29.03.1984
Efri deild: 72. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4267 í B-deild Alþingistíðinda. (3656)

159. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. minni hl. (Ragnar Arnalds):

Virðulegi forseti. Þm. Alþb. greiddu atkv. gegn þessu frv. ásamt nokkrum öðrum stjórnarandstöðuþm. við afgreiðslu málsins hér í deildinni á sínum tíma. Afstaða okkar hefur að sjálfsögðu ekki breyst þrátt fyrir þær breytingar sem gerðar hafa verið á málinn í Nd. Þó vil ég taka það fram að ég tel ekki að þessi breyting út af fyrir sig geri frv. neitt verra en það var, þ. e. að menn megi nota núgildandi varasjóðsheimildir í stað þessara nýju heimilda sem eru í frv. Frv. verður því ekki óaðgengilegra þess vegna.

Hitt er annað mál, að þessi heimild í núgildandi lögum til þess að leggja 25% í varasjóð í félögum, sem telja fram sem sjálfstæðir skattaðilar, hefur alltaf verið til þess eins að draga úr skattgreiðslum fyrirtækja sem eru með þessu rekstrarformi. Hún hefur auðvitað aldrei verið neitt annað en hrein skattalækkunaraðferð og verður það að sjálfsögðu áfram á meðan hún er notuð. Þetta vildi ég að fengi að koma hér fram vegna þess að þessi skattalækkunarheimild sem verið hefur um langt skeið, að draga megi 25% frá áður en skattur er lagður á, á að gilda áfram. Þar er auðvitað ekki um neitt annað að ræða en aðferð til þess að gera atvinnurekstrinum í landinu kleift að borga miklu minni skatta en honum ber og hann ætti að gera frá almennu sjónarmiði.