27.03.1984
Sameinað þing: 70. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4197 í B-deild Alþingistíðinda. (3578)

247. mál, staða skrifstofustjóra í menntamálaráðuneytinu

Fyrirspyrjandi (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Málflutningur hæstv. ráðh. ber þess vott að hún forðast að koma að kjarna þessa máls. Þetta mál snýst um lög og það snýst um pólitískar leikreglur, það snýst um það hvort ráðh. getur fjölgað stöðum í rn. — og það m. a. s. stöðum sem skipað er í ævilangt — að eigin geðþótta og án þess að til þess sé nokkur lagaheimild. Það snýst um það hvort ráðh. geta leyft sér þau vinnubrögð að gera pólitíska aðstoðarmenn sína að æðstu ráðunautum innan rn. án þess að til þess sé nokkur sérstök heimild.

Ég vek á því athygli að hæstv. ráðh. hefur enn ekki svarað seinustu spurningunni sem var á skrifuðu dagskránni, þ. e. hvort hæstv. ráðh. hygðist ráða sér nýjan aðstoðarmann.

Ég ætla svo ekki að fjölyrða frekar um þetta mál. Verið er að ræða það hér að oft sé deilt um pólitískar embættaveitingar. Í þessu tilviki er hins vegar um dálítið annað að ræða vegna þess að þarna er verið að búa til embætti í rn. og það meira að segja eitt af æðstu embættum rn. fyrir pólitískan skjólstæðing. Það er dálítið annars eðlis, gengur dálítið lengra en þegar um pólitískar embættaveitingar er að ræða.

Ég vil svo að lokum leyfa mér að spyrja: Hvað gerir næsti ráðh. sem ekki vill una þessum gerðum hæstv. ráðh.? Hann horfir fram á það að deildarstjórar fyrir iðnfræðslu, grunnskóla, skólarannsóknir hafa verið settir til hliðar, skotið hefur verið inn pólitískum erindreka Sjálfstfl. í eina æðstu stöðu innan rn. ofar embættum þessara manna. Hvað gerir hann? Mun hann una því? Hvert verður þá hans úrræði annað en að fjölga skrifstofustjórunum enn frekar?