28.03.1984
Neðri deild: 67. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4261 í B-deild Alþingistíðinda. (3643)

159. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Eins og rætt hafði verið um var gert ráð fyrir því á milli flokkanna í þinginu að þetta mál sem nú er á dagskrá yrði afgreitt á þessum sólarhring. Áður hafði verið rætt um að það yrði afgreitt á mánudaginn var, en það tókst ekki af ýmsum ástæðum þannig að það frestaðist fram á þennan sólarhring, þann 28. mars. Þá gerðist það fljótlega í Nd. í dag að hv. 1. þm. Suðurl. bað um frestun á þessu máli án þess að nein skýring væri á því gefin í þinginu. Það kom raunar ekki fram fyrr en ég gekk eftir því við hæstv. forseta hver hefði beðið um frestun á fundinum að það var hv. þm. Þorsteinn Pálsson.

Það kvisaðist síðan í húsinu að það stæðu yfir heiftarlegar deilur á milli stjórnarflokkanna um það hvort ætti að fara að breyta þessu frv. á síðustu stundu. Fram kom að Framsfl. vildi ekki breyta frv. en Sjálfstfl. vildi breyta því og búist var við því að það stæði í þæfingi á þingflokkafundum og að afkvæmi mundi fæðast um það leyti sem menn stigju til fundarhalda á ný um sexleytið.

Nú liggur fyrir á þskj. 513 þessi brtt. sem hæstv. fjmrh. flutti svokallaða framsöguræðu fyrir áðan. Ég segi „svokallaða“ vegna þess að hún skýrði ekki málið, hún er ekki nægileg. Þannig er ekki nægilega skýrt fyrir þinginu að mínu mati hvað hér er verið að gera till. um og þess vegna eðlilegt að málið fari aftur til n. Ég óska eftir því við hæstv. forseta, svo og við hv. þm. Pál Pétursson, form. fjh.- og viðskn. Nd., að deildin eða n. fái að fjalla um þetta mál á ný vegna þess að nú er málið komið með alveg nýja vendingu og nýja stöðu og því útilokað að afgreiða það á þessum sólarhring. Stjórnarliðið hefur séð fyrir því með fumi, fálmi og káki. Þó að þeir stjórnarliðar með Þorstein Pálsson hv. þm. í broddi fylkingar hafi rekið á eftir þessu máli sólarhring eftir sólarhring, beðið stjórnarandstöðuna um að sitja á kvöldfundum til að nudda þessu áleiðis er þannig haldið á málum að á síðustu stundu er hlaupið til með þessa brtt. inn í þingið. Þetta er svo sem eftir öðru hjá þessu stjórnarliði í vetur, það veit ekki sitt rjúkandi ráð, sbr. frv. um tekju- og eignarskatt sem við vorum að afgreiða nýlega. Um það þurfti sjö umr. þar sem rokkað var fram og aftur með álagningarprósentur á milli deilda, milli umr. og milli flokka. sama er að segja t. d. um lánsfjárlagafrv.

Stjórn Sjálfstfl. og Framsfl. á þessum þingmálum er fyrir neðan allar hellur. Það er með endemum hvernig að málunum er staðið. Hérna geta þeir ekki einu sinni sjálfir staðið við þá samninga við stjórnarandstöðuna sem þeir eru sjálfir að reyna að knýja fram. Þeir hrökkva frá þegar það liggur fyrir að meiningin er að fara að framkvæma þessa samninga.

Ég vil láta það koma fram af minni hálfu í fyrsta lagi að ég óska eftir því að málið fari aftur til n. og í öðru lagi að ekkert samkomulag hefur verið gert við stjórnarandstöðuna um að haldinn verði kvöldfundur í kvöld. Ég bendi á að formaður Alþfl., sem er aðaltalsmaður Alþfl. í þeim málum sem nú eru á dagskrá, er ekki á fundinum, hefur ekki séð þessa till. og ekki átt kost á því að fjalla um hana, né heldur form. þingflokks BJ sem á sæti í fjh.- og viðskn. Nd. Þannig er útilokað fyrir stjórnarliðið að ætla sér að þræla þessu máli í gegnum þingið á þessum sólarhring. Ég vænti þess að það geti komið fram undir minni ræðu hvaða afstöðu hæstv. forseti og stjórnarliðið tekur til þess hvort meiningin er að halda fundi áfram fram eftir kvöldi eða hvaða áform stjórnarliðið yfir höfuð hefur í þessu efni. Alla vega verður það að vera skýrt hvort ekki er á hreinu að þeir stjórnarliðar séu tilbúnir til að kalla saman fund í fjh.og viðskn. Ég vænti þess að hæstv. forseti geti meðan ég flyt mál mitt kannað þetta til hlítar og geti látið vita áður en lengra er haldið. (Forseti: Ég vil af þessu tilefni taka fram að ég mun láta kanna þetta og m. a. hafa tal af formanni fjh.- og viðskn.) Já, herra forseti.

Eitt af þeim málum sem rædd voru núna á mánudagskvöld var afstaða samvinnuhreyfingarinnar og Sambands ísl. samvinnufélaga, sérstaklega forstjóra þess, til þessa frv. Fram hafði komið að forstjóri SÍS, Erlendur Einarsson, gagnrýndi þetta frv. í Morgunblaðinu og taldi að verið væri að mismuna samvinnuhreyfingunni með því. Eða eins og hann komst að orði:

„Sýnist mér að Alþingi þurfi að huga gaumgæfilega að því hvort umræddar breytingar muni ekki ívilna hlutafélögum óeðlilega mikið í samanburði við önnur félagsform, þ. á m. samvinnufélög, verði frv. þessi að lögum.“

Þannig er greinilegt að forstjóri Sambands íslenskra samvinnufélaga hefur haft af þessum málum mjög verulegar áhyggjur. Þess vegna skoraði ég á formann fjh.- og viðskn. Nd. að kalla forstjóra Sambandsins til fundar og viðræðna við n. Það bætti svo við þessa mynd og þessar áhyggjur ýmissa samvinnumanna að leiðarahöfundur Tímans, Þórarinn Þórarinsson fyrrv. alþm., skrifaði grein í Tímann í dag, 28. mars 1984, þar sem fjallað er um þau tvö frv. sem nú eru á dagskrá. Niðurstaða Þórarins Þórarinssonar í þessum leiðara í dag er sú að vissulega beri að taka þetta til vandlegrar athugunar, þ. e. frv., áður en Alþingi gengur endanlega frá afgreiðslu umræddra frv.

Þannig er bersýnilegt að menn hafa verulegar áhyggjur af þessum frv. og því að hérna sé verið að veikja stöðu samvinnuhreyfingarinnar og samvinnufélaganna við hliðina á hlutafélögunum í landinu miðað við það sem verið hefur.

Ég taldi þess vegna nauðsynlegt að um þessi mál yrði rætt á hv. Alþingi og þess vegna var það sem forstjóra Sambands íslenskra samvinnufélaga var gefinn kostur á því að gera grein fyrir sínum sjónarmiðum í fjh.- og viðskn. Nd. í morgun. Það er skemmst frá því að segja að forstjóri Sambands íslenskra samvinnufélaga sá ekki ástæðu til að gera grein fyrir máli sínu í fjh.- og viðskn. heldur sendi hann sendimann sinn á vettvang sem vill svo til að var sami maður og Framsfl. hafði tilnefnt til að undirbúa þau frv. sem hér eru á dagskrá. Geir Geirsson endurskoðandi, trúi ég að maðurinn heiti. Þótti mér það mjög miður að forstjóri Sambandsins skyldi ekki sjá sér kleift að finna orðum sínum stað frammi fyrir fjh.- og viðskn. Nd. þegar honum þó var gefinn kostur á því sérstaklega og svo mikið haft við að í rauninni var kvaddur saman sérstakur fundur í fjh.- og viðskn. til þess að fjalla um þetta mál vegna þeirrar áhyggju sem hann lýsti í Morgunblaðinu á dögunum og Þórarinn Þórarinsson fyrrv. þm. tók undir í leiðara Tímans í dag.

Í viðtölum við Geir Geirsson endurskoðanda talaði hann aftur og aftur fyrir hönd þess sem hann kallaði samvinnuhreyfinguna. Hann sagði: „að dómi samvinnuhreyfingarinnar“, „samvinnuhreyfingin telur“, „samvinnuhreyfingin vill“, „samvinnuhreyfingin ætlar“, „samvinnuhreyfingin mun“, „samvinnuhreyfingin hyggst“. Ég tel að þetta sé í rauninni nokkuð sérkennilegur talsmáti vegna þess að á bak við álit Geirs Geirssonar eða Erlendar Einarssonar í þessu tilviki kannast ég ekki við að liggi fyrir samþykktir í samvinnufélögunum né heldur í stjórn Sambands íslenskra samvinnufélaga. Ég held að þess vegna sé ekki hægt að tala um eða gera ráð fyrir að samvinnuhreyfingin sem slík hafi t. d. á aðalfundi SÍS gert ályktun um að fylgja þeim skattalækkunarfrv. hlutafélaganna sem hér eru á ferðinni.

Fulltrúi Sambandsins sagði m. a. á fundinum í morgun að þær breytingar sem frv. gera ráð fyrir gætu orðið til þess að fjölga atvinnutækifærum og efla atvinnureksturinn. Hann sagði að samvinnuhreyfingin teldi hugmyndina góðra gjalda verða og líklega til að efla atvinnureksturinn. En síðan sagði hann: En þessi leið gagnar ekki samvinnufélögunum. Þess vegna verður að reyna að finna álíka leiðir fyrir samvinnufélögin um hliðstæðar skattaívilnanir þó að það sé ekki sjónarmið samvinnuhreyfingarinnar að þar eigi að gilda nákvæmlega sömu reglur. Hann gerði grein fyrir því í máli sínu að grein Erlendar Einarssonar væri ekki krafa um nákvæmlega sömu reglur handa samvinnufélögum og hlutafélögunum heldur bæri fyrst og fremst að líta á grein Erlendar sem andsvar við áróðri gegn samvinnuhreyfingunni sem komið hefði fram í Morgunblaðinu m. a. að undanförnu.

Þetta þótti mér athyglisvert. Þess vegna spurði ég þennan talsmann samvinnuhreyfingarinnar: Hvernig er hugsanlegt að ívilna samvinnufélögunum þannig að þau njóti hliðstæðra fríðinda og gert er ráð fyrir að hlutafélögin fái í þessu? Hvaða aðferð geta menn hugsað sér að finna handa samvinnufélögunum í þessu efni? Talsmaður Sambandsins svaraði því til að mjög vandasamt væri að tengja slík fríðindi félagsréttindum vegna þess að ekki er víst hvort á að tengja þau viðskiptum, en aðild manna að samvinnufélögum byggist, eins og kunnugt er, mjög á viðskiptum. En hann vitnaði til þess að í Svíþjóð hefði verið fundin leið í þessu skyni til þess að tryggja samvinnufélögunum þessi réttindi.

Í framhaldi af þessu spurði ég talsmann Sambandsins: Er afstaða Sambandsins til þessara frv. byggð á því að hliðstæðar reglur verði fundnar fyrir samvinnufélögin við endurskoðun samvinnulaganna sem nú stendur yfir og að milli þessara tveggja frv. annars vegar og endurskoðunar samvinnulaganna hins vegar séu bein pólitísk tengsl? Svar fulltrúa Sambandsins var þetta: Já, það er okkar skoðun. Þ. e. afstaða Sambandsins til þessara frv. byggist á því að þeir treysta því að við endurskoðun samvinnulaganna fái Sambandið sams konar ívilnanir fyrir samvinnufélögin og gert er ráð fyrir í þessum frv.

Í gangi mun vera endurskoðun samvinnulaganna. Ég trúi að fyrrv. viðskrh. hafi komið því af stað, nefnd sem vann þá endurskoðun á hans vegum hafi gengið frá einhverjum pappírum og skilið eftir í höndum núv. hæstv. viðskrh. Ég vil spyrja hæstv. viðskrh.: Hvaða hugmyndir er hann með um ívilnanir handa samvinnufélögunum f þessu efni? Hvernig ætlar hann að ívilna samvinnufélögunum? Það er bersýnilegt að þeir Sambandsmenn gera ráð fyrir því að þeir fái það fyrir snúð sinn þegar þau frv. komast í gegn sem hér eru á dagskrá að samvinnufélögunum verði hyglað á eftir. Ég óska eftir því að hæstv. viðskrh. svari því með hverjum hætti þeir pólitísku samningar eru sem á bak við þessi frv. eru um að tryggja réttindi samvinnufélaganna?

Niðurstaðan af þessum viðræðum við fulltrúa Sambandsins var sem sagt fyrst og fremst sú að hann taldi að þarna væri út af fyrir sig ekki um að ræða mál sem væri ástæða til að stöðva eða fyrir samvinnuhreyfinguna að leggjast á móti, en hann vildi að samvinnufélögunum yrðu tryggð hliðstæð réttindi þegar samvinnulögin verða endurskoðuð. Ég vil sem sagt beina þessari spurningu til hæstv. viðskrh.

Nú er það svo með Sambandið að þar er ekki bara verið að tala fyrir samvinnuhreyfinguna og samvinnufélög. Það vill svo til að Sambandið er einhver umsvifamesti hlutafélagaeigandi í landinu og það kemur líka í ljós að Sambandið er einmitt fyrst og fremst með stór hlutafélög á sínum vegum. Hlutafélög Sambandsins eru milli 10 og 15 talsins að okkur er fortalið. Þetta eru það stór hlutafélög að þau munu flokkast undir þau fríðindi sem möguleikar skapast fyrir í þessum frv., þ. e. a. s. ef hlutafélaginu er vísað yfir á hendur einstaklinga vegna þess að frv., eins og þau eru hér, byggjast bara á hlutafjáreign einstaklinga en ekki samvinnufélaga. Þess vegna er alveg ljóst að ef hlutafélög Sambandsins ætla sér að njóta góðs af þessum breytingum verður að breyta þeim hlutafélögum frá því sem þau eru nú.

Mér fannst það athyglisvert sem fram kom í morgun hjá Geir Geirssyni — ég veit ekki hvort það er rétt að í rauninni væru þau hlutafélög í landinu sem nytu góðs af þessum lögum nú þegar teljandi á fingrum annarrar handar. Hann sagði að hlutafélögin gætu að vísu breytt samþykktum sínum til þess að möguleiki skapist á því fyrir þau að nota sér það sem hér er opnað fyrir, en að óbreyttum samþykktum væru kannske fimm hlutafélög í landinu eða svo sem gætu nýtt sér þær lagfæringar sem hér er verið að gera fyrir hlutafélögin.

Ég taldi nauðsynlegt, herra forseti, að gera grein fyrir þeim sjónarmiðum sem þarna komu fram írá fulltrúa samvinnuhreyfingarinnar og Sambands ísl. samvinnufélaga. Ég tel að mjög mikilvægt sé að Sambandið hefur fengið að koma sínum sjónarmiðum á framfæri. Sambandið er það stór aðili í atvinnurekstri í landinu að í raun og veru er varla hægt að hugsa sér að fram hjá því sé gengið þegar verið er að taka ákvarðanir af þessum toga og þess vegna hafi verið nauðsynlegt að koma málinu til n. og gefa þeim sambandsmönnum kost á að gera grein fyrir sínu máli. Ég vil þakka form. fjh.- og viðskn. Nd., Páli Péturssyni, fyrir að hann skyldi hafa orðið við þessari beiðni Alþb. frá í fyrrakvöld um að kalla í fulltrúa Sambandsins til viðræðna um þessi mál. Þannig sýndi Páll Pétursson skilning á því hve nauðsynlegt væri að ræða við Sambandið þegar fjallað er um mál af þessum toga.

Herra forseti. Afstaða okkar til þessa máls liggur út af fyrir sig fyrir og ég hef ekki mörgu við það að bæta. Eins og ég gat um áðan höfðu menn gert ráð fyrir því að umr. gæti lokið áður en þessi sólarhringur væri allur ef ekki hefði fram komið þessi brtt. frá hæstv. fjmrh. En ég tel að ekki eigi að þurfa að liða langur tími af fundarhöldum hér í hv. deild áður en þessi mál eru afgreidd. Þau hafa fengið rækilega meðhöndlun og afstaða Alþb. liggur þar ljós fyrir. Við höfum verið andvígir þessum frv. og greitt atkvæði gegn þeim og munum einnig gera það við 3. umr. málsins þegar atkvæðagreiðsla fer fram.