27.03.1984
Sameinað þing: 70. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4171 í B-deild Alþingistíðinda. (3550)

Þingsköp

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Mig langaði að gera örstutt tilmæli hér vegna upplýsinga um að lögð hafi verið fram hér gögn frá Samtökum áhugamanna um jafnan kosningarrétt. Kosningalagaþátturinn úr fyrirhuguðum breytingum í stjórnarskrár- og kosningamálum er í n. í Nd. Bandalag jafnaðarmanna á ekki fulltrúa í þeirri n. Ég vil því nota þetta tækifæri til þess að beina þeirri eindregnu áskorun minni til n., sem raunar mun ekki enn hafa komið saman, um að koma saman hið bráðasta, kjósa sér formann og endurskoða fyrirliggjandi tillögur úr formannafrv. með tilliti til þeirra veigamiklu athugasemda sem Alþingi hafa borist í þessu máli, bæði nú í gær og fyrr í vetur, þegar bárust undirskriftir fólks af Norðurlandi, sem sömuleiðis hafði ákveðnar skoðanir um stjórnarskrár- og kosningamál, þó ólíkar væru þeim sem bárust hér í gær. Ég hygg að þessi viðbrögð fólks sýni okkur að fjöldi fólks, jafnvel þúsundir kjósenda, vilja fá umræður um þessi mál, enda þótt það hafi raunar ekki tekist í nýafstöðnum kosningum sem áttu að snúast um þetta.