28.03.1984
Efri deild: 70. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4225 í B-deild Alþingistíðinda. (3599)

18. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

Frsm. minni hl. (Stefán Benediktsson):

Virðulegi forseti. Frsm. meiri hl. hefur þegar gert grein fyrir umfjöllun málsins. Nægir fyrir mig að ítreka að þeir umsagnaraðilar sem svöruðu beiðnum um umsögn, þ. e. Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, Vinnuveitendasamband Íslands og Alþýðusamband Íslands, skiluðu allir frekar neikvæðum umsögnum um þetta atriði, þó gildir það sérstaklega um BSRB og ASÍ, og lögðu til að þetta frv. yrði fellt ásamt því að allir aðilar lögðu þunga áherslu á að gildandi lög um stéttarfélög og vinnudeilur yrðu tekin til rækilegrar endurskoðunar.

Ég verð að játa að ég tel mögulegt að skoða þessi atriði algerlega aðskilin og minni enn og aftur á þá einföldu staðreynd að hér er ekki um annað að ræða en að veita fólki heimild til að stofna stéttarfélög á vinnustað með sömu réttindum og skyldum og gilda um stéttarfélög nú. Ég verð reyndar að játa að það læðist að mér ákveðinn grunur um að þó að mikill áhugi sé, að því er virðist, fyrir endurskoðun þessarar löggjafar hjá þeim verkalýðsfélögum sem hér gáfu umsagnir, þá felist í þeim tilmælum að fara fram á að þetta frv. verði fellt ákveðin yfirlýsing sem gefur tilefni til þess að álykta að þegar að endurskoðuninni kemur eigi þessi réttindi ekki mikið upp á pallborðið hjá þeim aðilum sem um þetta mál fjalla. Þar með er ég kominn að raunverulegu úrslitahlutverki löggjafans, að hann verði að gera upp við sig hvort hann lætur hagsmunasamtök algerlega um að ráða málefnum sínum, líka þegar um persónufrelsi er að ræða eða frelsi einstaklinga, eða taki af skarið þegar um jafneinfatt atriði er að ræða og það að veita mönnum ákveðin réttindi, sem er ekki að hafa í dag. Að taka undir þann málflutning, sem heyrst hefur bæði hér og líka hjá þeim aðilum sem talað hefur verið við, að hér sé nánast verið að vega að rótum þess fyrirbæris sem verkalýðsfélögin eru, er mér með öllu óskiljanlegt. Annaðhvort er hér á ferðinni einföld glámskyggni manna og hræðsla við breytingar breytinganna vegna eða hér er einhvers konar rökstuddur ótti á ferðinni um að það skipulag sem fyrir hendi er sé svo veikburða og þá reyndar vitlaust að ekki flóknari aðgerð en þetta mundi geta kollvarpað baráttuaðstöðu verkalýðshreyfingarinnar í dag.

Mér er þetta mál ekki hvað síst mjög hugleikið í ljósi þess sem gerst hefur á undanförnu ári. Hér hefur farið fram mikil úttekt og skoðun á stöðu atvinnuvega og þá ekki hvað síst þeirra sem kallast stoðir efnahagslífsins. Það er alveg greinilegt á þeirri úttekt að afkoma fyrirtækja á landinu öllu er mjög misjöfn innbyrðis. Aftur á móti fara launaákvarðanir fram eftir ákveðnu landsmeðaltali eða yfirliti. Það þýðir í raun að stór hópur launþega verður af þeim hugsanlegu launahækkunum sem þeir gætu náð innan þeirra fyrirtækja sem vel ganga. Þó að að einhverju leyti mætti hugsa sér þetta sem heilbrigða jöfnunarmennsku er það ekki í mínum huga jafnaðarmennska því að það samrýmist einhvern veginn ekki í mínum kolli að hægt sé að verja það að einn aðili hafi það jafnvont og annar vegna þess að hann hefur það svo slæmt, þegar sá möguleiki er fyrir hendi víðs vegar í landinu. Það er yfirlýst að ákveðinn hluti fyrirtækja á þessu landi hefur blómstrað vegna svokallaðra efnahagsráðstafana ríkisstj. Ég fæ ekki með öllu séð að þeir sem vinna hjá þeim fyrirtækjum eigi ekki að hafa möguleika á því að taka þátt í þeim uppgangi og njóta hans að svo miklu leyti sem þeim ber. En til þess verða þeir að hafa þann kraft, það afl í sinni hendi að þeir hafi um eitthvað að semja við sína vinnuveitendur. Það geta þeir ekki öðruvísi en þeir hafi sömu réttindi og sömu skyldur og verkalýðsfélögin hafa í dag, þ. e. stóru hreyfingarnar.

Ég legg til að þetta frv. verði samþykkt. Ég býst ekki við að það gangi í gegn. Það kom til umræðu í nefndinni að vísa þessu máli til ríkisstj. í því skyni að hún gengist fyrir heildarendurskoðun á vinnulöggjöfinni. Ég tók ekki undir þá skoðun því að ég áleit það ekki neitt betri kost en að fara að tilmælum verkalýðsfélaganna sem lögðu til að frv. yrði fellt. Það er vegna þeirrar skoðunar, sem ég lýsti áðan, að sú hugsun sem að baki þeirri tillögu liggur, þ. e. að fella þetta frv., hlýtur að benda til þess að viðkomandi verkalýðsfélög muni ekki setja þetta efst á sinn óskalista þegar farið verður í að endurskoða vinnulöggjöfina.