28.03.1984
Neðri deild: 67. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4247 í B-deild Alþingistíðinda. (3632)

200. mál, ríkisábyrgð á launum

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir áhuga þeirra á þessu máli. Þetta er mál sem þarf að leysa í góðu samkomulagi. Hér er um að ræða mikilvægt réttindamál sem ég vona að sem flestir skilji að væri nauðsyn að ná fram án mikils ágreinings. Ég vil segja það í upphafi í sambandi við ræðu hv. 3. þm. Reykv. að eins og fram kom í minni framsögu hef ég tiltölulega litlu breytt frá því sem sú nefnd sem skipuð var 1981 hafði lagt til. Það var aðeins um að ræða fínpússningu á frv. sem gerð var áður en það var lagt fram nú.

Hlutverk þeirrar nefndar var að endurskoða lög um ríkisábyrgð á launum og að semja frv. sem leiða mundi til greiðari og öruggari meðferðar á kröfugreiðslum skv. lögunum og tæki af vafa um umfang ríkisábyrgðarinnar. Þetta var meginefnið. Nefndinni var ekki ætlað að gera efnislegar breytingar á umfangi ríkisábyrgðarinnar, hvorki til rýmkunar né þrengingar. Það er ekki heldur gert í þessu frv. nema að því er varðar orlofsfé í þeim tilfellum sem Póstgíróstofan hefur lagt það út.

Í sambandi við það mál vil ég vegna fsp. hv. 3. þm. Vestf. segja að ég hef ekki fengið í mínar hendur sérstakt bréf frá ASI um þetta mál. Hins vegar fól ég sérstakri nefnd, sem er að störfum, að gera ítarlega úttekt á þessu ákvæði í sambandi við orlofslögin, hvort ætti að víkka þau þannig út að hinar ýmsu viðurkenndu peningastofnanir gætu tekið við þessu hlutverki hver á sínu svæði. Þessi nefnd er nú á lokastigi síns starfs og ég á von á því að núna næstu daga fái ég álit hennar um meðferð þessa máls. Þess vegna sé ég ekki ástæðu til að ræða það sérstaklega nú, það verður að koma í ljós hvernig niðurstaðan verður í þeirri athugun. Þetta var mikil vinna og nefndin hefur lagt sig fram um að reyna að fá nægjanlega glöggar heimildir fyrir því hvernig væri hægt að framkvæma þetta miðað við það sem þegar liggur fyrir og miðað við gildandi lög.

Það er alveg rétt að vafi þótti leika á því hvort iðgjöld til lífeyrissjóða nytu ríkisábyrgðar. En 29. okt. 1981 var úr því skorið með úrskurði Skiptaréttar Reykjavíkur í málinu Lífeyrissjóður byggingarmanna gegn félmrh. Niðurstaða þess máls var sú að ríkisábyrgð næði ekki til iðgjalda til lífeyrissjóðsins, hvorki iðgjaldahluta launþega né atvinnurekanda. Af hálfu lífeyrissjóðsins var úrskurðurinn ekki kærður til Hæstaréttar og verð ég að segja það sem mína skoðun að það var mjög slæmt því að auðvitað þarf að fá hæstaréttarúrskurð í sem flestum greinum um svona mikilvæg mál svo að það liggi fyrir sem staðreynd og verði hægt að miða breytingu laga í samræmi við það. Skv. meginreglum laganna er því rn. bundið af framangreindri dómsúrlausn. Það er því ekki rétt sem segir í þeirri, gagnrýni sem aðeins hefur komið fram frá Sambandi ísl. lífeyrissjóða að frv., sem hér liggur fyrir, þrengi ríkisábyrgð á iðgjöldum til lífeyrissjóða miðað við núgildandi lagaákvæði.

Ég vil segja að öðru leyti í sambandi við þá gagnrýni sem hér hefur komið fram eða ábendingar að ég tel að þetta þurfi að ræða vel og vandlega í hv. n. og mikilvægt að hv. þm. átti sig á því hvort ástæða er til að ganga lengra en hér er gert. En ég vil endurtaka: Þetta var eingöngu endurskoðun sem miðar að því að gera málið greiðara og öruggara í meðferð á kröfum um þessi mál.

Ég held að ég hafi ekki meira um þetta að segja. En ég hef áhuga á því að þetta mál fái góða þinglega meðferð og athugað verði vel og vandlega hvort ganga á lengra en hér er lagt til.