27.03.1984
Sameinað þing: 70. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4181 í B-deild Alþingistíðinda. (3563)

429. mál, samanburðarkannanir á launakjörum kvenna og karla

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Í raun og veru gæti ég látið nægja sem svar við þessari fsp. eitt já. Ég er tilbúinn að beita mér fyrir því í samráði við aðila vinnumarkaðarins að samanburðarkannanir eins og hér er spurt um verði gerðar. Líklega er það svarið sem hv. fyrirspyrjandi vill fá. Mér þykir þó tilhlýðandi að fara örfáum orðum um þetta málefni.

Ég vek til að byrja með athygli á því að slík samanburðarkönnun, sem hér er talað um, þarf að vera vel undirbúin og markmiðin verða að vera skýr ef hún á að bera þann árangur sem að er stefnt. Sömuleiðis er vitanlega nauðsynlegt að menn geri sér grein fyrir því hvað slík könnun kostar. Ég held ég megi fullyrða að hún muni kosta allmikið fé.

Ég vek athygli á að á kvennaárinu 1975 skipaði þáv. ríkisstj. kvennaársnefnd sem m. a. hafði það viðfangsefni að kanna stöðu kvenna í íslensku þjóðfélagi, svo sem aðstöðu þeirra til náms, aðstöðu til þátttöku í atvinnulífi og til að sinna opinberum störfum, launakjör þeirra og möguleika til þess að hljóta störf til jafns við karla. Ég hygg að nefndinni hafi sérstaklega verið falið að kanna hvort konur veldust yfirleitt í hin verr launuðu störf og þá hvers vegna. Niðurstöður þessa starfs voru síðan gefnar út í allmikilli bók sem forsrn. gaf út árið 1977, hún mun hafa verið 156 bls.

Þá er jafnframt upplýst að Jafnréttisráð hyggst í lok kvennaáratugar gera hliðstæða könnun sem á þá að leiða í ljós hvað áunnist hafi í jafnréttismálum á kvennaáratug Sameinuðu þjóðanna. Kostnaðaráætlun Jafnréttisráðs vegna þessa verkefnis hljóðaði upp á 172 þús. kr. og forsrn. mælti með því að fjárveiting yrði veitt í þessu skyni. Á fjárlögum þessa árs eru 100 þús. kr. ætlaðar sérstaklega til þessa verkefnis. Ég hygg þó að svo víðtæk könnun sem hér er um að ræða muni kosta miklu meira og því sé nauðsynlegt að fjárveiting verði veitt í því skyni.

Ég vek athygli á að sú könnun sem Kjararannsóknarnefnd gerði fyrir tilstuðlan forsrn., m. a. á kjörum þeirra sem við lökust kjör búa, kostaði 397 þús. 833 kr. Reyndar var þetta töluvert meira með útgáfukostnaði því að útgáfukostnaðurinn, sem Kjararannsóknarnefnd greiddi, var, minnir mig, 118 800 kr. Þess má geta að aðdragandi þeirrar könnunar var sá að Starfsmannafélagið Sókn og Verkamannafélagið Framsókn fóru fram á að könnun yrði gerð á kjörum aðila þeirra félaga. Ég leitaði þá til Þjóðhagsstofnunar um að gera þessa könnun, en Þjóðhagsstofnun taldi sér það illfært og benti á Kjararannsóknarnefnd sem hún taldi vera í stórum betri aðstöðu til slíks. Leitaði ég þá til Kjararannsóknarnefndar. Kostnaðurinn var þá áætlaður 150 þús. en hann varð þegar upp var staðið tæplega 400 þús. kr. Að hluta og e. t. v. mestu leyti má rekja það til þess að könnunin var töluvert víðtækari en upphaflega hafði verið gert ráð fyrir. Hún náði til samtals fjögurra félaga á höfuðborgarsvæðinu og átta félaga á landsbyggðinni eða samtals tólf félaga.

Það er nokkurt innlegg í þetta mál, sem hér er til umr., að í könnun Kjararannsóknarnefndar kom fram að meðaldagvinnutekjur karla í þeim félögum sem könnunin tók til í nóv. á s. l. ári voru 16 998 kr., en meðaldagvinnutekjur fullvinnandi kvenna voru 14 696 kr. Meðaldagvinnutekjur karla voru því tæplega 16% hærri en kvenna. Hins vegar svarar þessi niðurstaða alls ekki á nokkurn máta þeirri spurningu sem um er spurt, jafnvel ekki á því takmarkaða sviði sem þessi könnun náði yfir, því að þarna var t. d. ekki gengið úr skugga um að um sambærileg störf væri að ræða o. s. frv.

En mitt svar við fsp. er játandi. Ég er tilbúinn að beita mér fyrir athugun af þessu tagi og er tilbúinn að láta fara fram athugun á því hvað hún mundi kosta. Þá er ég tilbúinn að beita mér fyrir því að fjárveiting verði veitt í þessu skyni.