01.11.1983
Sameinað þing: 12. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 492 í B-deild Alþingistíðinda. (361)

33. mál, könnun á kostnaði við einsetningu skóla

Flm. (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að leggja fram þáltill. þá sem hér liggur fyrir á þskj. nr. 33 og er 33. mál þingsins, ásamt hv. þm. Svavari Gestssyni, Kolbrúnu Jónsdóttur, Karli Steinari Guðnasyni, Jóhönnu Sigurðardóttur og Sigríði Dúnu Kristmundsdóttur. Till. hljóðar svo með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að hlutast til um að fyrir næsta skólaár verði komið á einsetningu í grunnskólum og samfelldum skóladegi þar sem húsnæði og aðrar aðstæður leyfa.

Alþingi ályktar jafnframt að beina því til ríkisstj. að hún beiti sér fyrir könnun á þeim kostnaðarauka sem hlytist af því að komið yrði á samfelldum skóladegi hjá grunnskólanemum. Í könnuninni skal miða við:

1) Að komið verði á einsetningu í skólum og samfelldum skóladegi.

2) Að nemendur eigi kost á máltíðum í skólum.

3) Að kannaður verði sá sparnaður sem hljótast kann af minnkandi þörf fyrir skóladagheimili og skólaathvarf með tilkomu samfellds skóladags, sem og aðrir sparnaðarþættir.

Ríkisstj. skal leggja niðurstöður fyrir næsta löggjafarþing jafnframt tillögu að áætlun um hvernig ná megi einsetningu í skólum og samfelldum skóladegi.“

Með grg. fyrir till. fylgir yfirlit yfir samþykktir kennaraþinga um samfelldan skóladag frá árunum 1972–1980.

Um langt árabil hafa samtök foreldra og kennara barist fyrir samfelldum skóladegi barna, einsetningu skóla og máltíðum í skólanum. Öll þjóðfélagsþróun hefur orðið á þann veg að þessar kröfur verða æ háværari. Foreldrar vinna nú í flestum tilvikum báðir utan heimilis og talið er sjálfsagt að vinnutími þeirra sé samfelldur þar til heim er komið. Skólatími barnanna hefur hins vegar ekki breyst til samræmis við vinnutíma annarra í fjölskyldunni, og algengt er að 4–5 tíma skólavist taki 7–8 stundir með hlaupum heim á milli eða bið í skólanum sem að sjálfsögðu veldur örðugleikum innan skólans. Og ekki síst er það börnunum sjálfum erfitt að fá ekki að vinna eðlilegan og samfelldan starfstíma þangað til þau hafa lokið vinnu hvers dags. Þekkja flestir foreldrar þær áhyggjur sem því fylgja að enginn er heima til að sjá um að börnin fari á réttum tíma í hina ýmsu kennslutíma, að þau fái ekki reglulegar máltíðir og að þau séu á ferðinni seint á dalinn í umferðinni þegar vetrarmyrkrið er mest.

Í nútímaþjóðfélagi er skólakerfið sívaxandi þáttur í lífi barna og unglinga og segir sig sjálft að með því er lögð undirstaða að lífi og starfi þess fólks sem þar er að vaxa upp. Þarf tæplega að tíunda hér á hinu háa Alþingi hversu mikilvægt er að þetta starf takist sem best, hvort sem menn bera hag og hamingju þessa fólks fyrir brjósti eða skoða þessi mál frá hreinu hagfræðilegu sjónarmiði. sérhvert þjóðfélag er jafngott eða jafnslæmt og þeir einstaklingar sem það byggja hverju sinni og það er því til lítils sóma að þeir sem annast þetta starf, kennarar landsins, eru bæði illa launaðir og búa við erfið starfsskilyrði. Mætti það vera okkur alþm. nokkurt íhugunarefni.

Í nágrannalöndum okkar eru einsettir skólar taldir sjálfsögð nauðsyn farsæls skólastarfs, en hér á landi eru þeir nær undantekning. Hér er gjarnan farið að tala um að leggja skóla niður eða sameina skólastofnanir ef svo fækkar í skólahverfi að einsetning er framkvæmanleg. Það er þó ljóst að mikil nauðsyn er á vistun yngstu barnanna að skólatíma loknum og þess vegna verður krafan um skóladagheimili æ sterkari. Það er tvímælalaust kominn tími til að líta á þetta tvennt í samhengi því að hversu æskilegur sem mikill fjöldi skóladagheimila kynni að vera er sú lausn án alls vafa ofviða okkur fjárhagslega ef fullnægja á þörfinni fyrir öryggi barnanna heilan vinnudag.

Margar glæsilegar skólabyggingar hafa risið á síðustu áratugum, en verulega skortir á að þeim sé lokið á viðunandi hátt með það markmið í huga að allt starf skólans geti farið þar fram. Nægir að nefna skólahús án aðstöðu til íþróttaiðkana, handmenntakennslu, tómstundastarfs o.fl. Og oft eru sundstaðir í órafjarlægð frá skólanum. Virðist stundum meira lagt upp úr þarflausum íburði en nauðsynlegri aðstöðu og námsgögnum. Þessu verðum við að breyta. Það er óþolandi að heilu kynslóðirnar vaxi upp í hálfbyggðum skólahúsum sem aldrei veittu nemendum þá aðstöðu sem alls staðar í nágrannalöndum okkar er talin sjálfsögð.

Sérstök ástæða er til þess að geta þess að fyrir þá foreldra, sem annast uppeldi barna sinna einir, er samfelldur skólatími og skólamáltíð fyrir börnin enn brýnni nauðsyn. Þau börn eru nú um sex þúsund talsins í landinu svo að hér er um að ræða stóran hóp. Einstætt foreldri á engra annarra kosta völ en að vinna allan daginn og oft rúmlega það, og vafalítið er að börn einstæðra foreldra búa þar af leiðandi við ósæmileg kjör í þessu landi. Það er sjálfsagt langt í land þar til sú hugarfarsbreyting á sér stað að báðir foreldrar taki á sig ábyrgð á uppeldi barna þó að þeir kjósi að búa ekki saman, þó að svo ætti vissulega að vera. En venjulega ber það foreldrið, þá langoftast mæðurnar, nær alla ábyrgð á uppeldi barnsins og umönnun þess og því verður skólinn að geta komið þar til hjálpar.

Það er engum til hróss sem skólamálum stýra að komið hefur í ljós við rannsóknir að skólabörn í Reykjavík búa í allt of miklum mæli við lélega næringu, í svo miklum mæli að það er talið koma niður á námsgetu barnanna. Sjoppufæði og sælgætiskaup koma í stað næringarríkrar fæðu í mörgum tilvikum. Hér í Reykjavík hefur vissulega verið reynt að bæta úr þessu en reynslan verið misjöfn. Kemur þar margt til. Skólahúsin eru ekki hönnuð fyrir matardreifingu, óljóst hverjir eigi að annast hana og e.t.v. skortir á um áhuga foreldra. Það er því alveg ljóst að á þessum málum verður að taka af mikilli festu á næstu árum. Skólamönnum er ljóst að skólinn er ekki eingöngu til þess ættaður að troða í nemendur ákveðnu magni af staðreyndum. Í erindi sem Kári Arnórsson skólastjóri flutti á ráðstefnu Kvenréttindafélags Íslands fyrir nokkru segir hann svo með leyfi forseta:

„Það skólaform, sem við höfum lengst af notað, er hugsað og skipulagt fyrir fullorðna. Skipulagið færist síðan frá framhaldsskólanum niður í gagnfræðaskólann gamla og svo þaðan niður í barnaskólann. Það er um grundvallarmun að ræða hvort skóli er skipulagður sem framhald þess sem á undan er gengið eða hvort skipulagið kemur að ofan vegna þess sem eftir á að koma. Skólann þarf að skipuleggja miðað við þarfir barnanna frá því þau hefja skólagöngu og áfram upp. Börnum er eðlilegt að fá samfelldan starfstíma við verk sem þau hafa áhuga á. Þó að eðlilegar hvíldir séu nauðsynlegar þá hljóta þær í fyrsta lagi að verða breytilegar hjá einstaklingum og í öðru lagi mega þær ekki tæta sundur starfstímann. Fullorðnum þykir nógu slæmt þegar vinnutími þeirra er sundur slitinn, hvað þá börnum sem ekki hafa jafnmikla getu til að skipuleggja sinn tíma. Sú stranga námsgreinaskipting sem ríki hefur í skólum á Íslandi hefur tilhneigingu til að drepa niður áhuga og forvitni sem er undirstaða fyrir náminu. Þessi mikla skipting hefur líka tilhneigingu til að hindra að nemendur skilji þau sameiginlegu undirstöðuatriði sem gilda við lausn hinna ýmsu vandamála. Það er enn svo í flestum þéttbýlisskólum að nemendur verða að koma oftar en einu sinni í skólann þó hádegishlé sé ekki talið með. Vissar greinar í kennslunni hafa minna vægi en aðrar,“ — og ég bið hv. þm. að taka eftir þessu — „sem sýnir sig best í því að þær ganga undir nafninu aukagreinar. Hér er um að ræða listgreinarnar, þ.e. myndmennt og tónmennt, einnig líkamsþjálfunina. Þessum greinum er iðulega raðað þannig á stundaskrá að þær standa einar sér og ekki nema í óbeinum tengslum við bóklegar greinar. Þetta er m.a. afleiðing af því að skipulagið er komið ofan frá og hefur verið þrýst niður. Alvarlegast í þessu er þó það, að með þessu fyrirkomulagi er í raun ekki verið að hugsa um alhliða þroska einstaklingsins. Menntun er bundin nemandanum sem einstaklingi með ákveðnar meðfæddar tilhneigingar, möguleika og einkenni. Menntun hans er líka bundin við hann sem félagsveru sem hefur réttindi, skyldur og ábyrgð. Því ber okkur að veita alhliða þroska hans alla athygli, líkamlegum og andlegum vexti, tilfinningum hans, viðmóti og samskiptum, lunderni og persónuleika. Skólinn þarf því að vera skipulagður með þetta í huga. Nemandinn á fullan rétt á því að fá samfelldan starfstíma. Allar greinar sem snerta alhliða þroska hans eiga að hafa sama rétt.“

Ég tel að hér sé betur að orði komist en ég mundi gera og ég held að Kári Arnórsson hafi þarna sagt það sem máli skiptir.

Herra forseti. Mér er fullljóst, svo og öðrum flm. þessarar till., að einhver kann að benda á að núv. menntmrh. hefur nýlega skipað nefnd á vegum ráðuneytis síns til þess að kanna hvernig auka megi tengsl fjölskyldu og skóla sem er vissulega tengt þessu máli. Hæstv. forseti Ed., Salome Þorkelsdóttir er form. þeirrar nefndar. En þá ætti ekki að vera minni ástæða til að styrkja störf þeirrar nefndar með samþykktri viljayfirlýsingu hins háa Alþingis um að á þessum málum barna og fjölskyldna verði tekið af alvöru. Hér kann auðvitað að verða um umtalsverðan kostnað að ræða. En þeim fjármunum, sem fara til úrbóta í málefnum barna þessa lands, er vel varið. Ég vil minna hv. þm. á að á árinu 1984 verður varið 390 millj. kr. í afborganir og vexti af Kröfluvirkjun og hefði verið hægt að nota þá fjármuni til þarfari mála. Ég er alveg sammála hæstv. fjmrh. þessarar þjóðar, sem sagði hér fyrir nokkrum klst. eitthvað á þessa leið: Það er ekki fjárskortur sem angrar okkur, þessa eina af tíu ríkustu þjóðum heims, heldur ill meðferð á fjármunum. Þar erum við þó sammála ég og hæstv. fjmrh., Albert Guðmundsson.

Við skulum reyna að forðast slík mistök í framtíðinni en snúa okkur að því sem raunverulegt gildi hefur fyrir fólkið í þessu landi, fólkið sem framleiðir þessa fjármuni sem við höfum hingað til farið svo illa með.

Ég hef þessi orð ekki fleiri að sinni, herra forseti, en legg til að.þáltill. þeirri sem ég hef hér mælt fyrir verði vísað til hv. allshn. Sþ.