26.03.1984
Neðri deild: 65. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4171 í B-deild Alþingistíðinda. (3548)

202. mál, einkaleyfi

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Virðulegi forseti. Á þskj. 359 er flutt stjfrv. til l. um breytingu á lögum nr. 12 frá 20. júní 1923, um einkaleyfi, með síðari breytingum. Með frv. þessu er lagt til að lögfest verði önnur málsmeðferð en verið hefur í þeim tilvikum sem rn. synjar einkaleyfisbeiðanda um einkaleyfi. Í stað ákvæða um að einkaleyfisbeiðandi geti krafist þess að synjun rn. á einkaleyfi verði tekin upp aftur og rannsökuð á ný af rn. er lagt til að komið verði á fót sérstakri nefnd til að úrskurða í ágreiningsmálum er varða skráningu einkaleyfa.

Frv. þetta er flutt samhliða frv. til breytinga á lögum nr. 47 frá 2. maí 1968, um vörumerki, um sama efni. Vísast til grg. með því frv. um forsendur þeirrar lagabreytingar sem hér er lögð til. En megintilgangur frv. er að stuðla að auknu réttaröryggi í stjórnsýslunni við meðferð einkaleyfa.

Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði máli þessu vísað til 2. umr. og hv. allshn.