27.03.1984
Sameinað þing: 71. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4221 í B-deild Alþingistíðinda. (3596)

216. mál, bygging tónlistarhúss

Flm. (Salome Þorkelsdóttir):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. sem flutt er á þskj. 385 um byggingu tónlistarhúss. Flm. auk mín eru hv. þm. Ragnar Arnalds, Ólafur Jóhannesson, Eiður Guðnason, Guðrún Agnarsdóttir, Stefán Benediktsson, Pétur Sigurðsson, Guðrún Helgadóttir, Davíð Aðalsteinsson, Jón Baldvin Hannibalsson og Sigríður Dúna Kristmundsdóttir. Till. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að kanna hvernig best verði fyrir komið hugsanlegri aðild að og fyrirgreiðslu ríkisins við nýstofnuð samtök um byggingu tónlistarhúss í Reykjavík.“

Samtök um byggingu tónlistarhúss voru stofnuð á s. l. hausti. Á stofnfundi samtakanna, sem haldinn var 16. okt. s. l., voru kosnir 36 fulltrúar úr hópi félagsmanna. Einnig tilnefndu félög og stofnanir sem aðild eiga að félaginu einn fulltrúa hvert fyrir sig í fulltrúaráðið. Eftirtalin félög og stofnanir hafa tilnefnt fulltrúa: Félag tónmenntakennara, Kammermúsikklúbburinn, Félag tónlistarkennara, STEF, Félag ísl. tónlistarmanna, Íslensk tónverkamiðstöð, Musica Nova, Tónlistarfélagið, samband flytjenda og hljómplötuframleiðenda, Samband ísl. karlakóra, Félag ísl. hljómlistarmanna, Bandalag ísl. listamanna, Tónskáldafélag Íslands, Norræna félagið, Félag ísl. organleikara, Landssamband blandaðra kóra og Íslenska óperan.

Þessi upptalning gefur e. t. v. nokkra mynd af því að húsinu er ætlað að vera tónlistarhús fyrir flutning hvers konar tónlistar. Þá er húsinu ætlað að vera fyrst og fremst heimili eða vinnuaðstaða og tónleikahús fyrir Sinfóníuhljómsveit Íslands. Eins og kunnugt er er hljómsveitin með aðstöðu og heldur tónleika í Háskólabíói og er með leigusamning þar frá ári til árs. Samtímis á þetta hús að gefa möguleika á eins mörgum tegundum sýninga og samkoma og hægt er, hvers konar tónleikahalds, leik-, dans- og óperusýninga. Þá er einnig ráðgert að hægt verði að bjóða upp á fjölbreyttari nýtingu á húsinu, svo sem til leiksýninga, kvikmyndasýninga og ráðstefnuhalds.

Það er alkunn staðreynd að þótt tónlist hafi verið flutt í kvikmyndahúsum, íþróttahúsum, kirkjum og félagsheimilum alls konar til ómældrar ánægju fyrir þjóðina hefur ekkert hús verið byggt til tónlistarflutnings á Íslandi. Tónlistin hefur þó verið sú listgrein sem verið hefur í hvað mestum vexti hér á landi a. m. k. síðasta áratuginn, talið er að um 40 þús. Íslendingar iðki tónlist. Um 6 þúsund Íslendingar stunda nú nám í sérhæfðum tónlistarskólum. Árangur þessa starfs er rétt að koma í ljós en birtist þó ekki að fullu fyrr en með næstu kynslóð.

Fjölmörg félagsheimili víðs vegar um land hafa gegnt og munu gegna veigamiklu hlutverki til flutnings góðrar tónlistar. Sama máli gegnir um kirkjur landsins, ekki síst í Reykjavík. Þrátt fyrir þessa staðreynd er að áliti tónlistarmanna brýn þörf á sérstöku tónleikahúsi sem gegnir svipuðu hlutverki fyrir tónlistina og Þjóðleikhúsið fyrir leiklist í landinu, en nú eru senn liðin 35 ár síðan Þjóðleikhúsið var vígt. Þrátt fyrir tímabundna erfiðleika í efnahagsmálum verður ekki lengur við það unað að ekkert tónlistarhús sé til staðar í landinu. Í þessu húsi fengi Sinfóníuhljómsveit Íslands fastan samastað eins og áður sagði og æfingaaðstöðu auk þess sem allur flutningur lifandi tónlistar ætti þar athvarf.

Miklu varðar að undirbúningur að byggingu tónleikahúss verði vandaður sem mest og eigi töluverðan aðdraganda. Bæði þarf að nýta sér þá þekkingu sem fyrir hendi er í landinu og reynslu annarra þjóða og laga hana að íslenskum aðstæðum. Í þessu skyni hafa samtökin um byggingu tónlistarhúss kynnt sér ítarlega tónleikahald hérlendis undanfarin ár og reynt að spá um þróunina á næstu áratugum. Skoðuð hafa verið tónlistarhús víða erlendis og samband verið haft við fjölmarga aðila sem sérstaklega vinna að þessum málum.

Samtök áhugamanna um byggingu tónlistarhúss hafa nú um 2000 félagsmenn, en samtökin eru einkum fjáröflunarsamtök. Gert er ráð fyrir að húsið verði sjálfseignarstofnun og verði byggt að tilstuðlan einstaklinga, ríkisins og sveitarfélaga á stór-Reykjavíkursvæðinu. Rekstrargrundvöllur tónleikahúss virðist góður og er gert ráð fyrir að rekstur þess geti staðið undir sér en þar varðar þó nokkru hvaða opinber gjöld verða lögð á þessa menningarstarfsemi. Áætlaður kostnaður við bygginguna nemur um 200 millj. kr. á núverandi verðtagi og er ljóst að stuðningur hins opinbera þarf að koma til ef unnt á að vera að hrinda þessum áformum í framkvæmd. Ljóst er að bygging þessa mannvirkis tekur nokkurn tíma en óhjákvæmilegt er að Alþingi marki stefnu í þessu máli þegar á þessum vetri þótt ekki verði um að ræða beinan fjárhagslegan stuðning að svo stöddu.

Ýmsir möguleikar koma til greina varðandi stuðning ríkisins, svo sem bein fjárframlög eða sérstök skattfríðindi til handa þeim einstaklingum, fyrirtækjum eða samtökum sem leggja fé til byggingarinnar. Einnig er ljóst að bíða þarf lags í þjóðfélaginu til þess að unnt sé að veita opinbert fé til þessarar framkvæmdar en undirbúningur hennar krefst talsvert langs tíma, a. m. k. 1 2 ár, og því er þessi till. flutt nú.

Herra forseti. Áður en ég lýk máli mínu vil ég leyfa mér að lesa nokkra punkta úr fyrsta fréttabréfi Samtaka um byggingu tónlistarhúss sem Egill Ólafsson, ungur og löngu þjóðkunnur tónlistarmaður, skrifar. Hann segir m. a., með leyfi forseta:

„Nú er rúm hálf öld liðin frá því að framtakssamir lúðraþeytarar byggðu Hljómskálann, eina húsið á landinu sem einvörðungu er hannað til hljómlistarflutnings og ætluðu að spila af þaki hans fyrir gönguglaða Reykvíkinga. Þessa menn dreymdi stórt eins og hugmyndir þeirra um hljómburð í háum sal skaparans sýna. En árin hafa liðið. Í nágrenni Hljómskálans er nú flugvöllur og verk fyrir blásturshljóðfæri og flugvélar fremur sjaldgæf. M. a. þess vegna þarf að reisa tónlistarhús þar sem líkt er eftir háum sölum skaparans eins og þeir gerast bestir. Í slíku húsi ættu allir þættir lifandi tónlistar að geta þrifist undir einu þaki.“

Í lok greinar sinnar segir Egill:

„Það starf, sem þar fer fram“ — þ. e. í væntanlegu tónlistarhúsi — „á að vera fjölskrúðugt og viðamikið og getur einungis orðið það með samstöðu allra tónlistarunnenda, hvort sem þeir eru á bomsum, flókum, blankskóm eða sokkaleistunum.“

Ég vænti þess, herra forseti, að þessi till. um byggingu tónlistarhúss fái stuðning og greiðan framgang hér á hv. Alþingi og ég vona svo sannarlega að það fámenni sem hér er í salnum á þessari stundu þegar mælt er fyrir þessari till. sé ekki vottur um áhugaleysi fyrir þessu máli heldur sé þar einhver önnur ástæða að baki, m. a. sú að nú er langt liðið á dag. En ég legg til að eftir að umr. hefur verið frestað verði till. vísað til hv. allshn.