27.03.1984
Sameinað þing: 70. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4183 í B-deild Alþingistíðinda. (3566)

429. mál, samanburðarkannanir á launakjörum kvenna og karla

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. svör hans.. Svörin voru mjög skýr og afdráttarlaus. Hæstv. forsrh. er tilbúinn til þess að beita sér fyrir því að slíkar kannanir verði gerðar.

Ég verð að segja að ég hef satt að segja orðið fyrir miklum vonbrigðum með framkvæmdavaldið á undanförnum árum í þessu efni því að þetta er ekki í fyrsta skipti sem tilraun hefur verið gerð til þess á Alþingi að fá framkvæmdavaldið til að standa fyrir slíkri könnun. Ég vil minna á það að á árinu 1980, að mig minnir, var samþykkt á Alþingi till. til þál. um kannanir á tekjuskiptingu á launakjörum, en í henni fólst að ríkisstj. mundi láta framkvæma nákvæmar kannanir á launakjörum og tekjuskiptingu í þjóðfélaginu. Var sú könnun í tólf liðum og m. a. voru tveir eða þrír liðir sem lutu að samanburðarkönnunum á launakjörum kvenna og karla. Þrátt fyrir það að fjögur ár séu liðin frá því að þessi till. var samþykkt hefur framkvæmdavaldið alls ekki farið að vilja Alþingis í þessu efni og engar kannanir verið gerðar sem þessi till. miðar að hvað þá að gerðar hafi verið kannanir sem sérstaklega miða að því að bera saman launakjör kvenna og karla.

Ég vil líka minna á að samþykkt var á Alþingi rökstudd dagskrá fyrir þrem árum. Það var þegar frv. til l. um breytingu á lögum um jafnrétti kvenna og karla var til umr. Hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Í trausti þess, að ríkisstj. beiti sér fyrir því nú þegar að kannanir verði gerðar á raunverulegum launakjörum kvenna og karla, svo og að kannanir þessar verði gerðar reglulega og Kjararannsóknarnefnd, Jafnréttisráði eða öðrum aðilum verði gert kleift með fjárframlögum eða á annan hátt að standa fyrir þeim, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“

Þessi rökstudda dagskrá var samþykkt um vorið og við næstu fjárlagagerð bólaði ekki á því að leggja ætti peninga fram á fjárlögum til þess að standa fyrir þessum könnunum. Ég flutti því brtt. við fjárlagagerð þá fyrir þrem árum síðan, um 300 þús. kr. framlag í þessu skyni. Það var fellt við fjárlagaafgreiðslu, m. a. s. af þeim sem stóðu fyrir því nál. sem ég var hér að lýsa. Ég hef orðið fyrir miklum vonbrigðum með þessi mál en vænti þess að breyting verði nú á og skilja megi svör hæstv. forsrh. á þann veg að þessar kannanir fari fram.

Hæstv. ráðh. talar um að hann muni beita sér fyrir því að fjárframlag fáist til þessa verkefnis. Ég vil spyrja forsrh. hæstv. hvað það þýðir nákvæmlega, hvort við þurfum að bíða með það fram á næstu fjárlagaafgreiðslu að veitt verði fjármagn í þessu skyni. Ég tel að við getum ekki beðið svo lengi — ekki síst þar sem vilji Alþingis hefur í mörg ár legið skýrt fyrir í þessu máli — eftir að þessar kannanir verði framkvæmdar. Ég vil því spyrja hann hvort hann sé tilbúinn að beita sér fyrir því nú þegar að þessar kannanir fari í gang í samráði við aðila vinnumarkaðarins og að við megum vænta þess, eins og raunar kom fram í fsp., að niðurstöður geti legið fyrir í lok samningstímabils á vinnumarkaðnum. Þessari spurningu vil ég beina til hæstv. ráðh. og vænti svara við henni.