26.03.1984
Neðri deild: 65. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4133 í B-deild Alþingistíðinda. (3527)

255. mál, almannatryggingar

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Heilbr.- og trn. beggja deilda hafa þegar haldið fund um þetta frv. og nm. voru sammála um að vinna að því að það fengi skjótan framgang vegna þess að nauðsynlegt er að þessar hækkanir komist til greiðslu sem allra fyrst. Hins vegar er full ástæða til að vekja athygli á því að þetta frv. er þannig til komið að kjaraskerðingar þær sem orðið hafa í þjóðfélaginu hafa komið harðast niður á þeim sem njóta lífeyris af öllu tagi vegna þess að 76. gr. laga um almannatryggingar kveður svo á að hækkanir á þeim bótum skuli vera samhliða öðrum launahækkunum í landinu. Við gerð kjarasamninga var verið að reyna að klóra ofurlítið í bakkann varðandi kjör þessa fólks, og er það auðvitað betra en ekki, og þess vegna mun ég að sjálfsögðu gera það sem ég get til þess að þetta frv. fái skjótan framgang.

Ástæðan til þess að ég stóð hér upp er hins vegar sú að full ástæða er til að vekja athygli á 5. gr. frv. þar sem talað er um svokallaða vasapeninga þeirra sem dveljast á stofnunum. Það vill nefnilega þannig til að 18. des. 1982 voru sett lög um málefni aldraðra og þar segir í 26. gr., 3. mgr., með leyfi forseta:

„Vistmaður á dvalarstofnun skv. 17. gr., 2. tölul., skal þó halda eftir til eigin þarfa 25% tekna sinna og aldrei lægri fjárhæð en kr. 1950 á mánuði. Vistmaður á dvalarstofnun skv. 17. gr. 3. og 4. tölul.“ — þ. e. sjúkrastofnanir — „skal halda eftir til eigin þarfa 15% tekna sinna og aldrei lægri fjárhæð en kr. 1330 á mánuði.“

Hér var sem sagt á sínum tíma verið að bæta mjög svokallaðar vasapeningagreiðslur. Það er munur á því að talað sé um 25% „tekna sinna“ eða 25% „grunnlífeyris og tekjutryggingar“ eins og hér er sagt. Það sem ég er einfaldlega að segja með þessu er að við erum ekki enn þá farin að láta framkvæma þessi ákvæði í 26. gr. laga um málefni fatlaðra. Þetta vekur okkur til umhugsunar um til hvers við erum að setja löggjöf um ákveðin málefni þar sem tölur eða prósentutölur koma fyrir sem eru svo aldrei settar í framkvæmd vegna þess að á ári hverju kemur fyrst hv. fjvn. og síðan hv. alþm. og samþykkja að þrátt fyrir ákvæði þessara og þessara laga skuli viðkomandi upphæð samt sem áður ekki vera nema þetta og þetta. Það fer að verða dálítið þreytandi fyrir hv. þm. að þurfa að horfa á það á ári hverju að þau lög, sem búið er að leggja mikla vinnu í að fá í gegnum þingið til úrbóta fyrir fólkið í landinu, eru hreinlega ekki framkvæmd. Ég vil vekja athygli á þessu.

Að öðru leyti mun ég að sjálfsögðu greiða fyrir þessu frv. svo að það verði samþykkt sem allra fyrst. Það er mjög nauðsynlegt fyrir Tryggingastofnun ríkisins að geta farið að vinna að þessum greiðslum svo að þær verði að veruleika í aprílmánuði. En ég held að það sé nokkurt umhugsunarefni fyrir hv. þm. hvað þetta endurtekur sig æ ofan í æ að samþykktar kjarabætur og framlög til hinna ýmsu málefna eru ekki framkvæmd eins og lög segja fyrir um.