28.03.1984
Neðri deild: 67. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4260 í B-deild Alþingistíðinda. (3639)

226. mál, birting laga og stjórnvaldaerinda

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Frv. það til 1. um breytingu á lögum um birtingu laga og stjórnvaldaerinda, sem hér er lagt fyrir hv. Nd., fjallar um birtingarháttu staðbundinna gjaldskráa. Það er meginregla að birtar skuli í B-deild Stjórnartíðinda reglugerðir, auglýsingar og samþykktir, sem gefnar eru út eða staðfestar af ráðh., svo og annað efni sem frá rn. kemur og almenna þýðingu hefur. Tilgangurinn með lagabreytingu þeirri sem hér er lögð til er að gera nokkra breytingu á birtingarháttum opinberra gjaldskráa sem ráðh. staðfestir. Slíkar gjaldskrár eru einkum gjaldskrár rafveitna, hafna og hitaveitna. Gjaldskrár þessar eru samdar af viðkomandi stofnunum en til að hljóta endanlegt gildi þurfa þær að fá staðfestingu viðkomandi ráðh. og síðan birtingu í B-deild Stjórnartíðina eins og aðrar reglur sem ráðh. setur.

Á undanförnum árum hefur gjaldskrám þessum verið breytt fjórum sinnum á ári og hafa þær tekið mjög mikið rými í Stjórnartíðindum. Einnig hefur þeim stofnunum fjölgað mikið sem slíkar gjaldskrár setja. Þannig eru t. d. birtar í Stjórnartíðindahefti því sem út kom 23. febr. s. l. gjaldskrár 55 hafna á 66 bls. Af efni B-deildarinnar 1981 voru 34% vegna gjaldskráa eða 517 bls. og 1982 var þetta efni 24% af heildarefni Stjórnartíðinda eða 560 síður af 2280.

Hér er lagt til að það teljist nægjanleg birting á þessum gjaldskrám að auglýst sé í B-deildinni hvenær gjaldskráin hefur verið gefin út eða staðfest og hvar hún liggi frammi almenningi til sýnis. Gjaldskrár þær, sem hafa gildi fyrir landið allt, verði áfram birtar í heild.

Telja verður að allverulegur sparnaður felist í þessari breytingu. Prentunarkostnaður Stjórnartíðinda er á þessu ári áætlaður verða um 4 millj. kr. og miðað við að 24% af efninu falli niður verður sparnaður í prentunarkostnaði um 960 þús. kr.

Við undirbúning frv. þessa var leitað álits þeirra aðila, sem breyting þessi snertir helst, þ. e. Sambands ísl. sveitarfélag, Sambands ísl. rafveitna og Hafnasambands sveitarfélaga, svo og nokkurra rn. Umsagnir mun sú nefnd fá sem fær frv. til meðferðar.

Önnur breyting á útgáfu B-deildarinnar hefur þegar verið gerð. Hafin er útgáfa á vegum iðnrn. á ritinu Vörumerkja- og einkaleyfatíðindi. Þar eru birtar tilkynningar um vörumerki og einkaleyfi sem hingað til hafa verið birtar í Lögbirtingablaðinu og síðan í lok hvers árs í B-deild Stjórnartíðinda. Þótt þessi breyting hafi ekki verulegan beinan sparnað í för með sér fyrir ríkið léttir hún verulega á B-deildinni því að þetta efni tók 170 síður í Stjórnartíðindum 1982. Þessi breyting og sú sem hér er lögð til ættu þannig að geta minnkað B-deildina um allt að 700 síður.

Þetta frv. hefur verið afgreitt frá Ed. og ég vænti þess að það fái einnig greiðan gang hér í gegnum hv. Nd. Ég vil leyfa mér að leggja til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. allshn.