26.03.1984
Neðri deild: 65. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4155 í B-deild Alþingistíðinda. (3539)

159. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Hv. þm. Þorsteinn Pálsson, formaður Sjálfstfl., flutti hér merkilega ræðu. Það virðist koma æ skýrar í ljós að til forustu hefur verið kjörinn í Sjálfstfl. maður sem telur þau viðhorf sem mikill meiri hluti þjóðarinnar og stór hópur manna innan Sjálfstfl. hefur talið til sinna lífshugsjóna vera argasta sovétkommúnisma.

Hv. þm. Þorsteinn Pálsson notaði þessa umr. um skattamál til að útskýra tvær grundvallarhugsjónir. Sú fyrri var á þá leið að þeir sem teldu vinnuna æðri fjármagninu væru óalandi marxistar sem ekki bæri að hlusta mikið á. Slíkur málflutningur væri nánast jafnúreltur og ræður Einars Olgeirssonar hér fyrir mörgum áratugum, en senn munu nú vera 20 ár síðan hann sat hér á þingi.

Hitt atriðið, sem hv. þm. Þorsteinn Pálsson setti hér fram sem grundvallaratriði í hugsjón sinni, var að sú stefna að samtök launafólks eignuðust hluti í fyrirtækjum væri sovétkommúnismi. Þetta eru mjög merkilegar kenningar. Þetta var ekki sagt hér í neinum illdeilum við þm., heldur notaði formaður Sjálfstfl. tækifærið í mjög rólegri og yfirvegaðri ræðu til þess að setja fram þessi tvö grundvallarviðhorf. Ég tel það vera mjög merkileg tímamót bæði í sögu Sjálfstfl. og í íslenskum stjórnmálum að formaður hans skuli koma hér á kvöldfundi og lýsa þessum tveimur meginforsendum stefnu sinnar og lífsviðhorfum. Ég ætla að skýra það nokkrum orðum.

Fyrra atriðið sem hann var hér að hafna var kenningin um að vinnan væri æðri fjármagninu. Hvaða öfl á Íslandi hafa aðhyllst þá skoðun? Það er að vísu rétt hjá hv. þm. að Alþb. hefur aðhyllst þá skoðun, það er alveg rétt, það er ekkert nýtt. Það hefur það ætíð gert. En það eru miklu fleiri sem hafa aðhyllst þessa skoðun. T. d. aðhyllist Framsfl., skv. lýsingum Eysteins Jónssonar á hugsjónagrundvelli Framsfl., einnig þessa skoðun. Það eru til margar greinar og ræður eftir Eystein Jónsson, sem lengst allra á þessari öld hefur verið í forustu Framsfl., var í forustu flokksins hér á Alþingi frá árinu 1934 til ársins 1974 eða í 40 ár samfleytt, og situr enn að því er ég best veit í framkvæmdastjórn Framsfl., nema þá að hann hafi hætt á síðasta flokksþingi fyrir ári síðan. (Gripið fram í: Eysteinn hætti á síðasta flokksþingi.) Já. Þar til árið 1983 sat hann í framkvæmdastjórn Framsfl. Allan sinn stjórnmálaferil lýsti Eysteinn Jónsson grundvallarhugsjónum Framsfl. á þann veg að í þeim fælist að vinnan og manngildið væri fjármagninu og auðgildinu æðri. Þar er ekki nokkur vafi á um afstöðu.

Alþfl. er þriðji flokkurinn á Íslandi sem fylgir þessum hugsjónum, eða því sem hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson þreytist aldrei á að kalla sósíaldemókratískar hugsjónir hér í þingsölum, og væri nú tími til kominn að hann færi að íslenska heiti sitt á hugsjónum Alþfl., svona á þriðja eða fjórða ári þessarar þulu, Alþfl. er einnig fylgjandi þeirri lífshugsjón að vinnan og manngildið sé fjármagninu og auðgildinu æðri. Ég er viss um að hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson er reiðubúinn að votta það hér.

Samtök frjálslyndra og vinstri manna, sem hér voru á Alþingi 1971–1978, eru fjórði stjórnmálaflokkurinn sem hefur verið fylgjandi þeirri grundvallarhugsjón að vinna og manngildið væru fjármagninu og auðgildinu æðri. Og ég held einnig, þó að ég kunni kannske ekki hér úr ræðustól að festa því stað, að Bandalag jafnaðarmanna sé fimmti stjórnmálaflokkurinn á Íslandi sem er fylgjandi því að vinnan sé fjármagninu æðri að gildi. Ég er einnig nokkurn veginn viss um, ef dæma má af málflutningi Samtaka um kvennalista, að þau eru sjötti stjórnmálaflokkurinn í landinu sem er fylgjandi þeirri lífshugsjón.

Svo kemur hinn nýi formaður Sjálfstfl., Þorsteinn Pálsson, hér og segir: Þessi hugsjón er bara argasti marxismi, argasti marxismi, sem ber að fordæma og er svo úreltur að hann hefur ekki heyrst hér í þingsölum síðan Einar Olgeirsson flutti hann. Ef þetta er af heilum hug og bestu vitund mælt hjá hinum nýkjörna formanni Sjálfstfl. þá er það greinilega vitnisburður um að frjálshyggjustaglið og hellaþvottur Hannesar H. Gissurarsonar á ungliðasveitinni í Sjálfstfl. hefur greinilega borið þann árangur að formaður Sjálfstfl. nýkjörinn heldur því fram grafalvarlegur hér á Alþingi að allir þeir sem telja að vinnan sé æðri auðgildinu séu örgustu marxistar sem beri að fordæma og það séu úreltar kenningar.

Kannske vill hinn nýkjörni formaður Sjálfstfl. telja Framsfl., Alþfl., Samtök um kvennalista, Bandalag jafnaðarmanna, Samtök frjálslyndra og vinstri manna marxiska flokka. Ef hann gerir það er greinilegt að hann veit ekkert hvað hann er að tala um, skilur hvorki stefnur þessara flokka né heldur hvað meint er með hugmyndafræðihugtakinu marxismi. Engu að síður var okkur boðið upp á þennan málflutning í að því.er virtist mjög yfirvegaðri stefnuræðu formanns Sjálfstfl. hér áðan.

Hitt grundvallaratriðið, sem hinn nýkjörni formaður Sjálfstfl. setti hér fram, var sú skoðun að það skipulag sem fæli í sér að sjóðir verkalýðsfélaga væru notaðir til þess að kaupa hlut í fyrirtækjum væri sovétkommúnismi. Hann sagði hreint og beint að það skipulag sem væri á stefnuskrá jafnaðarmannaflokksins í Svíþjóð, sósíaldemókrata í Svíþjóð, svo ég noti nú orðfæri Jóns Baldvins Hannibalssonar um launþegasjóði, væri nákvæmlega sömu tegundar og skipulagið í Sovétríkjunum, nákvæmlega sömu tegundar. Þetta var ekki heldur sagt hér í neinum æsingi. Þetta virtist vera yfirveguð skoðun hins nýkjörna formanns Sjálfstfl.

Ég vil biðja hv. þm. að hugleiða smástund að eitt verkalýðsfélag hér á Íslandi hefur beitt sér fyrir framkvæmd þessarar stefnu í ríkum mæli. Og hvaða verkalýðsfélag er það sem hefur haft það að stefnuatriði að framkvæma það sem formaður Sjálfstfl. stimplar nú hér í kvöld sovétkommúnisma? Það er Verslunarmannafélag Reykjavíkur. Verslunarmannafélag Reykjavíkur hefur haft það að stefnuatriði að kaupa t. d. hlutabréf í Eimskipafélagi Íslands, kaupa hlutabréf í Fjárfestingarfélaginu, kaupa hlutabréf í Flugleiðum, kaupa hlutabréf í öllum meiri háttar fyrirtækjum þar sem félagsmenn Verslunarmannafélags Reykjavíkur starfa. Þetta hafa forustumenn íslenskra verslunarmanna, eins og núv. hæstv. iðnrh. Sverrir Hermannsson, hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson og Magnús L. Sveinsson borgarfulltrúi um áraraðir talið aðalsmerki Verslunarmannafélags Reykjavíkur. Það kaupir hlutabréf. ítök í þeim stóru fyrirtækjum sem félagsmenn Verslunarmannafélags Reykjavíkur vinna hjá, á mjög svipaðan hátt og jafnaðarmannaflokkurinn í Svíþjóð hefur gert að stefnuatriði hjá sér. Og nú kemur formaður Sjálfstfl. hér í kvöld og segir: Þetta er bara sovétkommúnismi.

Guðmundur H. Garðarsson á sæti í þessari hv. deild. Það er miður að hann skuli ekki vera hér í kvöld til að hlusta á þennan boðskap síns nýja formanns, því ég hef hvað eftir annað á undanförnum árum heyrt hv. þm. Guðmund H. Garðarsson telja það sérstaklega Verslunarmannafélagi Reykjavíkur til tekna að hafa beitt sér fyrir ráðstöfun fjármuna félagsmanna og lífeyrissjóðsins með þessum hætti. Það eru örugglega fréttir fyrir þennan þm. Sjálfstfl. að hinn nýi formaður telji þetta jafngilda sovétkommúnisma.

Það er þess vegna alveg greinilegt að hin nýja forusta í Sjálfstfl. hefur tekið upp harðsvíraðri hægri stefnu heldur en ýmsir af helstu talsmönnum flokksins og forustumönnum Sjálfstfl. á undanförnum árum og á okkar tíma hafa látið sér til hugar komið að gæti gerst. Hinn nýi formaður Sjálfstfl. stendur í ræðustól á Alþingi og segir að það sem sjálfstæðismennirnir, sem veitt hafa Verslunarmannafélagi Reykjavíkur forustu, telja sitt mesta afrek til styrktar félaginu sé sovétkommúnismi í framkvæmd. Þetta eru kveðjurnar sem þeir Björn Þórhallsson, Guðmundur H. Garðarsson og Magnús L. Sveinsson, fá frá hinum nýja formanni Sjálfstfl.

Það er í raun og veru mjög merkilegt ef það á eftir að koma á daginn að Sjálfstfl. hafi nú kosið sér til formanns svo kreddusinnaðan, einstrengingsfullan og ofstækisfullan mann sem þau viðhorf hefur tileinkað sér sem komu fram í hans yfirveguðu og rólegu ræðu hér í kvöld. Hún gefur til kynna að lýsingar hans á þessum tveimur grundvallarviðhorfum séu bjargföst sannfæring sem hann muni beita sér fyrir að flokkurinn fylgi í reynd.

Þau félög sem t. d. Alþb. hefur haft veruleg ítök í hafa ekki beitt sér fyrir ráðstöfun fjármuna með þessum hætti eins og Verslunarmannafélag Reykjavíkur hefur gert. Það er þess vegna alveg ljóst að það verkalýðsfélag á Íslandi sem hefur skarað fram úr öllum öðrum við að hrinda þeirri stefnu í framkvæmd sem formaður Sjálfstfl. lýsti hér sem sovétkommúnisma er Verslunarmannafélag Reykjavíkur. Það er söguleg staðreynd sem ekki verður hlaupið frá.

Virðulegi forseti. Það eru vissulega tímamót þegar hinn nýi formaður Sjálfstfl. afhjúpar hugsjónargrundvöll sinn með þeim hætti sem hér gerðist. Og það ber vissulega að stuðla að því verði komið á framfæri að þessi nýja lína sé nú upp tekin í forustu flokksins. Það má vel vera að Framsfl. sé hlaupinn frá þeirri stefnu að vinnan sé æðri fjármagninu og manngildið sé ofar auðgildinu. Ég hef þó ekki heyrt neinar sérstakar yfirlýsingar um það, þó að verkin kannske gefi það til kynna hér á Alþingi eða annars staðar. En það er alveg ljóst að allir aðrir flokkar hér á Alþingi en Sjálfstfl. aðhyllast þá grundvallarhugsjón að vinnan sé æðri fjármagninu og manngildið sé æðra auðgildinu. Formaður Sjálfstfl. hefur þess vegna í ræðu sinni hér í kvöld dregið mjög skarpa línu milli Sjálfstfl. annars vegar og allra annarra flokka hér á Alþingi hins vegar.

Virðulegi forseti. Ástæða þess að ég kvaddi mér hljóðs í þessari umr. voru þær tímamótayfirlýsingar sem komu fram hér í seinni hluta ræðu formanns Sjálfstfl. og skýra þess vegna ljóslega hvers vegna hann telur það mikið nauðsynjamál að hrinda því frv. sem hér er til umr. í framkvæmd. Það sýnir hins vegar hve hægri sinnað þetta frv. er í raun og veru að jafnvel Erlendur Einarsson forstjóri SÍS skuli hafa við það athugasemdir. Hefur hann þó ekki verið í vinstri kanti eða miðju Framsfl., heldur yfirleitt verið þar lengst til hægri sem menn yfir höfuð hafa möguleika á að skipa sér innan Framsfl. Og af því að hv. þm. Páll Pétursson var að vitna í það að þetta mál hefði mikið verið rætt innan Framsfl. þá væri ekki úr vegi að spyrja hvort þetta mál hefði t. d. verið rætt í framkvæmdastjórn Framsfl. En síðast þegar ég vissi átti Erlendur Einarsson sæti þar ásamt ýmsum hv. þm. Framsfl. sem hér eru.

Virðulegi forseti. Hv. þm. Páll Pétursson vék nokkuð að þeim ræðum sem ég flutti hér um lausaskuldir bænda. Ég gagnrýndi þar vöxt milliliðafyrirtækja Sambandsins. Ég gagnrýndi þar að Sambandið tæki full umboðslaun af útflutningi á landbúnaðarafurðum sem er þó aðeins greiddur með litlu broti af því verði sem fæst hér innan lands. Ég gagnrýndi það að gífurlegir fjármunir hefðu verið fluttir frá neytendum og bændum sjálfum yfir í uppbyggingu þessara milliliðafyrirtækja. Ég nefndi ýmis önnur dæmi um ráðstöfun fjármagns á vegum forstjóraveldisins í samvinnuhreyfingunni. Ég gagnrýndi það að sumar innlánsdeildir kaupfélaganna eða reyndar allar nema innlánsdeild KEA hefðu notið þeirra forréttinda að fá að breyta bændabréfum í ígildi inneignar í Seðlabankanum til að uppfylla bindiskyldu. Og við þá gagnrýni mun ég standa hvar og hvenær sem er. En ef hv. þm. Páll Pétursson heldur að í slíku felist fjandskapur við samvinnuhreyfinguna sem hreyfingu fólksins í landinu þá er það mikill misskilningur. Ég væri alveg tilbúinn til að ræða við Pál Pétursson hér lengi í þingsölum um samvinnuhreyfinguna annars vegar sem fyrirgreiðslubákn á vegum forstjóra og fjármagnsuppbygginga í miklu milliliðabákni og svo hins vegar samvinnuhreyfinguna sem væri fyrirtæki fólksins, yfirleitt lítil fyrirtæki hér allt í kringum landið. Flest kaupfélögin eru mjög lítil fyrirtæki.

Hins vegar eru milliliðafyrirtæki Sambandsins, heildsölufyrirtæki Sambandsins, fyrirtæki sem heyra beint undir Sambandsforstjórana, hlutafélögin og dótturfyrirtækin. Það eru stóru fyrirtækin. Það eru stóru fyrirtækjasamsteypurnar í þessu landi. En þau kaupfélög sem eru í reynd einhvers megnug að stærð til og heyra beint undir fólkið, þau eru mjög fá. Þau er hægt að telja á fingrum annarrar handar eða svo. Ef hv. þm. Páll Pétursson er reiðubúinn í umr. hér í þingsölum um þetta bákn allt saman sem hvergi heyrir í samvinnuhreyfingunni, undir fólkið, þá skal ekki standa á mér. Ég hef setið á mörgum aðalfundum Sambands ísl. samvinnufélaga og er gjörkunnugur því að kosning stjórnenda í öllum þessum dótturfyrirtækjum og hlutafélagabákni öllu saman kemur hvergi fram þar sem fólkið sjálft getur haft áhrif á það innan Sambandsins, hvergi. Stjórnir þessara fyrirtækja og dótturfyrirtækja og milliliðafyrirtækja eru aldrei valdar á þeim vettvangi sem fólkið í samvinnuhreyfingunni hefur einhverja beina aðild að, aldrei. Þær eru valdar f þröngum hóp fáeinna forstjóra sem yfirleitt hvetja hver annan til að sitja í þessum stjórnum. Þetta er ekki lýðræði sem samvinnuhugsjónin er byggð á. Þetta er ekki réttur fólksins sem henni er ætlað að hafa í hávegum. Og þetta er ekki sú valddreifing og sú efnahagslega lýðræðisefling sem þeir sem stofnuðu samvinnuhreyfinguna höfðu í huga. Þetta er bara sókn eftir fjármálalegri drottnun yfir æ stærri hluta þjóðfélagsins og viðleitni til þess að sanka undir litla forstjóraklíku í Reykjavík æ stærri hluta af efnahagsumsvifum landsins. Og ef Páll Pétursson er reiðubúinn í rökræður um það hér í þingsölum þá er honum það velkomið.

Venjulega er það þannig að Páll Pétursson og aðrir þeir sem eru honum samferða þora ekki í rökræður um þetta mál hér í þingsölum, heldur skjóta sér á bak við það að þeir sem vilja taka þetta til gagnrýninnar skoðunar séu fjandmenn bænda, fjandmenn samvinnuhreyfingarinnar — og þar með er ætlað að ljúka málinu. Þær hótanir sem hann hafði við mig í ræðustól áðan út af ræðum sem ég flutti hér voru alveg skóladæmi um þessi vinnubrögð. Þorir ekki í efnislegar umr. um eitt einasta atriði sem ég nefndi hér í ræðu minni en hreykir sér yfir því að hann skuli nú finna mig aldeilis í fjöru og ræða við mig þau vondu orð sem ég hafi haft um samvinnuhreyfinguna. Það sé nú aldeilis óhróður sem ég hafi haft hér í frammi og það verði séð til þess að því verði komið áleiðis að ég hafi hér verið að rægja samvinnuhreyfinguna.

Þetta eru vinnubrögðin. En að menn þori að taka eitt einasta af þeim dæmum sem hér hafa verið nefnd til umræðu, það gerist aldrei. Þeir mega gjarna flytja Páli Péturssyni það, sem hér eru úr hans flokki, að ef hann þorir í umræður hér í þingsölum um þróun samvinnuhreyfingarinnar á undanförnum áratugum, sérstaklega síðustu 20 árum eða svo, og fjármagnsuppbygginguna í dótturfyrirtækjahringunum, hlutafélagahringunum og hvernig stjórnendur eru kjörnir á þessum vettvangi, þá er velkomið að taka þátt í þeirri umr.

Ef hv. þm. Þorsteinn Pálsson hefur einhvern raunverulegan áhuga á því að efla vald fólksins í landinu í atvinnulífinu, þá væri nær fyrir hann að skoða þessa hluti heldur en vera að leika sér hér með frv.-flutning af því tagi sem hér getur að líta, vegna þess að í samanburði við það að skapa fólkinu í raun og veru vald yfir þeim vettvangi sem ég hef hér núna verið að lýsa eru þessi frumvörp, sem hann var að mæla hér fyrir, nánast eins og krækiber í helvíti. Og það er í raun og veru prófsteinninn á það að hve miklu leyti hv. þm. Þorsteinn Pálsson þorir að veita fólkinu í landinu raunverulegt vald í atvinnulífinu og fyrirtækjunum, að hve miklu leyti hann er reiðubúinn til að skera upp þetta milliliðadrottnunarforstjórabákn, sem hefur vaxið hér upp eins og kolkrabbi undir því yfirskini að það sé einhver samvinnuhreyfing. (ÓÞÞ: Hvar er þá helvíti ef þetta er krækiber?) Ef hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson er reiðubúinn að halda áfram að kynnast því völundarhúsi sem við gengum báðir einu sinni um, þá er ég alveg viss um að það kemur að því að hann finnur þann stað. Þess vegna vona ég að þeir menn sem hér í umr. hafa lýst vilja sínum til þess að efla vald fólksins yfir atvinnulífinu í landinu verði á næstu mánuðum og misserum tilbúnir til einhverra raunverulegra verka í. þeim efnum.

Þau verk munu fela það í sér t. d. að rista upp töluvert af þessu milliliðabákni sem þarna hefur vaxið upp í skjóli forstjóraveldisins í SÍS og færa fólkinu í landinu raunverulegt vald yfir þessum fyrirtækjum og koma skipulagi þeirra þannig fyrir að það sé tryggt að það sé fólkið en ekki forstjóraklíkan sem hafi með það að gera.

Það getur þýtt líka að taka ýmis af stærri hlutafélögum einkafjármagnsins, sem hafa horfið langt frá sínu upphaflega valdi og hlutverki, og setja þeim svipuð skilyrði og gert hefur verið í ýmsum löndum eins og Bandaríkjunum t. d. Ef menn hafa einhvern raunverulegan áhuga á því að efla vald fólksins yfir atvinnulífinu í landinu, þá væri nær að taka til höndunum á þessu sviði heldur en leika sér marga mánuði að því að finna einhverjar lítilfjörlegar skattaformúlur sem, eins og hv. þm. Þorsteinn Pálsson lýsti hér sjálfur, koma til með að skipta mjög litlu á næstu mánuðum og árum.