01.11.1983
Sameinað þing: 12. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 500 í B-deild Alþingistíðinda. (366)

33. mál, könnun á kostnaði við einsetningu skóla

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Það var skorað á feður landsins, eins og ég held að það hafi verið orðað hér, að segja hug sinn í þessu máli. Ég vildi nú gjarnan líka að landsfeðurnir segðu eitthvað um þetta mál en ég sé ekki að það sé neinn hæstv. ráðh. hér viðstaddur að sinni a.m.k. og má nú vera að þeir hafi talað í málinu hér áður. Ég var hér á fundi í hliðarherbergi og fylgdist kannske ekki nógu gjörla með því sem hér gerðist. (Gripið fram í.) En sem sagt, landsfeðurnir eiga þá eftir að tjá sig. En ég get verið í rauninni stuttorður um þetta mál. Ég lýsi stuðningi við efni þessarar till. í einu og öllu. Raunar finnst mér það ekki nægt tilefni hjá þm. að koma eingöngu upp til þess að lýsa stuðningi við góð mál eins og menn gera nú töluvert af. En vegna þess að hér var skorað á þm. karlkyns að segja hug sinn til þessa máls þá skal ég með ánægju verða við því og lýsa eindregnum stuðningi við þau markmið sem felast í þessari þáltill. Hér er um hið þarfasta mál að ræða sem vissulega er allrar athygli vert.

Það segir hér í lok grg. með þessu frv., með leyfi forseta:

„Allt skólastarf, og þar með taldar úrbætur af því tagi sem till. fjallar um, ber að vinna í sem nánustu samstarfi við heimilin (eins og raunar er kveðið á um í grunnskólalögum) og samtök foreldra. Markmiðið með samfelldum skóladegi á ekki að vera að minnka hlut heimilisins í uppeldi barna heldur að styrkja þau með því að auðvelda allri fjölskyldunni að stunda vinnu sína á eðlilegum vinnutíma og njóta síðan samvista í sameiginlegum tómstundum.“

Við allmarga skóla er það svo að þar eru starfandi foreldra- og kennarafélög. Nú er það svo, held ég líka, að þessi félög eru ákaflega misvirk og ég held að það sé kannske bara einn af göllunum á okkar skólakerfi að foreldrum og aðstandendum barna hefur oft ekki verið gert nægilega auðvelt að taka þátt í skólastarfinu og hafa áhrif á hvernig það mótast. Ég held að þennan þátt í íslensku skólastarfi, þ.e. samstarf kennara, foreldra og nemenda, eigi að efla mjög frá því sem verið hefur. Ég held að það sé mjög brýnt verkefni. Það er ekki aðeins að ýmiss konar óhagræði, sem e.t.v. má leiðrétta og laga með tiltölulega litlum tilkostnaði, sé við lýði í skólastarfinu heldur hlýtur það að vera foreldrum áhyggjuefni hversu illa er búið að skólunum á ýmsan hátt, t.d. að því er varðar tækjabúnað til kennslu. Á fundi í foreldra- og kennarafélagi eins af grunnskólum Reykjavíkur núna fyrir fáeinum vikum var það t.d. aðalumræðuefni fundarins hvernig foreldrar og kennarar gætu í sameiningu sníkt eða safnað peningum þannig að skólinn gæti eignast jafn einfaldan hlut eins og myndsegulbandstæki sem nú er til á öðru hverju heimili, að ekki sé talað um örtölvu sem sjálfsagt verður til á hverju heimili áður en mjög langt um líður og kostar um 9 þús. kr. Skólarnir eiga ekki þessi tæki og hafa ekki peninga til þess að kaupa þau þó að þessi tæki séu til á fjölmörgum heimilum og nánast á ferðinni flóðbylgja þeirra inn á heimilin. Þarna er gloppa í okkar kerfi.

Þetta snertir þetta mál kannske ekki alveg beint. Það er svona á jaðri þess. Það er um aðbúnað í skólunum og það viðurkenna allir að tölvulæsi nú orðið er nokkuð sem það unga fólk, sem er í skólunum núna, verður að kunna þegar það kemur til starfa og kemur út í lífið. Þarna hefur orðið brestur í kerfinu og þar verður að gera bragarbót. Ég held að þetta sé mjög alvarlegt mál þetta aðstöðuleysi í skólunum og tækjaskortur. Við höfum þar dregist langt aftur úr þeim þjóðum sem byggja löndin hér næst okkur, t.d. Bretlandseyjar og Norðurtönd.

Um þetta var haldin ráðstefna hér í Reykjavík nú fyrir skömmu þar sem mikið af skólafólki, bæði íslensku og frá Norðurlöndunum, hlýddi á fyrirlesara víðs vegar að um það hvernig þessum málum nú væri háttað. Og einmitt núna á þessari stundu milli kl. 4 og 5 þá hafði Skýrslutæknifélag Íslands boðað til fundar með þeim íslensku fulltrúum, sem sátu þessa ráðstefnu, til að íhuga hvernig ætti að bregðast við þessum vanda. Það gefur alveg auga leið að á þessu sviði þarf að gera átak og það er í rauninni aldeilis furðulegt að grunnskólar skuli ekki geta eignast tæki sem kosta á bilinu frá 8–10 þús. kr. Ég held að þeir skólar séu færri sem ráða t.d. yfir þessum litlu tölvum sem nú eru hér í annarri hverri búð en hinir sem hafa komið upp slíkum tækjum. Það eru dæmi þess í skólunum hér í Reykjavík að nemendurnir bera sjónvarpstæki heiman frá sér í skólana ef á að sýna mynd af myndsegulbandi vegna þess að slíkt er ekki til í skólunum. Þetta er býsna atgengt og þetta er auðvitað öllum til vansa. Og mér þykir miður að enginn hæstv. ráðh. skuli vera hér til að fylgjast með þessari umr. og þennan þátt aðbúnaðar í skólum er vissulega ástæða til að taka hér fyrir með öðrum hætti og knýja á um að þar verði bætt úr. Það þarf ekki að vera svo kostnaðarsamt en það er, held ég, forsenda þess að skólarnir geti skilað nemendunum úf í lífið með nokkra þekkingu á því sem allir telja nú orðið nauðsynlegt. Vel má vera — þó að það sé kannske ekki þessa dagana —að tölvulæsi verði talið jafn sjálfsagt eins og nú er talið að lesa og skrifa; vel kann að vera að það líði skemmri tími þar til svo verður en okkur grunar.

En, herra forseti, ég lýsi eindregnum stuðningi við efni þessarar tillögu.