01.11.1983
Sameinað þing: 12. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 490 í B-deild Alþingistíðinda. (357)

4. mál, framkvæmd byggðastefnu

Flm. (Stefán Benediktsson):

Herra forseti. Ég þyrfti kannske aðeins lengri undirbúning til að fjalla mjög ítarlega um hvað siðgæði er, en að því var spurt. Það er einfaldlega vegna þess að þar verður að byrja á því að byggja mjög breiðan grunn í umfjöllun áður en hægt er að fullyrða eitthvað ákveðið um hvert siðgæðismat okkar þjóðfélags er.

Það sem ég talaði fyrst og fremst um var að vinnubrögð Byggðasjóðs og þá Framkvæmdastofnunar þjónuðu pólitískum skammtímahagsmunum, en ekki þjóðhagslegum langtímahagsmunum. Ef þm. nenna er náttúrlega hægt að tína upp úr „Samþykktum lánum og styrkjum úr Byggðasjóði 1982“ á 16 blaðsíðum mjög mörg tilfelli um nákvæmlega þess háttar aðgerðir. Vegna þess að þessar aðgerðir eru orðnar eins árs gamlar núna sannar tíminn að þær hafa þjónað pólitískum stundarsjónarmiðum, en ekki þjóðhagslegum langtímahagsmunum. Það nægir þar að tína til öll þau lán sem nefnd voru hér áðan til fjárhagslegrar endurskipulagningar fyrirtækja, aðallega í sjávarútvegi. Mikið til sömu fyrirtæki eru núna nákvæmlega jafnmikið á vonarvölinni og þau voru þegar þau fengu þessa fyrirgreiðslu og biðja um hið sama eða eitthvað annað enn þá betra, eins og t.d. hugsanlega eftirgjöf á vangoldnum opinberum gjöldum til margra ára. Ég veit að það er reyndar ekki verkefni Byggðasjóðs að stuðla að slíku.

Ég tel t.d. að seinustu daga hafi einmitt orðið til enn eitt dæmi um það vald sem Byggðasjóður tekur sér. Hann er reyndar farinn að segja ríkisstj. fyrir verkum. Framkvæmdastofnun hugsaði lengi og vel um hvað mætti gera í mátefnum útgerðarfyrirtækis á Norðurlandi, sem kennir sig við Þormóð ramma. — Nafnið er náttúrlega að verða háðung fyrir fyrirtækið vegna þess að það er ekkert rammt við það fyrirtæki. — En Framkvæmdastofnun komst að þeirri niðurstöðu, að ríkisstj. bæri að gera o.s.frv. Hún gaf ríkisstj. hreint og beint skipun um að bjarga þessu fyrirtæki með þeim ráðum sem ríkisstj. væru tiltæk. Að því er ég best veit er hún að því þessa dagana.

Ég verð að viðurkenna að mig brestur löngun til að fara út í að tína til þessa hluti, sem ég veit að hv. þingheimur getur kynnt sér með því að lesa það plagg sem hér er fyrir hendi og hefur verið nokkuð lengi á borðum þeirra — þá á ég við skýrslu Framkvæmdastofnunar ríkisins ársins 1982 — og gera upp við sig í huga sínum hverjar af þeim aðgerðum sem hér eru taldar upp eru aðgerðir sem er eðlilegt að framkvæmdar séu í nafni byggðastefnu og hvað af þeim aðgerðum sem tíndar eru til er eðlilegast að menn leiti til síns viðskiptabanka með, en ekki til einhverrar stjórnar skipaðrar þm., sem geta einfaldlega stöðu sinnar vegna ekki brugðist öðruvísi við þeim þrýstingi sem þeir eru beittir en að reyna eftir bestu getu að leysa úr málefnum manna. Það kostar þjóðina smáaura hverju sinni, en safnast saman og verður að stórum upphæðum.