27.03.1984
Sameinað þing: 70. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4182 í B-deild Alþingistíðinda. (3564)

429. mál, samanburðarkannanir á launakjörum kvenna og karla

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Herra forseti. Ég fagna því að hæstv. forsrh. skuli hafa goldið nokkuð skýrt jáyrði við þeirri fsp. sem hér er borin fram. Heldur fannst mér það samt ankannalegt að heyra þann undirtón hjá hæstv. ráðh. að allar launakannanir séu nokkuð dýrar. Ég er þeirrar skoðunar að þær verði einfaldlega að skoða sem fastan kostnaðarlið því án þeirra er engin leið að henda reiður á stöðunni á vinnumarkaðnum yfirleitt.

Gildi samanburðarkannana á launakjörum kvenna og karla er ótvírætt, a. m. k. fyrir alla sem láta sig jafnan rétt og jöfn kjör karla og kvenna einhverju varða. Án þess að vita hvernig kjörum kvenna er raunverulega háttað samanborið við kjör karla er ógjörningur að sjá til þess að konur og karlar njóti sömu kjara á vinnumarkaðnum. Það vantar ekki að konur hafi lengi vitað að launakjör þeirra væru miklu lakari en launakjör karla. Okkur hefur hins vegar vantað tölulega útreikninga á því hversu miklu munar og hvernig. Það hefur enda verið eitt meginmál þeirra samtaka um launamál kvenna sem stofnuð voru á s. l. hausti að fá fram upplýsingar um hvernig launakjörum kvenna er raunverulega háttað. Í þeim efnum hefur ekki verið um auðugan garð að gresja, kyngreindar upplýsingar um þessi efni eru ekki á hverju strái, enda víst að á meðan þagað er um þessa hluti er engin ástæða til að vænta neinna breytinga.

Hæstv. forsrh. nefndi fáeinar tölur áðan. Þess er að geta að þau samtök sem voru stofnuð á s. l. hausti fóru á stúfana og lásu í þær upplýsingar sem þó eru fyrir hendi um launakjör kvenna samanborið við launakjör karla. Þá kom t. d. í ljós að á árinu 1982 voru meðalatvinnutekjur kvenna skv. skattframtölum meira en helmingi lægri en meðalatvinnutekjur karla. Þar kom fram að aðeins 5.5% útivinnandi kvenna náðu þá meðaltekjum karla og að mikill meiri hluti kvenna sem starfa hjá ríkinu, bæjarfélögum og bönkum eru um eða undir miðju launastigans.

Það er löngu kominn tími til að stjórnvöld sjái sóma sinn í því að láta kanna þessa hluti almennilega, þannig að hægt verði að uppræta það misrétti sem hér á sér stað og hefur átt sér stað að mestu athugasemdalaust árum saman. Stöðugar samanburðarkannanir á launakjörum kvenna og karla eru ein af forsendum þess að takast megi að leiðrétta í kjarasamningum gersamlega óviðunandi launakjör kvenna. Í samningum aðila vinnumarkaðarins ráðast launakjör kvenna jafnt sem karla, þannig að það er hrein grundvallarnauðsyn að samningamenn og konur hafi nýjar upplýsingar af þessu tagi í höndunum í hvert skipti sem samið er.

Afskipti ríkisvalds af kjarasamningum hafa hingað til verið til lítils sóma. En ef hlutur ríkisvalds og Alþingis á einhver að vera í þessum málum er hann sá að leggja sitt af mörkum til þess að samningsaðilar hafi frambærileg gögn í höndunum við gerð kjarasamninga. Þess vegna skora ég á hæstv. ríkisstj. að vinna nú fljótt og vel í þessum málum og horfa þar ekki í eyrinn.