27.03.1984
Sameinað þing: 70. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4193 í B-deild Alþingistíðinda. (3575)

247. mál, staða skrifstofustjóra í menntamálaráðuneytinu

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Hæstv. menntmrh. flutti þau rök fyrir því að fjölga skrifstofustjórum í menntmrn. í þrjá að með því væri verið að einfalda opinbera stjórnsýslu. Ef önnur rn. færu að dæmi hæstv. ráðh. mundi sú einföldunaraðferð hafa í för með sér að 33 skrifstofustjórar yrðu starfandi í Stjórnarráðinu í árslok. Hefði þá hagræðingarátak ríkisstj. borið mikinn árangur.

Hæstv. ráðh. upplýsti að hún sækti rök fyrir þessari hagræðingarbreytingu í tillögur sem hún hafi fengið frá Gunnari Guðmundssyni rekstrarráðgjafa. Hæstv. ráðh. sagði: „Fékk ég Gunnar Guðmundsson rekstrarráðgjafa“ til þess að gera þessar tillögur. Þessi frásögn hæstv. ráðh. stangast algerlega á við það sem komið hefur fram á opinberum vettvangi. Í blaðaviðtali nýlega upplýsti J. Ingimar Hansson að fyrirtæki hans, Rekstrarstofan, hefði verið fengin til þess af hálfu menntmrn. að gefa menntmrn. ráð og senda því tillögur um skipulagsbreytingar á rn. Í þessu blaðaviðtali ítrekaði J. Ingimar Hansson að Rekstrarstofan væri algert einkafyrirtæki sitt og aðrir ráðgjafar sem þar störfuðu, m. a. Helgi Þórsson sem nafngreindur var sérstaklega í þessu viðtali, kæmu þess vegna stjórn og fjármálum fyrirtækisins ekki við. J. Ingimar Hansson, sem titlaður er á bréfhaus Rekstrarstofunnar sem framkvæmdastjóri fyrirtækisins, upplýsti einnig í þessu blaðaviðtali að það hefði ekki verið gerður neinn sérstakur verksamningur milli rn. og Rekstrarstofunnar um þetta verkefni, enda hefði Rekstrarstofan ekki talið það nauðsynlegt vegna þess að það hefði ekki tíðkast í þessum viðskiptum. Ýmislegt fleira má tilgreina úr þessu blaðaviðtali við J. Ingimar Hansson þar sem skýrt er tekið fram að það hafi verið Rekstrarstofan, einkafyrirtæki hans, svo notuð séu hans orð, sem hafi verið fengið til að gera þessa hagræðingarúttekt á menntmrn.

Nú segir hins vegar hæstv. menntmrh. allt annað. Nú nefnir hæstv. menntmrh. tiltekinn einstakling. (Menntmrh.: Það er búið að nefna hann í öllum blöðum.) Það getur vel verið að búið sé að nefna hann í öllum blöðum, það veit ég ekkert um. — Hér nefnir hæstv. menntmrh. tiltekinn einstakling. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. menntmrh.: Er það rangt, sem J. Ingimar Hansson segir í blaðaviðtali, að það hafi verið fyrirtæki hans, Rekstrarstofan, sem hafi verið fengið til að gera þessa úttekt? Vinnur Gunnar Guðmundsson hjá Rekstrarstofunni eða ekki? Eru þær greiðslur sem menntmrn. hefur sent frá sér sendar til Rekstrarstofunnar, eins og framkvæmdastjóri hennar hefur lýst yfir í blaðaviðtölum, eða eru þær sendar til þess einstaklings sem menntmrh. nefndi hér?

Ég vil einnig spyrja hæstv. menntmrh.: Hvers vegna var ekki gerður verksamningur um þessa úttekt? Hver var það af hálfu rn. sem undirritaði það bréf sem sent var þegar beðið var um þessa rekstrarúttekt? Eða var ekki sent bréf? Er hæstv. ráðh. reiðubúinn að birta Alþingi þá skýrslu sem send var svo að fram komi þar greinilega hvort það er Rekstrarstofan eða sá tiltekni einstaklingur sem ráðh. nefndi hér sem vann að þessari úttekt? Enn fremur væri fróðlegt ef hæstv. ráðh. vildi upplýsa það hér hvort hún hyggst ráða sér nýjan aðstoðarmann í stað þess sem nú hefur verið ráðinn skrifstofustjóri, þannig að starfsmönnum ráðuneytisins fjölgi enn frekar í kjölfarið á þessari skipulagsbreytingu.

Ég vil svo að lokum taka undir með hv. þm. Ragnari Arnalds og Ingvari Gíslasyni, að fari aðrir ráðh. að fordæmi hæstv. menntmrh. og beiti þeirri svokölluðu „rúmu lögskýringu“, svo að notuð séu orð hæstv. ráðh., sem hún notaði sér til réttlætingar, er alveg ljóst að það er verið að opna leið fyrir stórkostlega pólitíska misnotkun á embættaveitingum og skipulagi Stjórnarráðs Íslands. Það er mjög merkilegt að það skuli vera ráðh. Sjálfstfl. sem beitir sér fyrir slíkri misnotkun og pólitískri valdbeitingu á embættaveitingum í rn.