27.03.1984
Sameinað þing: 70. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4173 í B-deild Alþingistíðinda. (3552)

214. mál, starfs- og endurmenntun vegna tækniþróunar

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Hér er spurt um starfs- og endurmenntun vegna tækniþróunar í atvinnulífinu.

Hugtakið tækniþróun er víðtækt. Það er ekki gerlegt að svara spurningunni afdráttarlaust vegna þess að tækniþróun lýtur ekki neinum ákveðnum lögmálum sem unnt er að festa hönd á eða tímasetja. Þess vegna er erfitt að ákveða ráðstafanir fram í tímann til að mæta hugsanlegum þörfum. Eigi að síður reyna þeir sem vinna í menntakerfinu að gera sér grein fyrir hvert þróunin stefnir og gera viðeigandi ráðstafanir hvað menntun varðar.

Ný tækni kemur misjafnlega ört inn í starfsgreinar og því er mismunandi auðvelt að skipuleggja breytingar á kennslu. Oft tekur einnig nokkurn tíma að mennta kennara til að leiðbeina um nýjungar í störfum, ný kennslutæki þarf að útvega og stundum að breyta kennsluaðstöðu. Þetta allt krefst fjármagns og tíma.

Óhætt er að fullyrða að almennur áhugi kennara er á því að tileinka sér nýjungar og reyna að fylgjast vel með þróuninni. Í því sambandi má nefna hinn mikla áhuga sem nú er í skólunum á að taka upp kennslu í tölvufræðum og ritvinnslu, en notkun tölva og ritvinnslu fer hraðvaxandi í atvinnulífinu og eftirspurn eftir námi af þessu tagi er mikil bæði innan og utan skólans. Það er mikið unnið á vegum menntmrn. í þessu sambandi til að hafa þarna sem allra besta yfirsýn og skipulag á hlutunum.

Það er unnið sérstaklega að því að endurmennta kennara til að sinna þessum þörfum. Kennaraháskóli Íslands hefur nú altgóða aðstöðu til að kenna tölvunotkun, bæði nemendum skólans og starfandi kennurum, á endurmenntunarnámskeiðum. Enn fremur hafa verið haldin endurmenntunarnámskeið fyrir kennara m. a. í Verslunarskóla Íslands. Einstökum skólum hefur verið heimilað að hafa sérnámskeið fyrir sína kennara og kennarar hafa sótt námskeið til útlanda til að kynna sér nýjungar á þessu sviði til þess svo að geta leiðbeint.

Engar haldgóðar rannsóknir liggja fyrir um heildaráhrif tækniþróunar á íslenskt atvinnulíf og því er vart hægt að gera viðamiklar ráðstafanir um starfs- og endurmenntun þeirra, sem kynnu að missa vinnu vegna tækniþróunar, fyrr en betur verður séð hver áhrifin verða.

Tækniþróunin sjálf kallar á ýmis ný störf sem nú eru ekki til og skilgreind menntun til undirbúnings þeim er því heldur ekki til.

Það er reyndar hætt við að tækniþróunin taki fyrst til einfaldari starfa við iðnað, t. d. þar sem margt fólk vinnur með mikla þjálfun til sérhæfðra starfa en tiltölulega þrönga menntun eða takmarkaða til annarra starfa. Má í því sambandi nefna starfsfólk í fiskiðnaði og einhvern hluta skrifstofufólks. Konur eru vissulega fjölmennar í þessum starfsgreinum og óneitanlega eru því störf kvenna í þessum greinum í meiri hættu með að leggjast niður en mörg önnur.

Hvernig best verður brugðist við þeim vanda? Það liggur ekki ljóst fyrir nú. Menntakerfið verður að sjálfsögðu að reyna að bregðast við honum að því leyti sem snertir menntun í skólakerfinu sjálfu, en að sjálfsögðu hlýtur alltaf talsverður hluti endurþjálfunar vegna tækniþróunar í atvinnulífi að fara fram í atvinnulífinu sjálfu. Í því sambandi vil ég minna á að tvær nefndir eru starfandi á vegum rn. sem máli skipta í þessu sambandi, önnur á vegum félmrn., sem sett var á laggirnar til þess einmitt að kanna áhrif nýrrar tækni á atvinnulífið, og nefnd starfar á vegum menntmrn. sérstaklega um tengsl skólakerfisins og atvinnulífsins, m. a. að því að átta sig á að hvaða leyti skólakerfið þarf sérstaklega að vera á verði til að fullnægja nýjum kröfum vegna nýrrar tækni.

Þetta eru þau atriði sem ég vildi draga fram í þessu sambandi. Og ég sé ekki tilefni til sérstakra afmarkaðra svara í sambandi við einstaka stafliði. Þetta svar á við um þá alla.