27.03.1984
Sameinað þing: 70. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4171 í B-deild Alþingistíðinda. (3551)

214. mál, starfs- og endurmenntun vegna tækniþróunar

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. menntmrh. á þskj. 381 um starfs- og endurmenntun vegna tækniþróunar í atvinnulífinu.

Allir eru sammála um að áhrif tölvuvæðingar og örtölvutækni muni hér sem annars staðar hafa mikil áhrif á atvinnulífið á komandi árum. Mikilvægt er að þjóðfélagið sé í stakk búið til að mæta þeirri breytingu og röskun sem verður á atvinnulífinu, áhrifum þess á framleiðnigetu okkar og útflutningsmarkaði sem og þeim áhrifum sem tölvuvæðingin óhjákvæmilega hefur á störfin og starfsöryggi fólks í þjóðfélaginu. Ljóst er að mörg störf munu annaðhvort taka miklum breytingum eða úreldast og ný störf munu taka við.

Eðlilega hefur umræðan í þjóðfélaginu snúist mikið um áhrif tæknibreytingar á atvinnulífið, mannaflaþróun á vinnumarkaði og framleiðni og samkeppnishæfni í atvinnugreinum okkar og fjallar starfshópur á vegum félmrn. um þau mál. Veigamikill liður í því að við séum í stakk búin til að nýta okkur tækniþróunina sem og að starfsöryggi launafólks sé tryggt er ekki síst að menntakerfið taki mið af þessari þróun svo og að því fólki sem þegar er á vinnumarkaðinum sé búin aðstaða til að afla sér þekkingar og kunnáttu til að takast á við breytingar í störfum.

Inn í þá umræðu sem orðið hefur í þjóðfélaginu um þessi mál finnst mér vanta hvernig menntakerfi okkar sé í stakk búið til að mæta tæknibreytingum í atvinnulífinu.

Í fyrsta lagi með tilliti til starfsmenntunar almennt vegna nýrrar tækni, þ. e. hvaða aðstöðu skólarnir og kennarastéttin hafa til að búa nýja kynslóð undir að takast á við tæknibreytingar í atvinnulífinu, en um það fjallar sú fsp. m. a. sem hér er til umr.

Í öðru lagi: Hvaða möguleika hafa launþegar, sem eiga á hættu að missa störf vegna tæknibreytinga í atvinnulífinu, til að tileinka sér þessa nýju tækni með endurmenntun og starfsþjálfun? Í því sambandi hlýtur að vakna sú spurning hvort ekki þurfi að skipuleggja markvissa samvinnu milli menntmrn. og aðila vinnumarkaðarins um starfs- og endurmenntun. Mikilvægt er að fyrirtækin undirbúi starfsfólk sitt undir tæknibreytingar með því að gefa því kost á starfs- og endurmenntun sem hugsanlega mætti koma á í samvinnu við skóla- og menntakerfið í landinu.

Í þriðja lagi hef ég á þskj. 381 lagt þá fsp. fyrir hæstv. menntmrh. hvort ekki þurfi að gera sérstakar ráðstafanir vegna hefðbundinna kvennastarfa á vinnumarkaðinum til að konum jafnt sem körlum gefist kostur á að tileinka sé þessa nýju tækni. Því er haldið fram að tæknibyltingin muni ekki síst hafa áhrif á hefðbundin kvennastörf og áhrif tækniþróunarinnar muni verða þau að það verði einkum konur sem missi störfin. Margt bendir til þess hér á landi sem annars staðar að það sé ekki síst starfsöryggi kvenna sem muni vera í hættu vegna tækniþróunarinnar. Við því verðum við að vera búin og bregðast við með réttum hætti.

Konur hafa, m. a. vegna þess að heimilisstörfin og barnauppeldi hefur komið miklu meira í þeirra hlut, farið varhluta af menntun, starfsþjálfun og endurmenntun. Því er það mín skoðun að það þurfi ekki síst að skipuleggja starfs- og endurmenntun með hliðsjón af stöðu þeirra á vinnumarkaðinum þannig að þeim sé gert kleift að sækja námskeið og annað sem nauðsynlegt er til að tileinka sér þessa nýju tækni.

Samhliða starfs- og endurmenntun hlýtur einnig að vega þungt þáttur ríkisfjölmiðla í fræðslu- og endurmenntunarkerfi sem og námsflokka og bréfaskóla. Því hef ég einnig beint þeirri spurningu til hæstv. menntmrh. hvort ráðh. telji að gera þurfi sérstakar ráðstafanir með tilliti til stöðu kvenna á vinnumarkaðinum til að þær hafi jafna möguleika og karlar til að tileinka sér nýja tækni í atvinnulífinu.

Ég sé ekki ástæðu, herra forseti, til að hafa þessi orð fleiri, en vonast til að hæstv. menntmrh. gefi þingheimi skýr svör við þeim fsp. sem ég hef hér fram borið.