27.03.1984
Sameinað þing: 70. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4194 í B-deild Alþingistíðinda. (3576)

247. mál, staða skrifstofustjóra í menntamálaráðuneytinu

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Það er nú orðið stórkostleg pólitísk misnotkun á embættaveitingavaldi að setja langhæfasta umsækjandann í stöðu sem auglýst er og sótt er um þegar svo stendur á að viðkomandi einstaklingur er í fyrsta lagi kona og í öðru lagi sjálfstæðiskona. Það er höfuðsyndin í augum hv. þm. sem hér hafa talað, a. m. k. tveggja, að það sé úr téðum Sjálfstfl. ráðinn í jafnábyrgðarmikið starf starfsmaður í menntmrn. Mér þykir það einkennilegt því ég veit ekki betur en slíkt hafi oft gerst áður þar á bæ sem og víðar í Stjórnarráðinu. Og mér þykir skjóta skökku við, rétt í þann mund sem þm. eru að ljúka við að ræða um fyrirspurn sem snertir mjög rétt og stöðu kvenna, að óskapast með þeim hætti sem gert er vegna þess að kona sé í jafnhárri stöðu í Stjórnarráðinu, í fyrsta sinn í sögunni.

Ég vil geta þess að ég tel menntmrn. mikinn feng að því að hafa fengið jafnhæfa konu þarna til starfa og Sólrúnu Jensdóttur, vísa á bug öllum staðhæfingum um að um sé að ræða pólitíska misnotkun og tel þær í hæsta máta óviðeigandi enda var það frámunalega hjárænulegt hve þm. lögðu á sig miklar krókaleiðir til að finna höggstað á þessari skipan. Það var svo dæmalaust furðulegt. T. d. kom það fram í máli hv. síðasta ræðumanns, 7. þm. Reykv., þar sem hann segir það alveg nýtt að Gunnar Guðmundsson rekstrarverkfræðingur hafi unnið þessa úttekt. Þetta kom fram í öllum fjölmiðlum um það leyti sem breytingin var ákveðin og að mig minnir daginn eftir að hún var kynnt og samþykkt í ríkisstj. Það kom líka fram að verkefnið væri unnið á vegum Rekstrarstofunnar, sem er fyrirtæki er hefur unnið fyrir rn. mikilvæg verkefni, t. d. í tíð Vilhjálms Hjálmarssonar. Það er ekki eins og eitthvað sé upp fundið í tilefni af hinni nýju skipan.

Hv. 7. þm. Reykv. nefndi nafn tiltekins annars starfsmanns þarna, sem kom þetta mál ekki hið minnsta við. Það minnti mig á að ég held ég hafi sjaldan séð jafnlágkúrulegan málflutning og var í blaði sem annars er nú sérfrótt í svoleiðis hlutum, Þjóðviljanum, eins og þegar fjallað var um þetta mál. Ég er áreiðanlega ein af þeim mörgu þm. og öðrum borgurum í þjóðfélaginu sem hafa af því áratuga reynslu að horfa upp á hvernig Þjóðviljinn níðir niður starfsheiður fólks, fræðimannsheiður manna. Þetta upplifði ég — það gerir ekkert til þó að ég segi það í þingræðu — t. d. í sambandi við föður minn og ýmsa aðra aðila sem mér eru nákomnir. En óneitanlega er þetta nýjasta dálítið sérkennileg lífsreynsla. Það byggist e. t. v. á því að það eru ekki svo margar konur sem í slíkum störfum hafa staðið, en það er sérkennileg lífsreynsla að verða vör við það á þessum vettvangi að gripið er til þess ráðs, sem reyndar er þekkt úr sögunni, þegar konur láta sér ekki segjast. Þá er stundum veist að börnum þeirra þó svo að þau séu alsaklaus. Það gerði Þjóðviljinn í þessu tilfelli, lét sér það sæma dag eftir dag með gersamlega óviðurkvæmilegum hætti. Þetta lýsir þeim aðferðum sem menn hafa talið sig þurfa að grípa til, svo einkennilegt sem það var og svo torskilið sem allt þetta upphlaup var.

Ég á bágt með að sjá hvaða pólitísk skýring getur verið á þessu upphlaupi, sem hv. Alþb.-menn hafa haft í frammi, nema þá að menn sjást ekki fyrir. Þeir ganga of langt í þeirri von að þeir fái nú höggstað á andstæðingi sínum. En svo kom í ljós að það tókst ekki. Rökin voru öll þeim megin sem þeim hentaði ekki. Þannig stóð þetta mál. Hins vegar hafa sagt mér sérfræðingar í sálarlífi Alþb.-manna að þeir hamist oft með þessum hætti þegar þeir sjálfir vita upp á sig skömmina. Það má vel vera. Ég skal ekki um það fjalla hér. Það vita þeir best sjálfir, enda er þeim af einhverjum ástæðum ekki sérlega rótt.

Menn hrópa upp að skipaðir verði 33 skrifstofustjórar í Stjórnarráðinu. Það er ekki ný saga að menntmrn. er stórt og viðamikið. Það vita þeir manna best hv. fyrirspyrjendur hér, sem auðvitað eru svolítið ergilegir. Unglingar mundu hafa tiltekið orð yfir það, að þeir væru svolítið „spældir“ yfir því að hafa ekki komið þessu í verk sjálfir. Ég skil það ósköp vel.

Það komu fram ummæli um að verk þetta væri illa unnið. Ég vil mjög eindregið mótmæla því. Verkið hefur verið unnið undir umsjá og í nánu samráði við ráðuneytisstjóra allan tímann. Það er hans mat að þetta sé mjög vandlega og faglega unnið verk. Alþb. kemst því ekki hjá að taka aftur staðhæfingar sínar um að þarna sé eitthvað sem hafi verið fyrir fram pantað, si svona niðurstaða og bara afgreitt yfir borð. Það er mikill misskilningur.

Hitt er annað mál að alltaf má búast við því að þegar gerð er skipulagsúttekt á stórri og gróinni stofnun rísi einhverjir upp og andmæli því, af því að þeir eru í eðli sínu mótfallnir öllum breytingum, nema þá kannske einhverri breytingu sem þeir gera sjálfir, og þeir þola ekki að skipað sé hið hæfasta fólk í störf ef það er úr öðrum stjórnmálaflokki en þeim hentar. Nú hef ég orðið vör við það að þessi umræddi starfsmaður, Sólrún Jensdóttir, er mjög málefnalegur í öllum sínum störfum. Það er ekki undan því að kvarta. Ég hef ekki spurt hinn skrifstofustjórann nýja hvar hann sé í flokki. Mig minnir að einhvern tíma hér á árum áður hafi hann verið framarlega í samtökum Alþfl. Það má vel vera að hann sé það enn. Aðalatriðið er að um sé að ræða hæfa starfsmenn. É,g veit ekki til að það sé neitt sem viðkemur pólitík í sambandi við skipan þeirra verka sem Árni Gunnarsson vinnur. Þetta er allt saman fólk sem vinnur sín skyldustörf málefnalega. Þannig er svo fjarri lagi að þessi málflutningur Alþb.-manna og hv. forseta Nd. eigi við nokkur rök að styðjast. Það munu menn fljótlega sjá ef menn skoða hug sinn. En ég skil það hins vegar að menn verða að mæla fyrir fyrirspurnum sem þeir hafa borið fram og menn verða að finna sér eitthvað til að segja um fyrirspurnir sínar, þó ekki nema þær standi á brauðfótum.

Herra forseti. Ég hafði gleymt að geta þess að ég fel rétt sem hv. 3. þm. Norðurl. v. segir í sambandi við 11. gr. stjórnarráðslaganna, að þar sem talað er um staðgengil ráðuneytisstjóra sé átt við einn mann. Ég er sammála honum um að einn maður eigi að vera staðgengill ráðuneytisstjóra. En þegar talað er um að heimilt sé að skipa deildarstjóra skrifstofustjóra, þá stendur ástæðan í næstu málsgr. á eftir í sömu lagagrein, 11. gr., en hún er sú, að þegar svo stendur á þarf ekki að gæta skyldunnar um auglýsingu á starfinu. Það er heimilt að skipa úr tilteknum hópum í nokkur störf í Stjórnarráðinu án þess að fullnægja skyldunni um auglýsingu. Þetta vildi ég að kæmi fram, herra forseti.