27.03.1984
Sameinað þing: 70. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4187 í B-deild Alþingistíðinda. (3572)

247. mál, staða skrifstofustjóra í menntamálaráðuneytinu

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Þær spurningar sem hér liggja fyrir á þskj. 448 eru að sumu leyti einfaldar og að öðru leyti er örðugt að svara þeim vegna þess að efnið er ekki til þess fallið að spyrja um. Ég kem að því nánar.

Ég vil fyrst svara spurningu nr. 2: „Er ekki ljóst að skv. 11. gr. laga um Stjórnarráð Íslands ber að skipa skrifstofustjóra úr röðum deildarstjóra ráðuneytisins?“ Skv. þeirri grein er heimilt að skipa deildarstjóra skrifstofustjóra og verður hann þá jafnframt staðgengill ráðuneytisstjóra.

Spurning nr. 3: „Hefur fjölgun skrifstofustjóra í menntmrn. verið samþykkt í ríkisstj.?“ Svarið er já.

Spurning nr. 4: „Kemur til álita, ef aðstoðarmaður ráðh. sækir um stöðu skrifstofustjóra, að henni verði veitt önnur staðan?“ Þessi spurning fannst mér vera fullkomlega óviðeigandi þegar umsóknarfrestur var ekki útrunninn og mjög óviðeigandi að spyrja um það á Alþingi hvort tiltekin persóna mundi hugsanlega sækja um stöðu svo og næsta spurning sem er afleiðing af þessari. Aðstoðarmaður ráðh. var Sólrún Jensdóttir til 1. mars. Þá var hún sett skrifstofustjóri. Hún sótti um stöðu skrifstofustjóra skólamála og lagði fram mjög glæsileg gögn með umsókn sinni, verð ég að segja, gögn sem sýndu mjög mikinn lærdómsframa, kennslureynslu í framhaldsskóla og háskóla, bæði hérlendis og erlendis og auk þess hafði hún deildarstjórastöðu í rn. eins og segir berum orðum í lögum um Stjórnarráð Íslands að gildi um aðstoðarmenn ráðh. Svo stóð á um hana þar til 1. mars að hún var sett skrifstofustjóri. Þessi setti skrifstofustjóri hefur nú verið skipaður skrifstofustjóri skólamála í menntmrn. Skrifstofustjóri fjármála hefur verið skipaður Örlygur Geirsson sem verið hefur deildarstjóri fjármáladeildar í menntmrn. Hann var einnig settur skrifstofustjóri fjármála frá 1. mars s. l. Þannig liggja þau mál nú.

Að því er varðar tölulið 1 í fyrirspurninni þá vil ég fyrst geta þess að ríkisstjórnin hefur lýst því yfir að hún stefni að því að bæta stjórnkerfi ríkisins, einfalda opinbera stjórnsýslu og bæta hagstjórn. Sérstakur kafli er um þetta í málefnasamningi ríkisstj., bls. 11. Í upphafi hans segir um stjórnkerfið:

„Til þess að gera stjórnkerfið virkara og bæta stjórnarhætti mun ríkisstj. beita sér fyrir breytingum í stjórnkerfinu. Markmið slíkra stjórnkerfisbreytinga er að einfalda opinbera stjórnsýslu, bæta hagstjórn og samræma ákvarðanir í opinberri fjárfestingu, draga úr ríkisumsvifum og efla eftirlit löggjafarvaldsins með framkvæmdavaldinu.“

Jafnframt var samþykkt í ríkisstj. sérstök till. frá hæstv. forsrh. í haust þess efnis að hver ráðh. um sig skyldi svo sem verða mætti láta gera hagræðingarúttekt á sínum stofnunum og fá til þess viðurkennd rekstrarráðgjafafyrirtæki. Í samræmi við þessa stefnu fékk ég á síðasta ári Gunnar Guðmundsson rekstrarverkfræðing til þess að athuga skipulag menntmrn. og gera úrbótatillögur með það fyrir augum að sú vinna sem þar færi fram mætti nýtast sem best og sem best skipulag yrði þar á. Þá stóð svo á að komið hafði fyrir æ ofan í æ að greiðslur voru stöðvaðar til skrifstofu menntmrn. Það lá beint við að láta kanna hvort hægt væri að breyta rekstrinum á þann veg að enn betur nýttust þeir fjármunir sem til rn. færu.

Tillögur Gunnars lágu fyrir í janúarmánuði. Ég kannaði þá hvort þær væru líklegar til árangurs og hvort þær mætti framkvæma eftir núgildandi stjórnarráðslögum. Um hið síðara hafði ég samband við lögfræðinga í menntmrn. og forsrn. Niðurstaða mín varð sú að tillögurnar yrðu, ef til framkvæmda kæmu, mjög til að bæta starfsemi rn. og þær mætti framkvæma án lagabreytingar. Þetta mál var þess vegna rætt á fundum ríkisstj. svo og sérstaklega bæði við forsrh. og fjmrh. Var ríkisstj. svo og ráðherrarnir því fylgjandi fyrir sitt leyti að í skipulagsbreytinguna yrði ráðist. Það hefur nú verið gert og skipting rn. í þrjár skrifstofur gekk í gildi 1. mars s. l. og kemst í framkvæmd smátt og smátt eftir því sem aðstaða rn. leyfir. Það segir sig sjálft að húsnæðisaðstaða er vissulega örðug og hefur alla tíð verið, en ég vona að þetta verði til þess fremur að ýta á úrbætur í því efni.

Þess er vert að geta í þessu sambandi að við skýringu á lögum um Stjórnarráð Íslands þarf að beita rúmri lögskýringu ef ná á tilgangi þeirra. Það hefur verið gert allan tímann sem þau hafa verið í gildi og annars staðar í Stjórnarráðinu sérstaklega. Ljóst er að fjöldi deildarstjóra hefur verið skipaður án þess að um sjálfstæðar stjórnsýslueiningar í skilningi laganna væri að ræða.

Í menntmrn. hefur þetta aftur þróast þannig að þar eru starfsdeildirnar sjálfstæðar með sína þjónustu. Þetta gerir kerfið að sjálfsögðu þyngra í vöfum. Svo færir annars sem menn þar eru í sínum störfum er það kerfið sjálft sem er mjög þungt í vöfum. Þetta hefur m. a. hjartfólgið málgagn hæstv. fyrri fyrirspyrjanda mjög viðurkennt og farið viðurkenningarorðum um þessa skipulagsbreytingu fyrir nokkrum vikum eða um það leyti sem hún varð opinber. Fyrirspyrjandi uppgötvar, þegar þetta hefur verið opinbert í margar vikur, að þarna sé hið mesta hneyksli á ferðinni, að nú eigi e. t. v. að gera einhverjar breytingar á þessu þunga skrifstofukerfi. Menntmrn. er að því leyti til frábrugðið öðrum rn.-að þar starfa um 80 manns. Það segir sig sjálft að í slíku kerfi þarf vissa einföldun í fyrirkomulagi til þess að hlutirnir gangi greiðlega og til þess að auðvelda yfirmönnum rn. sín störf.

Með lögum nr. 73 frá 1969 var sett heildarlöggjöf og jafnframt gerðar ýmsar breytingar á eldra fyrirkomulagi í Stjórnarráðinu. Það var nýmæli að lögbundið var hvaða ráðuneyti skyldu vera og jafnframt segir í lögunum: „Ráðuneyti má eigi á stofn setja né afleggja nema með lögum.“ Í lögunum eru enn fremur ákvæði um ráðuneytisstjóra og menn hliðsetta þeim, þá á ég við hagsýslustjóra og ríkisendurskoðanda í fjmrn. Enn fremur eru ákvæði um deildarstjóra og skrifstofustjóra. Þá segir í 12. gr.: „Auk ráðuneytisstjóra, skrifstofustjóra og deildarstjóra eru starfsmenn ráðuneyta fulltrúar, bókarar og ritarar eftir ákvörðun ráðh.“ í lögunum segir ekki berum orðum að um önnur starfsheiti sé að ræða.

Við getum nú farið yfir í huganum ýmis rn. og athugað það að hve miklu leyti þessu ákvæði sé fullnægt í bókstaflegasta skilningi. Niðurstaðan verður sú hin sama og ég nefndi áðan, að lögin hafa alla tíð verið túlkuð rúmt. Í lögunum segir ekki berum orðum að skrifstofustjórar megi vera fleiri en einn en það segir heldur ekki að þeir megi ekki vera fleiri en einn. Þetta er algert lögskýringaratriði og það ber að skýra það rúmt skv. því sem ég sagði áðan.

Í 11. gr. laganna eru ákvæði sem eftir orðum sínum mætti ætla að ýmist gerðu ráð fyrir einum eða fleiri skrifstofustjórum. Þannig segir í 2. mgr. þessarar greinar að heimilt sé að skipa deildarstjóra ráðuneytis skrifstofustjóra þess ráðuneytis og taki hann þá sjálfkrafa við störfum ráðuneytisstjóra í forföllum hans. Í 3. mgr. segir aftur á móti: „Ráðherra setur deildarstjórum og skrifstofustjórum erindisbréf.“ Hér er ráðh. í eintölu en skrifstofustjórar í fleirtölu sem út af fyrir sig bendir til að þeir geti verið fleiri en einn í sama rn.

Við skýringu á reglum stjórnarráðslaganna um starfsmenn í ráðuneytum verður að hafa í huga að ákvæðin eru ekki alveg skýr. Þau taka t. d. ekki með orðum sínum af öll tvímæli um það áhugaefni hv. fyrirspyrjenda hvort skrifstofustjórar í ráðuneytum megi vera fleiri en einn. Verður því að leita annarra lögskýringargagna. Fyrst verður þá fyrir lagafrv. sjálft sem er að finna í Alþingistíðindum 1968, A-deild, bls. 199 og áfram. Þar er ekki skýringar að finna í sjálfu frv. En næst verða fyrir umr. um málið sem prentaðar eru í B-deild, dálki 1253 og áfram. Frsm. um frv. var þáv. forsrh., Bjarni Benediktsson. Á tveim stöðum í ræðu hans sýnist augljóst að hann gangi út frá því að skrifstofustjórar hvers ráðuneytis geti verið tveir eða fleiri. Þannig segir hann:

„Það er sérstaklega rétt að vekja athygli á því að fjmrn. er nokkurs annars eðlis skv. þessu frv. heldur en hin ráðuneytin, þannig að fjmrn. skv. frv. skiptist í þrjár jafnsettar deildir. Það er hægt að skipta hinum ráðuneytunum í deildir þar sem allir deildarstjórar og eftir atvikum skrifstofustjórar eru undir einum ráðuneytisstjóra. . . .

Hér gerir frsm. ráð fyrir fleiri skrifstofustjórum en einum. Nokkru síðar í ræðunni segir hann með leyfi hæstv. forseta:

„Og ég vil taka það fram að í fyrstu lotu er ekki heldur ætlast til þess að ráðuneytisstjórum sé fjölgað, starfsmönnum, eða komið upp sérstökum skrifstofum, heldur taki ákvæðin gildi smám saman . . . “

Þetta eru ummæli úr framsöguræðu. Við lögskýringu varðandi ákvæðið um fjölda skrifstofustjóra er á það að líta að tilgangur laganna er bersýnilega sá að koma fastri skipan og árangursríkari á Stjórnarráðið en ekki að vera þrándur í götu endurbóta á starfsemi þess. Þegar allt þetta er haft í huga er að mínu áliti ljóst að rétt lögskýring er sú að skrifstofustjórar megi vera tveir eða fleiri í hverju rn. ef það horfir til endurbóta. Til áréttingar þessari skoðun vil ég bæta því við að stjórnarráðslögin hafa þau 15 ár sem þau hafa verið í gildi verið skilin þannig að þau gæfu svigrúm til þess að starfsmenn væru skipaðir eins og nauðsyn hefur þótt vera innan ramma laganna rúmt túlkaðra.

Svo að nefnd séu nokkur dæmi vil ég geta um þau starfsheiti sem ég nefndi áðan og getið er um í stjórnarráðslögunum, þ. e. ráðuneytisstjóri, skrifstofu-og deildarstjóri, fulltrúar, bókarar og ritarar. Talið hefur verið heimilt að ráða starfsmenn með öðrum starfsheitum. Í forsrn. er efnahagsráðgjafi og blaðafulltrúi, í dóms- og kirkjumrn. er byggingaeftirlitsmaður, í fjmrn. er launaskrárritari og reyndar er skrifstofustjóri í ríkisbókhaldinu sem er deild innan fjmrn. Í heilbr.- og trmrn. starfar maður sem nefnist í símaskránni sérfræðingur, í iðnrn. er lögfræðingur, í menntmrn. námsstjórar og námsefnishöfundar. Þetta eru aðeins nokkur dæmi tekin aðeins upp úr símaskránni Stjórnarráðsins og við vitum að þau eru enn þá fleiri. Sum þessara starfsheita og önnur sem hér eru ekki upp talin kunna að styðjast við sérstök lög en önnur gera það ekki. Ekki hefur þótt ástæða til að túlka stjórnarráðslögin þröngt um starfsheiti utan laganna og ætti því síður að vera ástæða til þess um ákveðinn fjölda skrifstofustjóra.

Ég vil taka það fram að hinir nýju skrifstofustjórar í menntmrn., eða þeir sem það starfsheiti hafa, eru hins vegar ekki jafnsettir þeim skrifstofustjóra rn. sem er staðgengill ráðuneytisstjóra. Ég skil lögin svo að það eigi að vera einn ákveðinn staðgengill ráðuneytisstjóra. Þannig eru þessi störf ekki að því leyti til sama eðlis og starf Árna Gunnarssonar núv. staðgengils ráðuneytisstjóra og skrifstofustjóra rn. Að þessu leyti til verður t. d. gerður munur í launagreiðslum að því er þessi störf varðar. Þetta vildi ég láta koma fram.

Ég held að þetta séu þau atriði sem meginmáli skipta í þessu sambandi. Það er von mín að þessi skipan verði, eins og ég heyrði raunar ákaflega marga segja að hún geti orðið, til þess að gera störf rn. einfaldari með því að láta skyldar deildir hafa auðveldara og sjálfsagðara samstarf sín í milli og skrifstofustjórarnir annist samræmingu milli þeirra og séu þannig ráðuneytisstjóra og ráðherra og öllu rn. mjög mikilsverðir starfskraftar á þann veg að bæði menntamálum og viðskiptamönnum menntmrn. verði auðveldara að fást við þau mál sem þarna er sýslað með.