28.03.1984
Efri deild: 70. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4227 í B-deild Alþingistíðinda. (3601)

18. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Virðulegi forseti. Mál það sem hér er til umr. er vissulega þannig vaxið að það verðskuldar umr. og athugun sem raunar hefur líka farið fram í hv. nefnd, en þar á ég einmitt sæti. Ég skal svo ekki hafa mjög langt mál um þetta efni en vildi aðeins koma því á framfæri að ég lít ekki svo á að álitsgerðir ASÍ og fleiri, sem bárust nefndinni, séu þannig vaxnar að þessir aðilar geti ekki hugsað sér að eitthvað í líkingu við það sem hér um ræðir gæti komið inn í heildarendurskoðun, allsherjarendurskoðun gömlu vinnulöggjafarinnar. Ég býst við að öll atriði yrðu þar til skoðunar og þá einnig þetta.

Það er rétt sem hv. síðasti ræðumaður sagði að í nefndinni var gerð um það till. — kannske kom hún frá mér — að málinu yrði vísað til ríkisstj. og þá með ábendingu um að þörf væri á því að huga nú að endurskoðun vinnulöggjafarinnar frá 1938. En tillögumaður taldi, eins og hann sagði, alveg eins gott að frv. yrði þá hreinlega fellt. En með því að greiða atkv. gegn þessu frv. er ég ekki frekar en hv. frsm. meiri hl. n. að lýsa því yfir að þessi hugmynd sé óalandi og óferjandi. Þvert á móti verður þessi hugmynd skoðuð eins og aðrar ef og þegar endurskoðun vinnulöggjafarinnar fer fram.

Við vitum raunar að um langt skeið hafa verið gerðar tilraunir til þess að endurskoða vinnulöggjöfina frá 1938. Ekki hefur tekist neitt samkomulag um það fram að þessu. Það bendir óneitanlega til þess að hér sé um merka löggjöf að ræða, eins og hv. 9. þm. Reykv. gat um, en ég tel hana vera mjög merka löggjöf.

Ég hef aldrei verið þeirrar skoðunar að mjög ströng vinnulöggjöf — eins og það er kallað þegar jafnvel er verið að tala um að þrengja rétt manna til verkfalla sem er auðvitað óyndisúrræði — mundi endilega bera tilætlaðan árangur. Ég held að í lýðfrjálsu landi verði að vera þarna ákveðið svigrúm og það verði að vera ákveðin ábyrgð lögð á þá sem ráða ferðinni á vinnumarkaði. Ég held að hún eigi að vera það rík að menn geti farið í verkföll, en taka þá líka afleiðingum þeirrar ákvörðunar á þann veg sem þessi gamla löggjöf gerir ráð fyrir. Ég hef ekki trú á því m. ö. o. að svokölluð ströng vinnulöggjöf sé eða yrði heilladrjúg á okkar landi, enda mundi ekki nást neitt samkomulag um slíka löggjöf.

En allt er breytingunum undirorpið og atvinnulífið hér á landi hefur breyst geysilega á nærri hálfri öld. Þess vegna liggur í augum uppi að margt gæti betur farið í þessari löggjöf. Þar með er ekki sagt að hún þyrfti endilega að verða ítarlegri og lengri en löggjöfin er nú, en umfram allt yrði að nást um hana allvíðtækt samstarf.

Þó að við höfum lifað í verðbólguþróun, sem m. a. hefur stundum orsakast af of miklum kauphækkunum þá er það nú svo þegar litið er yfir söguna að mjög alvarleg átök milli vinnuveitenda og verkalýðs eða verkalýðs og annarra borgara hafa sjaldan orðið á Íslandi og engin mjög alvarleg síðan árið 1955 sem mig minnir að langa, harða verkfallið hafi verið. Það ástand sem þá var mundi enginn vilja kalla yfir sig árlega eða á fárra ára fresti, þegar liggur við upplausn í þjóðfélaginu vegna harðvítugra átaka sem líka leiða til lögbrota jafnvel innan ramma þessarar gömlu löggjafar og mundu verða enn þá frekari lögbrot ef lögin væru mjög harkaleg. Þegar menn byrja að brjóta ein lög er hægara um vik að brjóta önnur og þeir sem brotið er á finnst þá kannske líka að þeir geti brotið einhver önnur lagafyrirmæli. Ég held því að fara þurfi með gát í þessi mál öllsömul.

En tilgangur minn hér í ræðustól var að lýsa þeirri skoðun minni að ekkert liggi fyrir um það að þeir sem sendu umsagnir til nefndarinnar geti ekki hugsað sér að meðal annarra nýmæla í endurskoðaðri vinnulöggjöf gætu komið ákvæði eitthvað á þann veg að starfsmenn í ákveðnum fyrirtækjum væru saman í verkalýðsfélagi. A. m. k. held ég að svo til allir og kannske allir séu ósammála því ákvæði eða þeim skilningi gömlu vinnulöggjafarinnar að a. m. k. einn eða tveir menn í 100 manna hópi getið stöðvað atvinnuveg eða atvinnufyrirtæki. Það er auðvitað fráleitt. Í slíkum tilfellum verður auðvitað að koma til einhvers konar gerðardómur eða einhvers konar annars lags sáttaumleitanir en þær sem byggðar eru á verkfalli eða verkfallshótunum.

Inn í þetta mál gætu komið umr. um það með hvaða hætti bæta mætti hag starfsmanna fyrirtækja öðrum en þeim að hækka laun. Það hefur raunar verið til umr. hér í áratugi. Ég man eftir því að á 4. og 5. áratugnum voru mjög mikið rætt á Alþingi um möguleika á svonefndu arðskipti- og hlutdeildarfyrirkomulagi. Núna er vonandi verið að lögfesta starfsmannasjóði sem gætu veitt starfsmönnum fyrirtækja aðild að hugsanlegum hagnaði fyrirtækjanna og bætt þeirra stöðu. Þó að sumir hér í þingi séu á móti öðrum ákvæðum í þeim lögum hygg ég að enginn geti verið á móti þeirri tilraun sem þar er bryddað á þó að ég telji raunar að almenningshlutafélög, þ. e. mjög almenn eign manna í fyrirtækjum almennt hér á landi, ekki einungis því félagi sem viðkomandi vinnur hjá þá og þá stundina og jafnvel ekki þó að það sé lífsstarf hans, heldur gætu menn átt hluti alveg eins í öðrum félögum og þá dreift sinni áhættu. Ég tel að það sé kannske enn þá heppilegra, en starfsmannasjóðirnir geta'auðvitað líka komið þarna að notum.