01.11.1983
Sameinað þing: 12. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 489 í B-deild Alþingistíðinda. (356)

4. mál, framkvæmd byggðastefnu

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Það kom ýmislegt fram í umr. um byggðastefnu um daginn og það er of langt mál að rifja það allt saman upp. Ég vil leggja ríka áherslu á að hér er alls ekki verið að mæla gegn byggðastefnu. Það hefur margoft komið fram og menn verða að minnast þess. Það er ekki verið að tala um að hætta viðleitni til að stuðla að jafnvægi í byggð landsins. Það er verið að leggja til breytingar sem miða að því að gera þessa viðleitni styrkari, auka þátttöku heimamanna og skilgreina vel öll markmið, eins og kom fram í máli flm.

Það er rétt, sem kom fram í máli hv. alþm. um daginn, að gefin er út skýrsla sem skýrir frá peningagreiðslum á vegum Framkvæmdastofnunar. Það er svo sjálfsagt að það er ekki sérstakrar þakkar vert. Þarna sjást ýmsar greiðslur stórar og smáar, og sumar svokallaðar greiðslur til fjárhagslegrar endurskipulagningar fyrirtækja vekja spurningar um hvernig þessum háu fjárhæðum, sem þar eru veittar, er varið innan þeirra fyrirtækja sem þær fá og hvernig er háttað af hálfu Framkvæmdastofnunar eftirliti með þeim fjárhæðum sem þannig er varið. Sé litið á ýmsar aðrar greiðslur smáar og stórar, t.d. til einstaklinga, vakna spurningar um hvort hér sé ekki um að ræða dæmigerða starfsemi sem ætti að vera í höndum banka.

Svo vildi ég nefna annað. Tengsl milli áætlana og fjárútlána eru afar laus eins og er. Þannig eru byggðaáætlanir í tómarúmi. Þær eru aðeins fjármagnaðar að mjög litlu leyti og þær eru því ófærar um að ná þeim markmiðum sem þær settu í upphafi og seinagangur í framkvæmd þeirra er í sumum tilfellum svipaður og seinagangurinn við nefndarstörfin, sem hv. þm. Stefán Benediktsson minntist á áðan. Gárungarnir segja að seinagangurinn við framkvæmd sumra áætlana um styrkingu byggða sé slíkur, að það verði að breyta þeim í till. um endurreisn eða jafnvel fornleifauppgröft á sömu svæðum.

Það eru einhverjir ræðumenn þykkjuþungir vegna efasemda um réttmæti kommissarakerfisins. Menn verða að geta rætt þetta án þykkju. Það sem skiptir máli t.d. er hugtakið um hugsanlega hagsmunaárekstra. Í stjórn og á framkvæmdastjórastólum Framkvæmdastofnunar sitja þm. BJ hefur gagnrýnt það og mörg önnur dæmi sama eðlis, eins og setu þm. í bankaráðum og þess háttar. Þetta verða menn að hafa nógu hreina samvisku og nógu sterk bein til að ræða faglega um. Í öðrum löndum eru settar um þetta strangar reglur til að koma í veg fyrir hugsanlega hagsmunaárekstra. Það er ekki verið að gera neinum neitt upp. Það er einungis verið að viðurkenna að reynsla áranna og þekking á freistingum mannlífsins gerir þessar reglur nauðsynlegar. Þessar reglur hafa verið settar um þátttöku í stjórnmálum, í embættisstörfum og atvinnurekstri og þær kveða oft svo á að það sé ekki nóg að viðkomandi geti sýnt og sannað að hann hafi farið að lögum, það eru gerðar kröfur um að það sé yfir allan vafa hafið að hann hafi farið að lögum.

Ég tek undir þakklæti til hv. þm. Ólafs Þórðarsonar um fylgi hans við hugmyndir okkar um að embættismenn verða ekki ráðnir nema til fjögurra ára.

Ég vildi að lokum aðeins ítreka að ég tel að þm. ættu að taka upp umr. um hagsmunaárekstra sem grundvallaratriði í stjórnsýslu. Þetta mál er þess eðlis að það á rétt á því að vera tekið upp eitt sér og málefnalega.