29.03.1984
Sameinað þing: 72. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4294 í B-deild Alþingistíðinda. (3671)

184. mál, friðarfræðsla

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Ég þakka forseta fyrir að heimila mér að bera af mér sakir, en til þess er ég hingað kominn.

Hv. þm. Steingrímur Sigfússon bar mér það á brýn að ég hefði farið lofsamlegum orðum um breska heimsveldið. Það er misskilningur hans. Ég fór lofsamlegum orðum um breskt lýðræði sem gerði fórnarlömbum breskrar heimsvaldastefnu kleift að ná til bresks almennings með sinn málstað, öðlast þar þann stuðning sem kannske skar úr um árangurinn af baráttu þeirra.

Hv. þm. bar þeim sem andstæðir eru þessari till. það á brýn að þeir væru að andmæla því að sú skoðun væri boðuð að leita beri friðsamlegra leiða. M. ö. o. hann bar okkur sem andvígir eru þessari till. það á brýn að við værum fjandmenn friðar. Ég get ekki annað en látið í ljós undrun mína vegna þess að ég tók eftir því að hv. þm. hefur setið undir þessum umr. og hefur þá hvorki skilið upp né niður í því, um hvað þær snérust.

Hv. þm. nefndi tvö dæmi til marks um það, hversu vopn væru þýðingarlaus. Hann nefndi örlög þjóðar á Tasmaníu sem hefði verið útrýmt, ein af mörgum. Af hverju var henni útrýmt, herra þm.? Það var vegna þess að hún gat ekki borið hönd fyrir höfuð sér. Henni var útrýmt af þeim sem meiri höfðu vopnastyrkinn.

Hv. þm. nefndi annað dæmi um indíána Norður-Ameríku sem var svo að segja útrýmt af þeim sem betri höfðu vopnin. M. ö. o. vopnleysi, léleg vopn, getuleysi til að verja sig í ofbeldisfullum heimi þýddi fyrir þessar þjóðir útrýmingu. Niðurstaðan: Vopn eru hættuleg, búrhnífar eru hættulegir, berir hnúar á sterkum manni í reiðiham eru hættulegir. (Forseti hringir.)

Herra forseti. Ég er að ljúka máli mínu. En það er fyrst og fremst fólk sem er hættulegt fremur en vopnin sjálf. Að lokum ein athugasemd, herra forseti. Vitnað var til þess að Nóbelsskáld þjóðarinnar, Halldór Kiljan Laxness, hafi lýst því hvernig hann hafi sætt ofsóknum fyrir að flytja málstað friðar fyrr á árum. Ég rifja það upp að andmælin við málflutning Nóbelsskáldsins voru ekki fyrir það að flytja málstað friðar, heldur fyrir það að ganga erinda ofbeldisafla.