27.03.1984
Sameinað þing: 70. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4197 í B-deild Alþingistíðinda. (3579)

247. mál, staða skrifstofustjóra í menntamálaráðuneytinu

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Það hefði greinilega verið í lagi ef viðkomandi hefði verið Alþb.-maður, svo er að heyra á tali hv. þm. Það er alveg augljóst að hv. þm. er hreint í vandræðum. Þetta snýst um lög, vissulega er þetta allt byggt á lögum. Það er nú einu sinni svo að það eru viss verkefni sem ráðh. er ætlað að vinna og viss verk sem undir hans ákvörðun heyra, þ. á m. skipan verka innan rn. Ég heyrði á hv. þm. Ragnari Arnalds að hann gerði því skóna að næsti ráðh. sem væri kannske ekki pólitískt sama sinnis mundi e. t. v. afnema þessa skipan. Þetta lýsir því hvernig hv. Alþb.-menn hugsa. Þeir töluðu um daginn um pólitískar hreinsanir, svo hafa þeir fundið út að það var rangt. Núna eru þeir að tala um það að ef sjálfstæðismaður sé skipaður í embætti sé viðbúið að hann missi það ef ráðh. kemur úr öðrum pólitískum flokki. Svona hugleiðingar eiga hér engan veginn við og ég mótmæli þeim alfarið. Vitanlega er það alrangt sem hér er haldið fram að hér sé lögbrot á ferðinni. Það er ekki fremur lögbrot en fjöldinn allur af ákvörðunum sem tekinn hefur verið í skipan Stjórnarráðs Íslands sem er eftir rúmri lögskýringu.

Ég veit ekki, herra forseti, hvort viðeigandi er að svara sumu því sem hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson sagði hér, svo langt var það sótt og svo fráleitt. (HG: Skriflegri fyrirspurn, svara henni, 5. lið er ósvarað.) Hvað var 5. liður, ég er ekki með fsp. með mér? (RA: Hvort ráðh. hyggst ráða sér nýjan aðstoðarmann.) Já, því er fljótsvarað: Já, það hyggst ég gera ef ég fæ tækifæri til þess. Það eru ekki búnar til nýjar stöður. Það eru ekki teknir nýir starfsmenn inn í rn., starfsmönnum er ekki fjölgað og það stendur ekki til. Hins vegar hef ég vissulega í hyggju að nota þá heimild að ráða mér pólitískan aðstoðarmann. Þá er því atriði svarað.

Ég held, herra forseti, áður en ég vík úr þessum ræðustóli að ég komist ekki hjá því að nefna það lítilfjörlega atriði sem hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson talaði um, að tiltekinn starfsmaður Rekstrarstofu hefði haft nafn stofunnar í símaskránni. Þetta varð Þjóðviljanum tilefni til að segja að viðkomandi væri eigandi þessa stóra og volduga fyrirtækis. Því miður er viðkomandi ekki svo vel staddur. En ástæðan fyrir þessu — rétt svo að hv. þm. sé rórra — er sú að svo stendur á um marga unga menn í okkar þjóðfélagi að eftir langa veru erlendis eru þeir á hrakhólum með húsnæði og fá stundum leyfi vinnuveitanda síns til þess að sefja nafn vinnustaðar með sínu eigin heimilisfangi sem e. t. v. er einungis í skamman tíma. Þetta vildi ég skýra þótt það sé varla nægilega mikilsvert til að fjalla um það í þingræðu. En engin ástæða er til þess að láta mönnum haldast uppi einhverjar dylgjur í þessu sambandi.

Ég held, herra forseti, að ég elti ekki ólar frekar við það sem hv. þm. hafa hér hrópað í vandræðum sínum yfir þessari fsp. Hér er um fullkomlega löglega og skynsamlega aðgerð að ræða að því er ég tel og ég hygg að menn bindi vissulega vonir við það að þetta verði til þess að bæta skipulag þessa ráðuneytis.