28.03.1984
Efri deild: 70. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4228 í B-deild Alþingistíðinda. (3602)

18. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Ég sagði örfá orð um þetta frv. við 1. umr. málsins og lýsti þar yfir vissum efasemdum um að slíkt atriði sem þetta ætti að taka út úr eitt sér varðandi vinnulöggjöfina. Ég minnti á að á sínum tíma markaði vinnulöggjöfin stórt spor í réttindabaráttu launþega í landinu og gerði þeim auðveldara að ná rétti sínum. Ég hygg að meginatriði þess gildi enn þann dag í dag þrátt fyrir breytta tíma. Hér er komið inn á aðeins eitt atriði, en það er að vísu grunnatriði í þessum málum, hver skuli grunneiningin varðandi samninga aðila á vinnumarkaði. Heimild er þetta að vísu og möguleikarnir áfram jafnir með hin hefðbundnu verkalýðsfélög eins og þau eru í dag eða ákveðna vinnustaðahópa eða vinnustaðafélög. Ég veit að þetta hefur verið mjög til umr. áður innan launþegahreyfingarinnar og þar farið fram mikil skoðanaskipti um það hvert heppilegasta formið væri til að ná verulegum árangri. Ég hygg að niðurstaðan hafi þó orðið sú innan launþegahreyfingarinnar almennt að a. m. k. yrði að athuga vel sinn gang áður en menn stigju út á þessa braut.

Ég tek hins vegar undir það að launþegasamtökin sjálf eiga að verða að taka á þessum málum. Þeir aðilar sem fást við samninga eiga að taka á þessum mátum, ekki loka öllum dyrum á það að breytingar geti orðið, en heldur ekki opna upp á gátt og á þann máta, að menn sjái kannske ekki alveg fyrir hvaða afleiðingar þetta geti haft varðandi einstaka vinnustaði og einstök verkalýðsfélög.

Ég lýsti því yfir við 1. umr. að ég óttaðist að þetta gæti leitt til glundroða. Ég er enn sama sinnis. Ég óttast að samtakamátturinn, sem ekki mun af veita að sé nýttur til fullnustu og vera þarf á hverjum tíma og vera þyrfti kannske enn meiri en hann er jafnvel í dag, veiktist með þessum hætti. Ég get því stutt afstöðu þá sem kemur fram í meirihlutaáliti hv. allshn., en ég geri það í trausti þess að launþegahreyfingarnar taki þessi mál upp í ljósi breyttra aðstæðna og nýrra tíma með opnum huga, með það þó að meginmarkmiði að endurskoðuð löggjöf, sem nokkur eining gæti tekist um, mun í engu skerða afl og möguleika fjöldahreyfinganna til að ná sem fyllstum árangri fyrir sína umbjóðendur og tryggi það jafnvel enn betur en nú að frekari launajöfnuði verði náð en reynst hefur unnt til þessa.

Ég kem inn á það mál sérstaklega, þá margrómuðu launa- og kjarajöfnun sem allir vilja í orði kveðnu fylgja og ég veit að allir vilja í raun og veru stefna að en vissulega hefur orðið misbrestur á, vegna þess að ég efa það mjög að þetta fyrirkomulag gæfi betri raun í þeim efnum en jafnvel er staðreyndin í dag. Reyndar kom það fram í máli hv. 1. flm. að einn megintilgangur þessa frv. væri e. t. v. sá, að ákveðnir hópar, betur settir við betri aðstæður hjá betur settum fyrirtækjum, gætu náð betri samningum, gætu öðlast betri kjör. Ekki skal ég hafa á móti því að menn geti þannig náð betri aðstöðu, betri kjörum. En afleiðingin gæti þá alveg jafnt orðið hin, sem ég óttast, að aðrir sætu þeim mun verr eftir, við enn lakari aðstæður, hjá þeim fyrirtækjum sem bæru sig enn verr og hefðu kannske sannanlega að sama skapi minni möguleika á því að launa sitt starfsfólk vel og þau fyrirtæki sem hv. 1. flm. talaði um að gætu sannanlega f dag greitt betri laun.

Ég held nefnilega að það hafi aldrei komið betur í ljós en einmitt nú á síðustu vikum og dögum jafnvel hverju eindreginn samtakamáttur ákveðinna verkalýðsfélaga getur áorkað í baráttu þeirra að ná fram betri kjörum fyrir sína umbjóðendur.