28.03.1984
Efri deild: 70. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4223 í B-deild Alþingistíðinda. (3598)

18. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

Frsm. meiri hl. (Ólafur Jóhannesson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir till. meiri hl. allshn. Ed., en hún leggur til að þetta frv. sé fellt.

Allshn. sendi frv. til umsagnar allmargra aðila. Umsagnir bárust að vísu ekki nema frá sex aðilum, en það voru þó aðilar sem eiga veigamikilla hagsmuna að gæta í sambandi við þetta mál, þ. e. Alþýðusambandi Íslands, Vinnuveitendasambandi Íslands, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Verslunarfélagi Reykjavíkur og verkalýðsfélaginu Einingu á Akureyri, svo og starfsmannafélagi ÍSALs, en það félag taldi ekki í sínum verkahring að gefa umsögn um þetta mál. Enginn hinna aðilanna mælti með samþykkt þessa frv. og sumir — já, reyndar flestir — mæltu mjög eindregið gegn því, og sérstaklega lögðu launþegasamtökin eindregið til að það yrði fellt. Hið sama gerði raunar líka Vinnuveitendasamband Íslands, sem taldi ekki rétt að taka það atriði sem er í þessu frv. út úr. Niðurstaðan hjá okkur, sem skipum meiri hl. allshn., er því sú að rétt sé að fella frv.

Þá niðurstöðu meiri hl. ber alls ekki að skilja svo að við séum alfarið andvígir öllum breytingum eða endurskoðun á vinnulöggjöfinni. Þvert á móti hygg ég að sumir okkar a. m. k. mundu vera þeirrar skoðunar að það væri orðið tímabært að láta fram fara endurskoðun á löggjöfinni um stéttarfélög og vinnudeilur. Það er ekki neitt einkennilegt vegna þess að þessi löggjöf er orðin ærið gömul á okkar mælikvarða, frá því 1938, og það hefur sannarlega margt breyst í okkar þjóðfélagi frá því að þau lög voru sett. Ég hika ekki við að segja að þessi löggjöf er merk á marga lund og það var mikilvægt spor stigið þegar sú löggjöf var sett, en hitt er jafneðlilegt, að hún þurfi kannske einhverrar athugunar við og endurskoðunar vegna breyttra tíma og þá auðvitað ekki óeðlilegt að tekið sé mið af því hver reynsla hefur fengist af framkvæmd á þeim árum sem liðin eru.

En þegar á að endurskoða slíka löggjöf sem þessa um stéttarfélög og vinnudeilur, þá er vægast sagt ákaflega nauðsynlegt að haft sé fullt samráð við þau stéttarfélög sem hér eiga hlut að máli. Það getur orðið erfitt að endurskoða þessa löggjöf og gera á henni breytingar nema í sæmilegu samkomulagi við stéttarfélögin. Að mínu mati þarf það þá að vera heildarendurskoðun en ekki tekið eitt atriði. út úr eins og hér er gert.

Það einstaka atriði sem hér er tekið út úr og frv. fjallar um ætla ég ekki sérstaklega að ræða hérna, en það er í stuttu máli að veita heimild til að stofna vinnustaðafélög með vissum skilyrðum og vissum takmörkunum. Mín persónulega skoðun er sú, að sú hugmynd sem frv. byggist á sé að mörgu leyti athyglisverð, og ég verð að segja að hún skírskotar að sumu leyti til mín, en út í það ætla ég ekki að fara nánar hér af því að það er till. meiri hl. að frv. verði fellt og ekki ætla ég heldur þá að fara út í það, að ef til framkvæmda kæmi þetta frv. eða sú hugmynd sem frv. er byggð á hygg ég að það þyrfti að skýra ýmislegt nánar en gert er í þessu frv. En það er sem sagt, virðulegi forseti, ekki við hæfi að ég fari að fara nánar út í það þar sem niðurstaða okkar í meiri hl. er sú, sem ég hef lýst, að við leggjum til að frv. verði fellt.