27.03.1984
Sameinað þing: 70. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4174 í B-deild Alþingistíðinda. (3553)

214. mál, starfs- og endurmenntun vegna tækniþróunar

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. svörin þó ég verði að segja að ég sé litlu nær eftir svör ráðh.

Hæstv. ráðh. nefnir að það séu tvær nefndir starfandi sem vinni að þessum málum, önnur á vegum félmrn. og hin á vegum menntmrn. sem athugar tengsl skólakerfisins og atvinnulífsins. Ég hefði viljað að hæstv. menntmrh. gerði okkur meiri grein fyrir störfum þessara nefnda. Eins tel ég að það sé bæði eðlilegt og æskilegt að samvinna sé á milli þessara tveggja nefnda, sem starfa á vegum félmrn. og menntmrn. Ég vil spyrja hæstv. menntmrh. að því hvort svo sé ekki, að það sé samvinna og samstarf á milli þessara tveggja nefnda, og eins þá hvort ekki sé hægt að fá frekari vitneskju um störf nefndarinnar sem starfar á vegum menntmrn.

Hæstv. menntmrh. bendir réttilega á að störf kvenna séu í meiri hættu vegna tækniþróunar í atvinnulífinu. Það eru ekki síst hin hefðbundnu kvennastörf sem ég hef áhyggjur af. Því er haldið fram að neikvæðar hliðar tölvubyltingarinnar muni fremur bitna á konum en körlum. Til þess er vitnað að störf þeirra séu einhæfari og áhrifa tölvuþróunarinnar muni einkum gæta í þeim störfum þar sem konur eru fjölmennar, svo sem almennum skrifstofustörfum og störfum ófaglærðra t. d. í iðnaði. Í Danmörku er talið að á næstu 10 árum muni 75 þús. skrifstofustörf hverfa og í Bretlandi er því haldið fram að árið 1990 muni verða 20% atvinnuleysi hjá skrifstofufólki þar í landi. Það má ætla að svipuð þróun verði hér og hefur verið í nágrannalöndum okkar, tækniþróunin muni koma t. d. niður á skrifstofustörfum í miklum mæli.

Einnig er ljóst að með tilliti til þess að þungi heimilisstarfanna leggst fremur á konur en karla, jafnvel þó þær vinni fullan vinnudag á vinnumarkaðinum, hafa þær mun minni tíma aflögu til að tileinka sér nýja tækni. Við þessu verður auðvitað að bregðast í tíma. Væri örugglega vel til þess fallið ef skipulagt yrði af aðilum vinnumarkaðarins í samráði við menntmrn. námskeið eða endurmenntun sem a. m. k. að hluta til væri hægt að sækja í vinnutíma. Vil ég spyrja hæstv. menntmrh. hvort nefnd sú sem starfar á vegum menntmrn. hafi eitthvað hugað að því efni.

Á ráðstefnu sem nýlega var haldin um áhrif tæknibyltingar á atvinnulífið kom fram hjá Gylfa Kristinssyni að leiðin til að tryggja óbreytta lífsafkomu væri að auka menntun. Sagði hann m. a. að flestir virtust sammála því að menntun mannaflans hefði áhrif á það hvort og hvenær atvinnugreinar tækju nýja tækni í þjónustu sína. Af því er sýnt að meiri fjárfesting í menntun og aukin og vel skipulögð starfs- og endurmenntun eru eitt grundvallaratriðið og undirstaða þess að við verðum ekki undir í þeirri byltingu í atvinnulífinu sem tölvuvæðingin leiðir af sér, og ekki síst er hún forsenda þess að við getum vænst þess að starfsöryggi fjölda fólks á vinnumarkaðinum verði ekki stefnt í hættu.