27.03.1984
Sameinað þing: 70. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4176 í B-deild Alþingistíðinda. (3556)

214. mál, starfs- og endurmenntun vegna tækniþróunar

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Herra forseti. Ég vil minna á það, úr því að hæstv. félmrh. kom í ræðustól áðan og greindi frá nefndinni sem starfar á vegum hans rn., að í janúar s. l. svaraði hann fsp. frá mér um störf þessarar nefndar. Þá kom fram að í nefndinni á ekki sæti ein einasta kona. Tók ráðh. þá vel í þá ósk mína að í nefndina yrði skipuð kona eða fulltrúi þeirra sem kvennastörfin vinna. Þetta tengist mjög þeirri fsp. sem hér er nú til umr. þar sem þar eru látnar í ljós áhyggjur af stöðu kvenna á vinnumarkaðinum í kjölfar tækniþróunar. Mig langar því til þess að spyrja ráðh. að því hvort eitthvað hafi gerst í þessu máli, hvort skipan nefndarinnar hafi verið endurskoðuð. — Ráðh. sagði hér áðan að við þm. mættum eiga von á að fá brátt fyrstu áfangaskýrslu nefndarinnar og fagna ég því.