28.03.1984
Neðri deild: 67. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4246 í B-deild Alþingistíðinda. (3631)

200. mál, ríkisábyrgð á launum

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð við þessa fyrstu umr. Ég vil mjög taka undir það sem síðasti hv. ræðumaður kom inn á og ég tel alveg nauðsynlegt að bæði lífeyrissjóðsiðgjöld og sjúkra- og orlofssjóðsiðgjöld komi inn þarna á sama hátt og önnur laun. Einnig tek ég undir það í sambandi við orlofsgreiðslurnar að þar þarf að taka af öll tvímæli í sambandi við Póstgíróstofuna, en ég vil bæta því við að ég vildi gjarnan heyra viðhorf hæstv. félmrh. til þess. Alþýðusamband Vestfjarða, vinnuveitendur á Vestfjörðum og peningastofnanir þar gerðu t. d. með sér samkomulag um inngreiðslu og ávöxtun orlofsfjár á því svæði árið 1982 og það samkomulag er í fullu gildi enn. Þannig fara inngreiðslur orlofsfjár af því svæði ekki til Póstgíróstofu. Þær eru ávaxtaðar skv. sérstöku samkomulagi á heimaslóð við peningastofnanir á viðkomandi svæðum og er — að því ég best veit og hef ég fyrir mér lögfræðiálit um það efni — það samkomulag í fullu samræmi við gildandi lög og reglur um greiðslu orlofsfjár og ávöxtun þess.

Þær greiðslur njóta hins vegar ekki ríkisábyrgðar sem borgaðar eru inn sem orlofsfjárgreiðslur í peningastofnunum á Vestfjörðum. Ég veit ekki betur en að komið hafi verið á framfæri við endurskoðunarnefndina þeirri ósk ASÍ að þetta yrði tekið inn líka. Ég vildi spyrja hæstv. félmrh. um það hvort slík ósk hefur ekki komið frá ASÍ um að ríkisábyrgð á orlofsfé nái líka til staða eins og Vestfjarða sem gert hafa sérstakt samkomulag af þessu tagi. Ég tel a. m. k. að ekki verði vikist undan því að sömu reglur gildi um það fjármagn sem borgað er inn með samkomulagi sem gert var á Vestfjörðum og er í fullu samræmi við lög og reglugerð um orlofsgreiðslur og ávöxtun þess fjár og ekkert verði undan því vikist að ríkisábyrgð taki alveg ótvírætt til þess líka. Án þess að ég ætli að vera með neinar málalengingar hér um vildi ég gjarnan heyra hvort hæstv. félmrh. er ekki sammála mér í því að slíkt þurfi að gerast. Verði það ekki tekið til greina — en ég vænti þess að sú nefnd, sem málið fær til umfjöllunar, skoði það gaumgæfilega og komist að þeirri niðurstöðu að þetta sé svo sjálfsagt mál sem verða má — hljóta að verða fluttar um það brtt. við afgreiðslu þessa máls á síðari stigum. En ég ítreka það að ég tek mjög undir það að þetta þarf líka að ná til greiðslna í lífeyrissjóði og sjúkra- og orlofssjóði stéttarfélaga. Og enda þótt orlofsfé sé ekki borgað inn í póstgírókerfi er nauðsynlegt að skipan mála verði þar á sama hátt og verið hefur í sambandi við póstgírógreiðslurnar. Ég tek hins vegar undir það líka með hv. þm. Svavari Gestssyni að taka þarf af tvímæli og ganga betur frá þeim þætti sem að Póstgíróstofunni snýr.