27.03.1984
Sameinað þing: 70. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4199 í B-deild Alþingistíðinda. (3581)

247. mál, staða skrifstofustjóra í menntamálaráðuneytinu

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Ég vil vekja aðeins athygli á því að þrátt fyrir ítrekaðar óskir í þessari umr. hefur hæstv. menntmrh. ekki svarað spurningum um það hvers vegna ekki var gerður verksamningur um þessa úttekt. Hæstv. ráðh. hefur ekki svarað því skýrt og skorinort hvort verkið var falið Rekstrarstofunni sem fyrirtæki. Hæstv. ráðh. hefur ekki svarað því hvort hún er reiðubúin að birta það bréf sem fól þessu fyrirtæki að vinna verkið. Hæstv. ráðh. hefur ekki heldur svarað því hvort hún sé reiðubúin að birta Alþingi þá skýrslu sem hún byggir allt sitt mál á. Það er satt að segja mjög sérkennilegt að virðulegur menntmrh. og hæstv. skuli kjósa frekar að ræða fjölskyldumál sín hér ítrekað í ræðustóli, og fá út á það væntanlega samúð þm., en að svara efnislega skýrum spurningum sem beint er til hennar um embættisfærslu hennar sem menntmrh.