28.03.1984
Neðri deild: 67. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4266 í B-deild Alþingistíðinda. (3644)

159. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Páll Pétursson:

Herra forseti. Vegna orða hv. 3. þm. Reykv. vil ég taka fram að að sjálfsögðu kvaddi ég saman fund í n. til þess að ræða við fulltrúa Sambands íslenskra samvinnufélaga eins og ég hafði gefið fyrirheit um við umr. í deild. Fundurinn var þó ekki einungis kvaddur saman til þess að ræða við fulltrúa Sambandsins þó að það væri að vísu nokkuð erindi, heldur einnig til þess að taka til meðferðar brtt. sem lögð hafði verið fram af hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur. Geir Geirsson endurskoðandi kom á fund nefndarinnar og hann var ekki kosinn þar sem slíkur af Framsfl. Hann var sendur fyrir hönd forstjóra Sambands ísl. samvinnufélaga. Hins vegar var hann tilnefndur af Framsfl. til að taka þátt í samningu þessara títtnefndu frumvarpa.

Hann leysti greiðlega úr spurningum nm. Mér fannst hann komast skynsamlega að orði og upplýsa það sem hann var spurður um. Hitt er alveg öruggt að ekki liggur fyrir aðalfundarsamþykkt frá aðalfundi SÍS um 159. og 160. mál, enda kannske tæplega hægt að ætlast til þess vegna þess að þau mál eru nýlega tilkomin, en aðalfundur hefur ekki verið haldinn síðan á s. l. sumri. Það er mjög lofsvert ef hv. þm. Svavar Gestsson sér fyrir hagsmunum Sambands ísl. samvinnufélaga. Maður sefur að sjálfsögðu miklu rólegri að vita það að við samvinnumenn eigum svo góðan hauk í horni sem Svavar Gestsson sjáandi fyrir hlut samvinnuhreyfingarinnar. En ég vil skýra frá því við þessa umr. að ég mun boða fund í fjh.- og viðskn. kl. 11 í fyrramálið og taka þá fyrir þessa brtt. frá fjmrh. sem hér hefur verið lögð fram. Ég get reyndar lýst því yfir að á þeim fundi mun ég gera það að till. minni að þetta ákvæði til bráðabirgða verði samþykkt.