26.03.1984
Neðri deild: 65. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4134 í B-deild Alþingistíðinda. (3528)

255. mál, almannatryggingar

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Fyrr á þessu þingi gerði ég nokkuð að umræðuefni hversu illa væri komið fyrir elli- og örorkulífeyrisþegum þegar þeir hefðu mátt þola 23–27% skerðingu á kjörum sínum á rúmlega ári. Nú er það auðvitað fagnaðarefni að hér skuli vera lagt fram lagafrv. sem gerir ráð fyrir því að hækka nokkuð bæði tekjutryggingu og almennar lífeyrisgreiðslur til elli- og örorkulífeyrisþega. En ég kemst samt ekki hjá því að vekja athygli á því hversu skammt þetta nær. Sú 7% hækkun sem hér er gert ráð fyrir að því er varðar almennan lífeyri mun engu að síður þýða það að kaupmáttur þessa almenna lífeyris er 17% lægri nú en hann var fyrir ári síðan. Tekjutryggingin mun standa eitthvað skár. En þetta er sannleikurinn að því er varðar hinn almenna lífeyri.

Þá skyldu menn hafa í huga að þeir ellilífeyrisþegar sem ekki njóta tekjutryggingar hafa framfæri sitt fyrir utan hinn almenna lífeyri af greiðslu úr lífeyrissjóðum. Þær greiðslur hafa skerst nákvæmlega jafnmikið og launin í landinu, þ. e. kaupmáttur þeirra hefur skerst um 25% rétt eins og almennar launagreiðslur því að það er sú viðmiðun sem menn hafa yfirleitt varðandi lífeyrissjóðsgreiðslur. Þó að ég sjái að hér sé stigið spor til réttrar áttar vil ég minna hv. deild á það hversu illa hefur verið gengið á hlut þessa fólks og hversu enn, þrátt fyrir þessa breytingu, eru lagðar þungar byrðar á þennan hóp sem menn tala þó oft og mikið um á tyllidögum að eigi að njóta starfa sinna fyrr á starfsævinni.

Að lokum, herra forseti, vil ég minna á í þessu sambandi að einmitt í þeirri umr. sem fór fram um skattalög fyrir nokkrum vikum síðan innti ég hæstv. fjmrh. eftir því hvort hann vildi nú ekki, miðað við aðstæður, fresta fyrirframgreiðslum eða lækka fyrirframgreiðslur almennt yfir línuna hjá elli- og örorkulífeyrisþegum. Hann sagðist mundu athuga það mál en síðan eru liðnar margar vikur og ég hef ekkert af málinu frétt. Hann tók vel í þetta á sínum tíma en efndirnar hafa því miður engar orðið. Ég vildi gjarnan fá að vita hvort von sé á efndum.