29.03.1984
Sameinað þing: 72. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4310 í B-deild Alþingistíðinda. (3677)

186. mál, takmörkun á umsvifum erlendra sendiráða

Utanrrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Ég get látið nægja að drepa aðeins á örfá atriði sem ræða hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar, 5. þm. Austurl., gefur tilefni til. Hann vék fyrst að því að ég vildi gera lítið úr því að íslenskir starfsmenn væru svo margir að störfum í sendiráði Bandaríkjanna sem raun ber vitni. Ég geri út af fyrir sig ekkert lítið úr því en ég tel það að ýmsu leyti tryggingu fyrir því að sú starfsemi sem þar fer fram innan dyra þoli dagsins ljós gagnstætt því sem um er að ræða þegar sendiráð vilja ekki hafa í þjónustu sinni neina Íslendinga eða þegna þeirrar þjóðar sem sendiráðið er staðsett í.

Ég held einnig að það sé töluverður misskilningur hjá hv. 5. þm. Austurl. þegar hann leggur svo út af mínu máli að ég hafi talið að unnt væri að hafa fámenn íslensk sendiráð erlendis ef erlend sendiráð hér væru fjölmenn. Ég benti í fyrsta lagi á að fjölmenni erlendra ríkja, hvað snertir starfsfólk sendiráða hér á landi, væri m. a. fólgið í því að þessi ríki hefðu efni á því að hafa þann fjölda starfsmanna sem þau ríki teldu sér og hagsmunum sínum nauðsynleg. Ég tel aftur á móti að við höfum því miður ekki veitt nægilegt fé til þess að við gætum mannað sendiráð okkar erlendis eins og hagsmunir okkar krefjast. Auðvitað er þarna um mjög mörg matsatriði að ræða. Unnt er að komast af án þess að sinna ýmsum verkefnum sem fjölmennara sendiráð mundi sinna ella, en það er ekki alveg á borð leggjandi að aukið starfslið gefi alltaf eitthvað í aðra hönd. En í þessu mati eru hendur okkar Íslendinga mun bundnari en ýmissa þeirra þjóða sem hafa sendiráð hér á landi.

Í öðru lagi benti ég á það að við ættum ekki að amast við starfsliði í erlendum sendiráðum hér þótt við hefðum ekki efni á því að hafa samsvarandi marga í þjónustu okkar sendiráða í viðkomandi landi vegna þess að þessir menn væru e. t. v. ekki eingöngu að vinna að hagsmunum síns lands. Aukin viðskipti og tengsl milli viðkomandi lands og Íslands gætu einnig í mörgum tilvikum og jafnvel flestum komið okkar landi að gagni.

Það var aðeins í þriðja lagi sem ég nefndi að það væru ýmis mál sem vegna mannfæðar í sendiráðum okkar erlendis þyrfti í meira mæli en ella að reka í gegnum sendiráð erlendra ríkja hér á landi að einhverju leyti a. m. k. Þannig er ástæðulaust að gera síðasta atriðið að aðalatriði. Það var að þessu leyti aðeins ábending ásamt öðrum og dregur ekki úr þörf okkar á að hafa sendiráð okkar erlendis vel skipuð.

Ég vil líka taka fram að gefnu tilefni að það er ekkert óeðlilegt að við tækjum mið af því hvernig aðrar smáþjóðir eins og við fara með gagnkvæmnisregluna. Ég hygg að fjöldi starfsmanna í sendiráðum stærri ríkja hjá smáþjóðum sé almennt mun meiri en viðkomandi smáþjóð hefur hjá sendiríkinu. Í þessu sambandi má nefna Svía. Ég held að sovéskir starfsmenn í sendiráðum og konsúlötum séu töluvert á annað hundrað, eða jafnvel 146 — þetta er sagt skv. minni þannig að ég fullyrði ekkert endanlega um það. En í sendiráði Svía í Moskvu eru kannske 10–12 manns. Þarna ber okkur líka að bera saman bækur okkar við ýmsar aðrar góðar vinaþjóðir okkar hvernig rétt sé að standa að málum.

Varðandi vegabréfsáritun til Bandaríkjanna veit ég ekki betur en við Íslendingar sitjum alveg við sama borð og allar aðrar þjóðir. Ég hef í það minnsta staðið í þeirri meiningu að við nytum bestu mögulegra kjara af hálfu Bandaríkjanna í þeim efnum miðað við bandarísk lög. Við verðum auðvitað að ganga úr skugga um að við njótum bestu kjara í þessum efnum. Ef við njótum jafnréttis á við aðrar erlendar þjóðir og bestu kjara eru það eingöngu bandarísk lög sem valda- því að við verðum að fá vegabréfsáritun ef við ferðumst til Bandaríkjanna. Ef um gagnkvæmnisjónarmið væri að ræða þyrftum við að fá þeim bandarísku lögum breytt eða að þessi krafa væri niður felld. Ég býst við því að okkur þætti það e. t. v. vera óhæfilegt ef annað ríki ætlaði sér að blanda sér í slík mál en auðvitað gætum við skorið upp herör ásamt öðrum erlendum ríkjum og skorað á Bandaríkin að fella niður vegabréfsáritun. Þetta er önnur leiðin.

Hin leiðin er svo að taka upp vegabréfsáritun fyrir Bandaríkjamenn sem hingað koma. Ég staðhæfi það og undirstrika að ég tel það andstætt íslenskum hagsmunum og vera alger minnimáttarkennd ef við ætluðum að eyðileggja svo fyrir okkur ferðaþjónustu hér á landi sem við mundum gera með slíkum hætti.

Annars hef ég ákaflega gaman af þessum orðræðum okkar hv. flm. Ég átti síst af öllu von á því að ég sæti undir gagnrýni fyrir það að vera ekki nógu aðgangsharður gagnvart sovétmönnum hvað snertir takmörkun á stærð sendiráðs þeirra, hvað snertir húsakaup þeirra, hvað snertir ferðafrelsi þeirra. Og síst af öllu átti ég von á því að sá sem gagnrýndi mig að þessu leyti væri hv. 5. þm. Austurl.

En ég vil taka það fram, þó að ég taki ekki þessa gagnrýni alvarlega vegna þess að ég á hana ekki skilið, að ég hef ekki setið það lengi í embætti að ástæða sé til að bregða mér um aðgerðaleysi í þessu efni. Það var ekki mjög löngu eftir að ég tók við embætti að ég óskaði eftir að þessi mál yrðu könnuð til þess einmitt að gera sér grein fyrir hvort rétt væri að nota heimild í lögum, sem utanrrh. hefur, til að setja reglur varðandi þessi málefni. Þeirri könnun er ekki lokið og áður en henni er lokið tel ég ekki ástæðu til þess að taka afstöðu til hvort þessi heimild verður notuð né heldur að ganga endanlega til atkvæða varðandi það hvort Alþingi telur þörf á að undirstrika þessa þörf eins og í tillgr. stendur. Í raun og veru er unnt að setja slíkar reglur skv. gildandi lagaheimild og við getum borið saman bækur okkar um það í utanrmn., ef rétt þykir að setja slíkar reglur og menn eru almennt á eitt sáttir hvaða efni þær skuli innihalda, hvort ástæða sé til að Alþingi álykti sérstaklega um málið. En ég endurtek og ítreka að ég tel að hv. flm. hafi vakið máls á þörfu máli og mun halda áfram þessari meðferð málsins sem ég hef stuttlega gert grein fyrir að fram hafi farið í rn.