01.11.1983
Sameinað þing: 12. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 498 í B-deild Alþingistíðinda. (363)

33. mál, könnun á kostnaði við einsetningu skóla

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Herra forseti. Mig langar til að benda á tvö atriði til stuðnings við þessa þáltill. sem ekki hafa komið fram í máli ræðumanna.

Annars vegar langar mig til að benda á þá gífurlegu slysahættu sem steðjar að börnum sem þurfa, þegar skóladagur er sundurslitinn, oft og tíðum að fara yfir hættulegar umferðargötur oft á dag. Þetta er vitaskuld ekki forsvaranlegt og ég tel að með því að vinnutími barna í skólum verði samfelldur þá megi draga mjög úr þeirri hættu sem börnum stafar af umferðinni.

Hins vegar langar mig til þess að benda á að það fyrirkomulag, sem hér er verið að mæla með í skólastarfi, gæti komið til með að leysa mörg innri vandamál í starfi skóla. Nú er það þannig að kennarar í grunnskólum hér á landi eru langflestir konur. Þær eru margar í hlutastarfi og eins þurfa þær að vinna sundurslitinn vinnudag vegna þess að þær þurfa að fara heim til þess að taka á móti börnum sínum úr skóla og þá úr sundurslitnum skóladegi. Þær þurfa að vera heima á öllum mögulegum og ómögulegum tímum til þess að taka á móti sínum eigin börnum. Hefðu þeirra börn samfelldan vinnutíma gætu mæðurnar, sem kenna, einnig haft samfelldan vinnutíma þannig að hér er, held ég, um stórt mál að ræða hvað varðar hagræðingu í skólastarfi og mundi leysa eitt af mörgum vandamálum í innra starfi skóla.

Ég vil taka undir það sem hv. þm. Salome Þorkelsdóttir sagði hérna áðan. Ég hef átt sæti í forföllum Guðrúnar Agnarsdóttur í þessari skólanefnd sem hefur starfað undanfarnar vikur og mánuði og þar hefur samstarf verið með afbrigðum gott.

Það er ljóst að sú till., sem hér er lögð fram, miðast við að kanna hvernig við getum búið betur að börnum í skólastarfi og það er jafnframt ljóst að samfelldur skóladagur kemur að öllum líkindum til með að kosta töluvert í peningum en ég vil minna á að hér er um að ræða fjárfestingu í aðbúnaði barna og þar af leiðandi fjárfestingu í framtíðinni sem mun skila ómetanlegum arði að sínu leyti þegar fram líða stundir.