst gífurlega í vöxt á undanförnum árum. Að sumu leyti er það áhjákvæmileg afleiðing aðgerða ríkisvaldsins, að sumu leyti óhjákvæmileg afleiðing stjórnlausrar óðaverðbólgu. Og það ber að viðurkenna að úrræðin til þess að koma í veg fyrir skattundandrátt liggja ekki alveg í augum uppi. En það er alveg augljóst mál, að á því sviði hafa íslensk yfirvöld verið ótrúlega geðlurðuleg í allri framkvæmd mála: Og þegar skattundandrátturinn er orðinn mjög verulegur, þannig að það sem skiptir sköpum um afkomu fólks er raunverulega aðstaða til skattundandráttar fremur en t. d. upphæð launa, þá erum við komin með skattkerfi sem er ónýtt. Og það sem verra er og alvarlegra. Þá erum við komin í það ástand, að tæki ríkisvaldsins til tekjujöfnunar, til áhrifa á tekju- og eignaskiptingu, eru að verulegu leyti óvirk. Þess vegna er það, að samhliða því að við tökum undir þau grundvallarsjónarmið sem hér eru sett fram og erum tilbúnir að gera þessa tilraun, þá er það eiginlega pólitísk lífsnauðsyn m. a. til að fá fólk til þess að sætta sig við þá skynsamlegu leið sem hér er mörkuð að ríkisvaldið horfist í augu við staðreyndirnar um þennan hrikalega skattundandrátt og þau hrikalegu skattsvik sem eiga sér stað í þjóðfélaginu. Og stígi á stokk og strengi þess heit að gera, jafnhliða því sem þessi tilraun er gerð, sérstakt átak til þess að koma í veg fyrir þau og uppræta þau. Og það ætti að vera prófsteinn á vilja og sanngirni ríkisstj. í þessu máli.

Það er mjög erfitt að koma til fólks og segja: Til langs tíma séð er það alveg áreiðanlegt að ef við förum þessa leið þá er það öllum þorra almennings í hag. Þá mun það, þegar tímar líða fram, verða til þess að efla atvinnulíf og fyrirtæki, auka frumkvæði, örva sparnað o. s. frv. og mun skila okkur öflugri stöðu fyrirtækja og bættum lífskjörum þegar fram líða stundir. Það er erfitt að fá fólk til að sætta sig við það á sama tíma og núið, kringumstæðurnar sem við lítum á núna, eru þær að verið er að leggja þungar byrðar á allan almenning.

Menn standa frammi fyrir mjög alvarlegri og mikilli kaupmáttarskerðingu á tiltölulega skömmum tíma. Um leið horfa launþegar á það að allar tilraunir ríkisvaldsins til að jafna þessum byrðum á alla stranda á þeirri staðreynd að skattakerfið er ónýtt. Sumir sleppa alveg. Það eru aðeins launþegarnir í landinu sem bera þyngstu byrðarnar, þegar og einfaldlega af þeim ástæðum, að þeir hafa enga aðstöðu til skattundandráttar. Þeir verða að greiða sína skatta. Og það er síðan svo ákvarðandi um raunveruleg lífskjör að fólk sem kemst hjá skattgreiðslum er orðið sérréttindafólk sem býr við sérstök forréttindi í þessu þjóðfélagi. Á því sviði er mesta misréttið ríkjandi. Og það misrétti er við blasandi hvar sem er, og það er í raun og veru óþolandi og það er pólitísk staðreynd, að fólk sættir sig ekki við það.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri, herra forseti. Ég vil aðeins árétta það og leggja á það megináherslu: Það er pólitíski nauðsynlegt, um leið og þessi mál eru rædd og afgreidd hér á Alþingi, að þá liggi fyrir jafneinbeittur vilji meiri hluta þm. til þess um leið að gera það sem hægt er að gera og það sem gera þarf til þess að uppræta mesta og svívirðilegasta misrétti í íslensku þjóðfélagi sem er hin útbreiddu skattsvik. Þau bitna að fullu á aðeins hluta þegnanna, þ. e. launþegum, sem bera miklu meira en sinn hlut af þeim byrðum sem nú er verið að jafna út meðal fólks, á sama tíma og aðrir sleppa algjörlega.