27.03.1984
Sameinað þing: 70. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4198 í B-deild Alþingistíðinda. (3580)

247. mál, staða skrifstofustjóra í menntamálaráðuneytinu

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Mér finnst rétt undir þessari umr. að minna á þrískiptingu valdsins. Hér fullyrðir lögfræðingur að brotin hafi verið lög. Engum ætti að vera það ljósara en þeim að undir þeim kringumstæðum eiga þeir að sækja menn fyrir dómstólum en ekki að standa í illindum hér í þingsal ef þeir eru sannfærðir um að þeir hafi rétt fyrir sér. Það væri náttúrlega ærin ástæða, eftir jafnstórar yfirlýsingar og gefnar hafa verið, að menn létu þá á það reyna og létu ekki standa fullyrðingu á móti fullyrðingu. (RA: Það er ekki hægt fyrir dómstóli, menn eiga ekki aðild að málinu. Það er einungis hægt fyrir Landsdómi.) Ég hygg að lögfræðingurinn geri sér grein fyrir því engu að síður að Alþingi Íslendinga fer ekki með dómsmál og að það er þá rétt að óskað verði eftir að það verði kannað fyrir Landsdómi ef það er leiðin.

En ég vil vekja á því athygli í þessu sambandi að mér finnst að þó að þarna hafi verið tekin djarfleg ákvörðun með endurskipulagningu á menntmrn. þá sé fullsnemmt að dæma um það á þessari stundu hvort hún er rétt eða röng. Tíminn mun svara því. Það mun koma í ljós eftir nokkur ár hvort ákvörðunin hefur verið rétt eða röng. En það hlýtur að vera eðlilegt í tímans rás að endurskoða ýmsa hluti. Menntmrn. hefur verið mjög fjölmennt ráðuneyti eins og menn vita og mikil spurning hvort ekki hafi verið þörf á endurskipulagningu á ýmsum málum innan þess. Með þessu er ég ekki að leggja neina sérstaka blessun yfir það sem gert hefur verið. Ég fullyrði það eitt að mér þykir dómurinn koma nokkuð snemma í þeim efnum. Ég hef engar tillögur um það fram að færa hvort rétt sé að leita hér úrslita hjá dómstólum en ég vil benda þeim á sem sækja málið af slíku kappi að það væri karlmannlegri leið en að hafa uppi hér jafngrófar ásakanir og menn hafa gert.