27.03.1984
Sameinað þing: 70. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4201 í B-deild Alþingistíðinda. (3584)

239. mál, ný þjóðminjalög

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Hin stjórnskipaða nefnd, sem nú hefur setið að störfum, var skipuð 4. des. 1981 og hún skilaði af sér nú í des. Nefndin samdi drög að frv. ásamt ítarlegri grg. Í nefndinni áttu sæti Þór Magnússon þjóðminjavörður, Gunnlaugur Haraldsson safnvörður og Friðjón Guðröðarson sýslumaður, sem jafnframt var formaður nefndarinnar.

Frv. til nýrra þjóðminjalaga verður væntanlega lagt fram á yfirstandandi þingi, en frv. er nú til athugunar í rn. Um allmikinn lagabálk er að ræða, þannig að einhvern tíma mun taka að kanna hina ýmsu þætti frv. til nokkurrar hlítar, en því er langt komið og ég á von á að það verði búið mjög fljótlega.

Í hinu nýja frv. er gert ráð fyrir allvíðtækum skipulagsbreytingum og nokkrum kostnaðarauka. Það er ekki síst með það í huga sem nauðsynlegt er að athuga frv. vel og helstu atriði sem um er að ræða í þessu frv. Þau eru að landinu yrði skipt niður í sex minjasvæði og þeim svæðum aftur á móti skipt niður í ákveðinn fjölda safnasvæða. Þjóðminjasafn Íslands verði miðstöð minjavörslu í landinu og komið verði á fót þjóðminjaráði, nokkurs konar samráðsvettvangi yfirmanna minjavörslunnar. Húsfriðunarnefnd starfi áfram sem ákvörðunaraðili í málefnum húsaverndar, en hún er nú í tengslum við húsfriðunardeild Þjóðminjasafnsins, sem verði framkvæmdaaðili á þessu sviði. Þetta eru meginatriðin, en í þessu felast allmörg ný stöðugildi.

Eins og hv. þing skilur er ekki auðvelt að koma slíku í gegn nú alveg um þessar mundir. Það er m. a. með það í huga hvort unnt er að ná sama tilgangi án þess þó að út í allt það kerfi verði farið að sinni. Það var með þetta í huga sem verið er að endurskoða frv. og eins eftir ýmsum ábendingum sem fram hafa komið. Ég á von á að árangur þeirrar endurskoðunar liggi fyrir innan skamms.