26.03.1984
Neðri deild: 65. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4152 í B-deild Alþingistíðinda. (3538)

159. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég get ekki stillt mig um að kenna hv. þm. og formanni Sjálfstfl., Þorsteini Pálssyni nokkrar staðreyndir um hlutafélög. Það vill svo til að ég hef einu sinni stofnað hlutafélag — satt að segja heldur til neydd en nokkuð annað. (Gripið fram í: Hvað hét það?) Það heitir Kvikmyndafélagið Norðan 8, hv. þm. Og vegna þess að hv. þm. Þorsteinn Pálsson minntist á kvikmyndagerð á Íslandi þá er ég afskaplega ósammála þeirri aðferð, sem hann mælti með, að einstaklingar væru burðarstólpar hennar og fengju frádrátt á sköttum vegna þess hlutafjár sem þeir legðu þar til. Nú skal ég nefnilega segja hv. þm. Þorsteini Pálssyni, hvernig mitt hlutafé vár greitt. Hann veit jafnvel og ég, hvernig slíkt gengur fyrir sig.

Ég lagði fram hlutafé, 15 þús. kr. þá, án þess að borga grænan eyri og hef aldrei gert. Þetta gekk einfaldlega þannig fyrir sig, hv. þm., að ég lánaði að vísu veð í íbúð minni ásamt nokkrum öðrum áhugamönnum um að gera eina kvikmynd — sem síðar var gerð. Út á það veð var tekið lán í einum af bönkum landsins og það var mitt hlutafé. Vill þá hv. þm. svara því á eftir: Hefði verið sanngjarnt að ég hefði fengið þetta lánsfé, sem ég aldrei borgaði, dregið frá sköttum? (ÞP: Þetta hefur verið lokað hlutafélag, hv. þm. Þá kom ekki til greina að þú fengir frádrátt.) Já, vissulega.

Þessi leikur í peningamálum er auðvitað hlægilegur. Við kunnum öll þá sögu hvernig framkvæmd á lögum um hlutafélög hefur verið. Íslensk hlutafélög eiga auðvitað að skila ársreikningum en gera það ekki. Þau eru lögð niður eftir geðþótta án þess að hafa nokkurn tíma skilað nokkurri ársskýrslu. Og sama fólk stofnar nýtt hlutafélag til þess að komast hjá því að greiða það sem því ber að greiða skv. hinu gamla hlutafélagi. Að heyra svo yfirlýsingar eins og þær að almennt launafólk í landinu eigi einhverja peninga til að leggja í atvinnureksturinn á meðan kjör þess eru skert stöðugt, sú umræða er fáránleg. Það er alltaf sama fólkið sem er að leika sér með þessi hlutafélög fram og aftur og það er tiltölulega lítill hópur í þjóðfélaginu.. Og ég hygg að ærið margir hafi lagt fram hlutafé eins og ég. sumir hafa hins vegar verið svo heppnir að græða á því. Það er nú ekki tilfellið í þessu dæmi, en það er önnur saga.

Ég held að áður en við getum komið nálægt því að samþykkja frv. eins og hér er á dagskrá væri ráð að gera einhverja gangskör að því að framkvæma lög um hlutafélög og hélst sjá um að þau væru framkvæmd. Það kostar eflaust peninga, það kostar eflaust starfskraft. Á það er aldrei minnst. Alveg nákvæmlega eins og það er lagt til í frv. því sem hér er til umr. að það skuli vera svo og svo mikið eftirlit með þessum hlutum. Það er ekki minnst orði á hvað það kostar. Og hvar er nú ábyrgð hæstv. fjmrh., að bera fram slík frv. án þess að það liggi nokkurn veginn fyrir hvað þarf af starfskrafti til að sjá um að framkvæma þetta eftirlit?

Umhyggja virðulegs formanns flokks míns, hv. þm. Svavars Gestssonar, fyrir samvinnuhreyfingunni er eflaust góðra gjalda verð. Þó held ég að það sé ærinn vegur frá Benedikt frá Auðnum og upp til hins koparslegna núverandi forstjóra. Og ég er ekki alveg viss um að Benedikt frá Auðnum væri alveg sammála ýmsu því sem þar fer fram. Þess vegna er ég ekki heldur handviss um að það væri málinu til framdráttar að minn ágæti formaður léti þess sérstaklega getið að hann hefði óskað umsagnar. Ég hygg að það væri frekar til þess að koma einhverjum smáóróa í mænuvökva núverandi forstjóra og hann kæmi kannske síður á fundinn.

Það er raunar margt merkilegt um þá ágætu hreyfingu, samvinnuhreyfinguna, og það fer ekki hjá því að þeir sem hafa búið við ofríki hins klassíska Bogesens í íslensku sjávarþorpi, þar sem það var skilyrði fyrir því að fá vinnu að taka út í búðinni, minnist gamalla daga þegar þeir koma í kauptún landsins. Ég vil taka um þetta eilítið dæmi, vegna þess að ég hygg að Benedikt sálugi frá Auðnum hafi haft hugsjónir um þátttöku landsins barna í framleiðsluarði þjóðarinnar og þá með fullum lýðréttindum.

Ekki alls fyrir löngu kom ég í Varmahlíð í Skagafirði og gerði að sjálfsögðu heimsókn þm. kjördæmisins, hv. þm. Ragnari Arnalds. Rétt fyrir neðan bústað hans er kaupfélagið. Og nú vantaði mig illilega Þjóðviljann. En Þjóðviljinn er ekki seldur þar vegna þess að kaupfélagið bannar það. Kaupfélagið (og samvinnu= hreyfingin) vill ekkert rugl, það vill vita hvar það hefur sitt fólk. Og ég hygg að það verði ærið erfitt fyrir bóndann, sem skuldar kaupfélaginu mjög mikið, að reka það erindi fast að Þjóðviljinn verði seldur í kaupfélaginu. Víða hygg ég því að menn veigri sér við í sveitum landsins að vera mikið að ybba sig gegn samvinnuhreyfingunni og Framsfl. Þau ítök hefur hann enn þá í þeirri ágætu hreyfingu. Menn geta átt það á hættu að þurfa skyndilega að fara að borga skuldir sínar við kaupfélagið. Ég get þess vegna ekki tekið undir þá umhyggju sem flokksformaður minn ber fyrir þessari mjög svo umræddu hreyfingu. (Gripið fram í: Það var nú bara í nösunum á honum.) Vissulega. Og var nú harla gegnsætt. Ég held að við Alþb.-menn hljótum að minna líka á ýmislegt miður fagurt sem sú ágæta hreyfing fæst við, svo sem hermang á Keflavíkurflugvelli og annað miður geðfellt sem ég hef ekki séð hingað til að skilaði sér í verulegum arði til hins almenna vinnandi manns. Ég hygg að það fari í einhverja aðra hluti.

En allt kemur þetta heim og saman við aðra hegðun þeirra framsóknarmanna og viðhorf þeirra til hins vinnandi manns í landinu. Ég hef áður minnst á það að hæstv. forsrh. var einn fimm forsrh. Norðurlanda sem fagnaði því ákaflega að þeim ágæta forstjóra Volvo-fyrirtækis, Pehr Gyllenhammar, datt í hug að það væri nú ágætt að taka völdin af þessu stjórnmáladóti, sem aldrei vissi hvað það vildi, og búa sjálfur til starfshóp sem gæti sagt norrænum stjórnmálamönnum fyrir um hvernig best væri að leysa efnahagsvandann og atvinnumálin á Norðurlöndum. Og ekki hefði honum fyrr dottið það í hug — og það var skýrt tekið fram í tilkynningunni að hann ætlaði sjálfur.að ráða því hverjir yrðu í þessum ágæta starfshópi — en á borð okkar kom fagnaðarstuna þeirra forsrh. yfir þessari snjöllu hugmynd. Þar á meðal var okkar hæstv. forsrh. Steingrímur Hermannsson. Ég vil þess vegna, til þess að vera nú foringja mínum trúr, hér með leggja til að hæstv. ráðh. Steingrímur Hermannsson beiti sér fyrir því að það verði ekki bara Ragnar Halldórsson til dæmis eða einhver annar atvinnujöfur sem taki sæti í þessum hópi, heldur fái þar einnig sæti Erlendur Einarsson.

En ég verð að leiðrétta hv. þm. Pál Pétursson. Hann sagði áðan að það gæti vel verið að Samband ísl. samvinnufélaga væri ekki alltaf kallað til ráðslags um þingmál. Ég hef setið með hv. þm. alla mína þingtíð, sem nú telur bráðum fimm ár, í hinum ýmsu nefndum þingsins. Ég held að ég hafi aldrei vitað til þess, ekki í eitt einasta skipti, að mál væru send til Sambands ísl. samvinnufélaga. Og ég hef hreint ekki orðið vör við að hann óskaði þess. Hins vegar hefur Verslunarráð Íslands þeim mun oftar fengið hin ýmsu mál er snerta atvinnulífið í landinu til umsagnar. Ég held að þess séu naumast nokkur dæmi, upp á síðkastið a. m. k., að Samband ísl. samvinnufélaga fái mál til umsagnar. Og það kynni nú kannske að vera af því að hv. þm. Páli Péturssyni þyki líka leiðin orðin ærið löng frá hinum upprunalegu hugsjónum samvinnustefnunnar til þess fyrirtækis sem nú heitir Samband ísl. samvinnufélaga.

En ég skal ekki fjölyrða meira um þessi mál: Ég vil aðeins fá að ítreka með leyfi forseta það sem ég sagði í dag um þá brtt. sem ég hef hér lagt fram. Ég tel að hv. þm. beri skylda til, þó seint sé og þar skal ég taka á mig mína sök, að taka eitthvert tillit til þeirra hlutafélaga sem hvert einasta íslenskt heimili er byggt upp af þegar verið er að fjalla um skattafríðindi til fyrirtækjanna. Ég gat þess í dag að það hefði að sjálfsögðu verið eðlilegra að koma með þessa brtt. þegar 129. mál þingsins var afgreitt. En svo vill þó til að það var einnig frv. til l. um breytingar á þeim sömu lögum og hér eru á dagskrá í dag, sem sagt lögum um tekjuskatt og eignarskatt.

Ég tel ekki ástæðu til að þylja hér yfir galtómum sal það sem ég sagði í dag. Það voru þó mun fleiri sem þá voru hér viðstaddir. En inntak þessarar till. er einfaldlega það, að áfallnar verðbætur fái að teljast til skattafrádráttar eins og vextir í þrjú ár, sé stofnað til skuldar vegna íbúðakaupa, og 1/6 áfallinna verðbóta sé um að ræða nýbyggingu. Ég held að þetta skýri sig nokkuð sjálft. Það gefur auga leið að vegna lána, sem að undanförnu hafa verið veitt svo til eingöngu með verðbótum og 2.5% vöxtum, kemur mjög lítið til frádráttar á sköttum þegar aðeins vextirnir eru frádráttarhæfir. Hér er sem sé verið að fara fram á að í staðinn fyrir verðbætur séu reiknaðar við skulum segja á láni til 25 ára sem 1/25 árlega þá sé sá hlutur aukinn eins og segir í till.

Ég skora á hv. fjh.- og viðskn. að taka þessa till. til umr., ég tel að hún sé alveg þess virði. Og vegna þess að hér hefur orðið nokkuð til umr. hvaðan væri óskað umsagna þá væri t. d. ekki úr vegi að fá til skrafs og ráðagerðar við n. t. d. forsvarsmenn Sigtúnshópsins, sem hélt hér í bæ stóran fund um kjör húsbyggjenda og íbúðarkaupenda. Jafnframt væri ekki úr vegi að kalla til ráðslags við sig fulltrúa frá hinum nýstofnaða Búseta. Ég veit að það verður ekki erfitt að fá þetta gert þar sem hv. þm. Þorsteinn Pálsson er maður valddreifingarinnar. Ég hygg að hann hljóti að beita sér fyrir því að fulltrúar sem allra flestra hópa í þjóðfélaginu fái að segja eitthvað um þetta mál sem varðar næstum því hverja einustu fjölskyldu í landinu. Ég vænti þess að hv. þm. taki þessa till. til gaumgæfilegrar skoðunar.